19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er tvennt, sem ég vildi taka fram af tilefni nál. og framsöguræðu hv. þm. S-Þ. (KK). Annað er það, að ég tel, að yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna beri að láta fylgja till. sínum um að vísa málum til Alþ. út af aths., hvað það er, sem þeir vilja láta Alþ. aðhafast. Ég tek undir þetta, þetta er mín skoðun, og ég hef látið hana í ljós áður.

Hitt, sem ég vildi taka fram, er það, að ég er sammála um, að yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna beri að líta eftir því, hvort aths. þeirra hafa verið teknar til greina. Þeir eiga að láta gera sér grein fyrir því, hvort svo hafi verið eða ekki, og þeir eiga að láta fylgja um það annaðhvort sérstaka skýrslu eða taka það inn í aths. sínar við ríkisreikningana. Enn fremur sé þeim rétt að notfæra sér aðstoð ráðuneyta og ríkisbókhalds í þessu skyni.

Þetta tel ég vera skyldu yfirskoðunarmanna, en ekki fjmrn., eins og gefur líka að skilja, þar sem yfirskoðunarmenn eiga að líta eftir bæði fjmrn. og hinum ráðuneytunum.