01.03.1955
Neðri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fjhn. var öll sammála um þær brtt., sem hún hefur flutt og hv. frsm. n. hefur lýst, en nm. áskildu sér rétt til þess að flytja brtt. Við hv. 9. landsk. (KGuðj) höfum rætt það, eftir að málið var síðast rætt í hv. fjhn., að ástæða væri til þess að bæta tveim breytingum við þær brtt., sem n. öll er sammála um, og skal ég gera grein fyrir þeim í örfáum orðum.

Önnur er við 2. gr. Sú breyting felst í frv., eins og það nú liggur fyrir, að niður er felldur réttur starfsmanna ýmissa sjálfseignarstofnana, sem starfa í almenningsþágu, til þess að vera félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Um rökin fyrir þessu gat hv. þm. V-Húnv. ekki í ræðu sinni. Við hv. 9. landsk. teljum óeðlilegt, að niður sé felldur réttur starfsmanna ýmissa opinberra sjálfseignarstofnana til þess að vera félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þar eð benda má á, að sumar þeirra stofnana, þar sem starfsmennirnir nú mundu ekki hafa rétt til þess að verða félagar í lífeyrissjóðnum, eru algerlega hliðstæðar stofnunum, þar sem starfsmennirnir eru og eiga áfram að vera í lífeyrissjóðnum. Má nefna um þetta dæmi. Starfsmenn sjúkrasamlags Reykjavíkur eru félagar í lífeyrissjóði ríkisins. Starfsmaður sjúkrasamlagsins á Seyðisfirði er félagi í lífeyrissjóði ríkisins. En ef frv. yrði afgreitt eins og það nú liggur fyrir, þá ættu starfsmenn annarra sjúkrasamlaga í landinu ekki að hafa rétt til þess að verða félagar í lífeyrissjóði ríkisins. Þetta teljum við óeðlilegt og viljum bæta við 2. gr. ákvæði, sem mundi tryggja t.d. öllum starfsmönnum allra sjúkrasamlaga á landinu að geta orðið félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eins og starfsmenn sjúkrasamlags Reykjavíkur og starfsmaður sjúkrasamlagsins á Seyðisfirði eru orðnir nú þegar.

Hitt atriðið, sem við hv. 9. landsk. þm. teljum að þurfi að breyta, snertir það, að samkvæmt frv. er ætlunin að fella niður það ákvæði, að sé samanlagður aldur og þjónustutími opinbers starfsmanns orðinn 95 ár, þá tryggi það honum rétt til fulls lífeyris. Um rökin fyrir því ræddi hv. þm. V-Húnv. í ræðu sinni áðan, en við teljum, að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um það, að þeir, sem við gildistöku þessara l. eru sjóðfélagar, eigi þess kost að njóta fullra lífeyrisréttinda, þegar samanlagður aldur og þjónustutími þeirra er orðinn 95 ár, þ.e.a.s., að enginn, sem áður hefur gerzt sjóðfélagi, verði sviptur neinum rétti við gildistöku laga þessara. Þess er að vísu getið í grg. fyrir frv., saminni af stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að skilja beri ákvæði 8. gr. þannig, að enginn skuli missa neinna réttinda við samþykkt laganna, en við hv. 9. landsk. þm. teljum ekki öruggt, að síðar verði litið þannig á, og viljum binda það fastmælum í frv. sjálfu, að enginn missi þessa réttar, þ.e.a.s., að þeir, sem nú eru sjóðfélagar, skuli eiga þess kost að njóta fullra lífeyrisréttinda, þegar samanlagður aldur þeirra og þjónustutími er orðinn 95 ár.

Við höfum komið okkur saman um, hv. 9. landsk. þm. og ég, að tefja ekki framgang málsins með því að flytja skriflegar brtt. við frv. við 2. umr., heldur láta þessar till. bíða til 3. umr. Auk þess vinnst þá það, að n. fær væntanlega tilefni til þess að koma saman aftur og íhuga þær, og það er a.m.k. von okkar, að n. kynni þá að vilja taka tillit til þeirra og mæla með þeim: