22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

170. mál, lækningaferðir

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forsetl. Frv. þetta er komið frá Ed. og fékk skjóta afgreiðslu þar. Það má segja, að þetta sé ekki stórt frv., en ég hygg þó, að það geti verið allþýðingarmikið og komið að góðum notum fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.

Eins og kunnugt er, þá hafa átt sér stað augnlækningaferðir út um land undanfarin ár. Sérfræðingar í augnlækningum hafa farið frá Reykjavík á ýmsa staði á landinu, auglýst þær vel, áður en ferðirnar eru farnar, og fólk úr fjarlægum byggðum hefur svo komið og notið læknisaðgerða. Þetta hefur sparað mikinn kostnað, miðað við það, að allir hefðu þurft að fara til Reykjavíkur eða Akureyrar, þangað sem augnlæknarnir eru búsettir.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að háls-, nef- og eyrnalæknar og tannlæknar taki einnig upp slíkar ferðir, eins og augnlæknarnir hafa gert, í því skyni að auðvelda fólki að ná til þessara sérfræðinga, sem eru aðeins búsettir í reykjavík og örfáir á Akureyri.

Það er nú svo, að á yfirstandandi fjárl. eru 7200 kr. ætlaðar sem styrkur vegna augnlækningaferða. Ef gert væri ráð fyrir að þrefalda þessa upphæð vegna þess, að nú koma einnig tannlæknar og háls-, nef- og eyrnalæknar, þá yrðu þetta rúmar 20 þús. kr., sem þyrfti á fjárl. í þessu skyni til þess að fullnægja því á sama hátt og áður hefur verið gert. Nú vil ég ekkert fullyrða um það, hvort þetta er nóg, hvort ekki þyrfti að ætla eitthvað hærri upphæð en verið hefur, en ég hygg þó, að þetta geti verið nokkur mælikvarði og vísir til þess, að ekki verði hér um stórkostleg útgjöld að ræða. Hitt er svo vitað mál, að þetta er nauðsynlegt. Það sparar ákaflega mikla fyrirhöfn og ærinn kostnað fólki úti á landi, sem annars þyrfti að leita til sérfræðinganna hér í Rvík. Það hefur verið talað við sérfræðingana um þessi mál, og þeir eru fúsir til þess að leggja sig fram í þessu skyni, og er það vel.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að svo stöddu. Vænti ég þess, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja frv., svo að það megi verða að l. nú, og ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.