24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég var forfallaður við 2. umr. málsins, en hafði hugsað mér í framhaldi af því, sem gerzt hafði í hv. fjhn. varðandi málið, að láta í ljós fáeinar athugasemdir, en ég hef skrifað undir nál. fyrirvaralaust.

Ég hafði hugsað mér að benda á það, þó að ef til vill hljómi það nú undarlega, að nú er árið 1955, en hér er Alþ. að fjalla um frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 195f. Á þessu þarf að verða breyting. Það er allt of mikill seinagangur á endurskoðun ríkisreikninganna og því, að Alþ. taki þá til afgreiðslu á þann hátt, sem lög og stjórnarskrá mæla fyrir.

Þá vildi ég enn fremur benda á það, sem einnig bar á góma lauslega í n., að yfirskoðunarmenn gera fjölmargar athugasemdir við ríkisreikningana, sem að vísu er svarað af ríkisstj., en tveimur svörum ríkisstj. er vísað til aðgerða Alþ., en fjölmörgum er svarað á þann hátt, að endurskoðunarmennirnir telja aðfinnslurnar vera þess eðlis, að þær séu til viðvörunar framvegis.

Þá finnst mér eðlilegt, þegar ríkisreikningurinn kemur til endanlegrar afgreiðslu á hinu háa Alþ., að þess sé getið af hálfu ríkisstj., hvort tekið hafi verið tillit til þessara viðvarana endurskoðunarmannanna, þegar þær eru orðnar jafngamlar og hér á sér stað. M.ö.o. finnst mér eðlilegt, þegar ríkisreikningurinn kemur endanlega til afgreiðslu, að ríkisstj. skýri frá því, hvort eftir þeim viðvörunum, sem endurskoðunarmennirnir hafa látið í ljós, hafi verið farið eða ekki, því að mörg þessara atriða eru þannig, þó að sum séu að vísu smávægileg, að hægt á að vera núna að gefa upplýsingar um það, hvort nokkurt mark hafi verið tekið á viðvörunum og tillögum yfirskoðunarmannanna eða ekki.

Ég skal ekki lengja þessa umr. að þessu sinni, en aðeins grípa niður á fáeinum stöðum í athugasemdum yfirskoðunarmannanna, algerlega völdum af handahófi, og taka dæmi um það, þar sem svör ríkisstj. hafa ekki verið talin fullnægjandi og athugasemdin er til viðvörunar framvegis. Dæmin eru aðeins örfá, sem ég tek, og valin af handahófi.

Þess er t.d. getið, að útistandandi skuldir Tóbakseinkasölu ríkisins hjá erlendum viðskiptamönnum hafi í árslok 1952 verið 575 þús. kr. og hjá innlendum viðskiptamönnum hvorki meira né minna en 3.9 millj. kr. Þess er enn fremur getið, að tóbakseinkasalan hafi varið á þessu ári um 40 þús. kr. til auglýsinga, og endurskoðunarmennirnir spyrja, án þess að við því hafi fengizt nokkurt viðunandi svar, og það er talið til viðvörunar framvegis, hvers vegna þessi stofnun sé að verja fé til auglýsinga, þar sem hún hafi einkasölu á vörum sinum. Tóbakseinkasalan hefur enn fremur tapað um 30 þús. kr. af útistandandi skuldum, og telja yfirskoðunarmennirnir þetta ekki benda til þess, að nægilegrar varúðar hafi verið gætt við útlán stofnunarinnar.

Ein athugasemd yfirskoðunarmannanna er um það, að útvarp frá Ólympíuleikjunum í Helsingfors hafi á sínum tíma kostað 25 þús. kr., og telja þeir þetta bera vott um heldur litla ráðdeildarsemi í meðferð opinbers fjár.

Allýtarlegar athugasemdir eru um afkomu Skipaútgerðar ríkisins, en rekstrarhalli á henni varð á þessu ári 8.6 millj. kr. Er það hvorki meira né minna en tæpar 5 millj. kr. umfram það, sem gert var ráð fyrir í fjárl.

Nokkrar athugasemdir eru um Innkaupastofnun ríkisins. Yfirskoðunarmenn benda réttilega á það, að til þess hafi ekki verið ætlazt, að sú stofnun stundaði útlánastarfsemi til sinna viðskiptamanna, en engu að síður séu útistandandi hjá viðskiptamönnum 750 þús. kr. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það, hvort á þessum starfsháttum innkaupastofnunarinnar hafi orðið breyting eða ekki, en eðlilegt virðist að gefa um það upplýsingar. Þó að þessi stofnun hafi verið tekin til starfa fyrir nokkrum árum, þá voru engu að síður keypt á árinu 1952 innbú og áhöld fyrir næstum 60 þús. kr. til þessarar stofnunar, þó að hún hefði auðvitað átt að vera fullbúin að innbúi og áhöldum, þegar hún tók til starfa. Finna endurskoðunarmennirnir réttilega að þessu.

Þá er enn fremur ein aths. yfirskoðunarmanna, sem ástæða er til þess að vekja athygli á, því að sú aths. er til sérstakrar viðvörunar framvegis. En þess er getið í 22. aths. í sambandi við kostnað við sauðfjárveikivarnir, að árið 1951 hafi uppeldisstyrkur numið 60 þús. kr., en 1952, það ár, sem þessi reikningur er fyrir, hafi hann numið 1.4 millj. kr. og að næstum öll þessi greiðsla hafi verið innt af hendi án fjárlagaheimildar; greitt hafi verið án fjárlagaheimildar, að því er virðist með einfaldri ákvörðun ríkisstj., í uppeldisstyrk 1:3 millj. kr. Við þessu fengust engin fullnægjandi svör af hálfu hæstv. ríkisstj., og er þetta auðvitað til alveg sérstakrar viðvörunar framvegis.

Þá vil ég að síðustu benda á það, sem fram kemur í athugasemdum yfirskoðunarmannanna, að ríkissjóður hefur orðið fyrir miklum töpum af þeim ábyrgðum, sem hann hefur tekizt á hendur, en á árinu 1952 þurfti ríkissjóður að greiða hvorki meira né minna en 8.2 millj. kr. vegna ábyrgða, sem hann hafði tekizt á hendur, og er það mikið fé. Það væri einnig ástæða til þess, að ríkisstj. skýrði frá því, hvort síðan hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að ganga tryggilega frá þessum málum, þannig að slík geysileg ábyrgðatöp lentu ekki á ríkissjóði og þar með skattborgurunum.

Allra síðast mætti svo enn fremur benda á það, að yfirskoðunarmennirnir taka réttilega fram, að endurskoðun reikninga ýmissa ríkisstofnana sé enn mjög ábótavant. Þó að þeir segi að vísu, að þar hafi færzt í betra horf frá því, sem áður hafi verið, nefna þeir nokkrar stofnanir, sem reikningar fyrir árið 1952 séu enn óendurskoðaðir fyrir í maí 1954, þ.e.a.s. tveim árum seinna, en það eru eftirtaldir reikningar: um veitingaskatt, reikningar landssímans, reikningar yfir lögreglukostnað, reikningar tollstjóraembættisins, — þetta eru engin smáembætti, sem hér er um að ræða, — reikningarvegna vegamála, reikningar Tryggingastofnunarinnar, reikningar Trésmiðja ríkisins o.fl. M.ö.o. er öll þessi endurskoðun tvö ár á eftir tímanum.

Margt fleira væri um þetta að segja, ef mér þætti ástæða til þess að lengja þessar umr. nú við 3. umr., en til þess sé ég ekki ástæðu. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að mér fyndist það eðlilegur háttur, þegar ríkisreikningarnir koma loksins til endanlegrar afgreiðslu Alþ.,ríkisstj. gæfi þá Alþ. upplýsingar um, hvort hún hefur treyst sér til þess að taka tillit til ábendinga yfirskoðunarmannanna, og ef svo er ekki, þá hvaða rök liggja til þess.