18.03.1955
Efri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

170. mál, lækningaferðir

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um lækningaferðir er stjfrv. og var lagt hér fram í deildinni fyrir skömmu.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv. og leitað umsagnar landlæknis. Hann mælir eindregið með samþykkt þess, enda mun hann sjálfur hafa samið frv. og hlutazt til um flutning þess. Nefndin leggur þá einnig til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og kunnugt er, hefur á vegum heilbrigðismálastjórnarinnar verið haldið uppi skipulögðum ferðum augnlækna um landið um árabil. Þetta fyrirkomulag hefur mælzt vel fyrir og þótt skapa bæði þægindi og aukið öryggi fyrir fólkið úti á landi. Með þessu frv., ef að lögum verður, er tveimur þáttum bætt við. Það yrðu þá teknar upp skipulagðar ferðir sérfræðinga í háls-, nef- og eyrnasjúkdómum og einnig tannlækna.

Á fjárlögum yfirstandandi árs munu veittar rúmar 7000 kr. til ferða augnlæknanna, og það bendir til þess, að ekki ætti að verða af þessu stór kostnaðarauki.

Ég hygg, að þetta sé svo einfalt mál og augljóst, að ástæðulaust sé að fjölyrða um það. Eins og ég tók fram áðan, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.