22.04.1955
Efri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Barð. (GíslJ) um það, að eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf hér, þegar málið síðast var til umr., og eftir þá athugun, sem fram hefur farið á afstöðu fjhn., þá sé eðlilegast, að frv. gangi í þeirri mynd, sem það nú er, til Nd. og sjá, hverjar breytingar þar kunna á því að verða gerðar, þannig að fjhn. geti þá tekið afstöðu til málsins á ný, þegar það kemur aftur frá hv. Nd.

Hv. þm. Barð. benti á, að ef þetta frv. yrði ekki að lögum, þeim yrði ekki breytt, þá ynnu opinberir starfsmenn ekki neitt á því, vegna þess að þeir héldu þá áfram að greiða lengur en 30 ár iðgjald til sjóðsins. Þetta er rétt. En það er ekki nema hálfur sannleikur með þessu sagður, vegna þess að ef frv. er ekki samþ., þá helzt áfram sá réttur, sem er í gildandi lögum fyrir sjóðfélaga til þess að láta af störfum með fullum eftirlaunum, þegar þeir hafa náð samanlögðum aldri og starfsaldri 95 ár, þó að þeir séu ekki orðnir 65 ára gamlir, þannig að þessi réttur, sem ætlunin er að taka af með frv., helzt fyrir þá, sem ákvæðin taka til.

Ég skal ekki ræða þessar brtt., sem voru samþ. hér; það gerði ég við 2. umr. Það var ágreiningur milli mín og annarra hv. fjhn.- manna um það, hvort rétt væri að breyta frv. eins og það var, þegar það kom hér til deildarinnar, þannig að menn skyldu greiða iðgjöld lengur en 30 ár. En í frv. var gert ráð fyrir, að iðgjaldagreiðslur féllu niður, eftir að iðgjöld höfðu verið greidd af sjóðfélaga í 30 ár. Hitt atriðið, sem var ekki heldur samkomulag um hér í deildinni, var að ákveða slíkt í lögunum, og það var lagt til í frv., að ekki væri hægt að ganga að lífeyrisgreiðslum til greiðslu opinberra gjalda. Það er að sjálfsögðu minna atriði, en þó töluvert grundvallaratriði.

Ég mun greiða atkv. með frv. óbreyttu eins og það nú er við þessa 3. umr., í trausti þess, að þær lagfæringar fáist á frv. aftur í Nd., sem ég taldi með afstöðu minni til málsins hér við 2. umr. að nauðsynlegt væri að fá aftur gerðar á frv.