24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Það hefur verið af tveim hv. dm. rætt hér nokkuð um aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn. Eitt af því, sem þar er bent á, er það, að óinnheimtar ríkistekjur séu meiri en áður; þessar eftirstöðvar hafi farið vaxandi að undanförnu.

Ég vil aðeins benda á það í þessu sambandi, að það gefur tæplega rétta mynd af ástandinu að bera saman upphæðirnar. Ég hygg, að það væri réttara að athuga það, hvað hár hundraðshluti af þeim tekjum, sem til féllu á hverju ári, er óinnheimtur í árslok, ef menn vildu fá af þessu rétta mynd. Hins vegar hefur fjhn. í áliti sínu bent á, að það sé nauðsynlegt að gera það, sem unnt er hverju sinni, til þess að tekjur ríkisins og annarra opinberra stofnana innheimtist sem bezt.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm), sem er yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna, gat um það, að vissar ríkisstofnanir eyddu meira fé en þeim hefði verið ætlað á fjárl., og er það rétt. Hann nefndi hér sérstaklega eina stofnun, Ríkisútvarþið, enda hafa yfirskoðunarmenn gert sérstaka athugasemd um þá stofnun, og raunar hafa þeir gert það um þá stofnun, ef ég man rétt, á undanförnum árum. Ég hef bent á það stundum áður í sambandi við þeirra athugasemdir um einstaka ríkisstofnanir, að það væri ekki alls kostar rétt að miða þarna við krónutölurnar. Það mætti gjarnan taka til athugunar, hvað umsetningin væri mikil hjá ríkisstofnununum, og réttara að reikna út, hvað umframeyðslan nemur miklu, miðað við tekjur þeirra og gjöld í heild.

Ég veitti því t.d. athygli nú við athugun á reikningnum, að það er önnur ríkisstofnun, sem ég hirði ekki að nafngreina, en er færð á 3. gr. fjárl. eins og Ríkisútvarpið, og sú stofnun hefur eytt hlutfallslega miklu meira fé fram yfir heimildir fjárl. heldur en Ríkisútvarpið. Umframgreiðslurnar hjá þeirri stofnun eru hlutfallslega miklu hærri en hjá útvarpinu.

Eins og ég sagði, hefur þetta komið fyrir áður í athugasemdum yfirskoðunarmanna, og ég hef á þetta bent. Ég tel, að ef þeir sjá ástæðu til að taka út úr sérstakar stofnanir og finna sérstaklega að rekstri þeirra, þá eigi þeir að haga þessu þannig að sleppa ekki þeim, sem ef til vill hafa mest syndgað í þessum efnum ár hvert, en nefna sérstaklega aðrar, sem hafa þó ekki drýgt hlutfallslega eins miklar syndir. En við lögðum nú áherzlu á það í okkar nál. í fjhn., að það væri brýnt fyrir forstöðumönnum ríkisstofnana af þeim ráðuneytum, sem þær heyra undir, að gæta hófs í þessum efnum og takmarka útgjöldin, eftir því sem mögulegt er, við heimildir fjárlaga.

Það befur komið fyrir nú og áður, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa vísað athugasemdum sínum til aðgerða Alþ., eins og þeir nefna það. Nú er það svo, að þó að slíkt sé gert, þá stendur þingnefnd að ýmsu leyti illa að vigi að rannsaka þau mál ofan í kjölinn, og ég teldi þess vegna æskilegt, að sá háttur væri hafður á í framtíðinni, ef yfirskoðunarmenn sjá eitthvað sérstaklega athugavert og þeir telja ástæðu til fyrir Alþ. að láta til sín taka á einhvern hátt, að þá gerðu þeir sínar till. til þingsins um aðgerðir í þeim málum. Ég tel, að þeir, sem hafa það verk að athuga þessa reikninga og rannsaka öll fskj. og allan reksturinn yfir höfuð, standi betur að vígi en þingn., sem hefur ýmsum störfum að gegna, að gera rökstuddar till. um úrbætur, ef finnanlegar væru.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um þetta.