19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki ræða mikið við hæstv. ráðh., meðan hann er í þeim ham, sem hann var hér nú í. Ég vil aðeins benda hv. deild á, að það er sannarlega ekki að vænta þess, að það sé hægt að fá samkomulag um afgreiðslu og framgang alvarlegra mála, ef t.d. hv. yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna, sem einnig eiga sæti hér á þingi, mæta slíkri samvinnu sem hann hefur sýnt í sambandi við þetta mál hér. Ég vil aðeins benda á það. — Þetta er miklu stærra mál en svo, að nokkur hæstv. fjmrh. geti leyft sér að leysa það á þann hátt að lýsa öðrum þm. á þann hátt, sem hann hefur gert hér, og ég vildi aðeins, áður en þessu máli er lokið, benda á, að það er ekki lausnin, sem bætir úr því ástandi, sem þetta mál er í.