19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég fellst alveg á þær athugasemdir, sem komið hafa hér fram varðandi landsreikninginn. En ég hef bara ekki minnstu trú á neinum umbótum í þessu efni, ef ekki eru gerðar breytingar, verulegar breytingar. Það eru mörg ár liðin siðan fjhn. gerði sams konar athugasemdir og hún gerir hér, og við sjáum, að það stendur alltaf í sömu sporum, nákvæmlega það sama, engar breytingar. Og ég tel það alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. segir, að það er ekki hans að gera þetta. Það er vitaskuld Alþingis sjálfs og fjhn.; henni bæri vissulega fremst skylda til þess að beita sér fyrir breytingum. Ég hygg bezt, að sett yrðu lög um, hvernig yfirskoðunarmenn eiga að framkvæma sitt starf. Mér er ekki kunnugt um, að nein ákvæði séu um starfsemi yfirskoðunarmanna, önnur en þau, sem stjórnarskráin geymir. Ég veit ekki til þess, að þeir hafi neinar reglur til þess að fara eftir í sínu starfi. En það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að yfirskoðunarmenn eru eða eiga að vera krítískir endurskoðendur, og þar af leiðandi eru þeir settir til höfuðs ráðherra. Það er því ekki von, að hann velti sér fyrir þeim umbótum, sem þarf að gera. Mér finnst þess vegna, að fjhn. eða Alþ. eigi að beita sér fyrir, að sett verði lög um starfssvið yfirskoðunarmanna.