14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

4. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Barð. fyrir þær mjög vinsamlegu undirtektir, sem hann veitti þessu frv., því fremur, sem ég veit, að hann hefur einmitt mikið hugsað um þessi mál og kynnt sér þau öðrum þingmönnum fremur, m. a. lagt mikla vinnu í að skoða heimili fyrir ýmiss konar vandræðafólk erlendis. Það ætti að vera óþarfi, en ég vil þó taka það fram aftur, að þakklæti fyrir frv. á fyrst og fremst að beina til þeirra þriggja ágætu manna, sem það hafa samið, en að vísu hafa haft samráð við mig um nokkur atriði. Verkið er fyrst og fremst þeirra. Ég hafði fengið þá til þess að vinna það.

Ég vil taka það fram, að það er auðvitað mjög æskilegt, ef hv. n. telur sér fært að setja sig inn í endurskoðun hegningarlaganna í heild og gefa um það leiðbeiningar. Slíkt kann þó að vera erfitt fyrir fram. Og sem betur fer, þá hygg ég, að við séum allir nokkuð sammála því, að í þessum málum eigi að hafa eins mikla linkind og hægt er, og teljum, að harðar refsingar stoði tiltölulega lítið.

Þau ár, sem ég hef verið dómsmrh., hef ég kynnzt mörgum af þeim ógæfusömu mönnum, sem lent hafa í afbrotum. Sannleikurinn er sá um yfirgnæfandi meiri hluta þeirra, að það er, eins og sagt hefur verið, meira af tilviljun en illsku hugarfarsins, að þeir hafa lent í afbrotum. Það verður að segja það eins og er, að langoftast er orsök afbrotanna vínneyzla. Það er undantekning hér á landi að minni reynslu, ef ofnotkun áfengis á ekki verulegan þátt í afbrotum, og jafnvel þeir, sem hvað eftir annað lenda í afbrotum og eru því auðsjáanlega veikari fyrir en aðrir, halda sér oftast nær utan afbrota, meðan þeir geta haldið sér frá neyzlu áfengis, en þegar þeir taka til hennar, þá er oftast nær skammt til afbrotanna. Þetta eru sannindi, sem ekki verða umflúin, og kemur því ekkert við, hvaða reglur menn vilja hafa um veitingar áfengis í landinu. Staðreynd er það, að ákaflega mikið samband er hér á milli neyzlu áfengis og afbrota, vegna þess að eiginlegt afbrotaeðli virðist vera í svo ákaflega fáum mönnum hér, sem betur fer. Þess er líka að geta, að mörg af þeim afbrotum, sem hafa með réttu vakið einna mestan óhug manna hér, ofbeldisárásir og annað slíkt, eru framin af mönnum, sem sýnast vera mestu hæglætis- og heiðursmenn í daglegu lífi, en gera þetta í ölæði, og það hefur algerlega nægt til að koma þeim á rétta braut að halda þeim frá drykkjuskap. Það má deila um, hvaða gagn refsingar hafi á slíka menn. Oft er það þannig, að þegar þeir eru með sjálfum sér og eru komnir til sjálfs sín, þá er meðvitundin um það óhapp, sem þeir hafa gert, bezta áminningin um það, að þeir forðist að gera það aftur. Vegna hinnar almennu réttarvörzlu er auðvitað ekki hægt að sleppa slíkum mönnum nema að mjög vel athuguðu máli frá refsingum. Víða annars staðar mundu slíkir menn verða settir á sérstakt vinnuhæli og annað slíkt, eins og hv. þm. Barð. gat um. Hér á landi er þetta nokkuð öðruvísi. Við höfum ekki slík margs konar hæli og getum illa komið þeim upp sökum okkar fæðar, en það er enginn vafi á því, að það starf, sem fangahjálpin hefur unnið undir forustu Oscars Clausens um að koma slíkum mönnum fyrir á góðum heimilum úti um land og fylgjast þar náið með þeim, er í mörgum tilfellum betra en að setja þá í hegningarhús eða refsivíst. Hitt er svo annað mál, að okkar refsivist er ákaflega mild, fangelsið á Litla-Hrauni er ákaflega mildilega rekin stofnun. En þó er það svo, að það er sannfæring mín, að það á að reyna í raun og veru öll úrræði við menn, áður en þeir eru settir á slíka stofnun, vegna þess að í sárafáum tilfellum verður hún til mikillar betrunar.