19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. þm. Barð. tók fram. — Þessi hv. þm. sagði, að ég hefði ekki verið viljugur til þess að ræða þessi mál hér og í stað þess að ræða þessi mál af alvöru, þá hefði ég svarað með hálfgerðum skætingi. Ég veit satt að segja ekki, hvort það er hægt að taka þennan hv. þm. alvarlega, mér er það alls ekki ljóst. Það vita þeir kannske betur, sem sitja með honum hér í deildinni. Ég skrapp hér út áðan til þess að fá blek í pennann minn, og ég var ekki fyrr kominn út úr dyrunum en það kemur maður hlaupandi á eftir mér og segir, að hv. þm. Barð. krefjist þess, að ég sé inni í d. Og þegar ég kem inn aftur, mætir mér hér skætingur frá þessum hv. þm. fyrir það, að ég sé að flýja frá málinu, vilji ekki ræða við þingmenn, vegna þess að ég fór burt og var líklega eina mínútu eða kannske eina og hálfa mínútu. — Ég vil nú segja það þessum hv. þm., sem á að heita forseti þessarar d., að svona dónaskap ætti hann ekki að venja sig á, og ég lýsi því hér yfir sem skoðun minni, að ég tel það skömm fyrir þessa hv. d. að hafa þennan hv. þm. fyrir forseta. (Forseti: Ég vil leyfa mér að víta þessi orð.) Það er ekki nein ástæða til þess að víta þessi orð. (Forseti: Ég víti þessi orð.) Það er ekki nein ástæða til að víta þessi orð, því að það er skömm fyrir þessa d. að hafa hv. þm. Barð. fyrir forseta. (Forseti: Deildin ákveður af frjálsum vilja ...) Já, en ég ræð því, hvað ég segi. (Forseti grípur fram í.) Forseti getur reynt að taka af mér orðið, ef hann vill, en ég þagna bara ekki.

Ég segi það, sem mér sýnist um þetta og um hv. þm. Barð. (Forseti grípur fram í.) Hann hagar sér eins og dóni við hv. þingmenn og mig síðast áðan, og það hafa allir þm. heyrt, sem hér voru inni, að þetta er ekkert annað en dónaskapur hjá hv. þm. Barð., vegna þess að ég talaði hér um málið af fullri kurteisi, enda geri ég aldrei annað. En hv. þm. Barð. þarf ekki að ímynda sér, að ég sitji þegjandi undir stráksskap hans.

Þá var auðheyrt á því, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að hann hefur algerlega misskilið það, sem fram hefur farið um þetta mál. Hann sagði, að ég hefði breytt um skoðun í þeim orðum, sem ég sagði síðast, frá því, sem ég sagði fyrst. En það er alger misskilningur. Ég útskýrði skyldu yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna á nákvæmlega sama hátt í seinni orðunum eins og þeim fyrri. Þeirra skylda er að gera athugasemdir við það, sem þeim finnst miður fara í ríkisrekstrinum, fylgjast síðan með því, hvort þeim athugasemdum er framfylgt, og ef þeim er ekki framfylgt, að gera þá aftur athugasemdir og tillögur um það, hvað skuli gera. En það er ekki þeirra skylda, enda hafa þeir ekkert vald til þess, að gripa fram fyrir hendur framkvæmdavaldsins. Þeir hafa ekki framkvæmdavald. Þegar að því væri komið, yrði þingið að taka við og fylgja fram því, sem yfirskoðunarmennirnir hafa lagt til, ef það er þeim sammála.