01.03.1955
Neðri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

137. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. (SkG) hefur skýrt hér frá, þá hefur farið fram rannsókn á þessu frv. í þeirri hv. n., og urðu nm. sammála þar um þær till., sem n. sem heild ber fram. En eins og tekið er fram í nál., hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, eða flytja brtt., og við þetta frv. munum við hv. 1. landsk. þm. (GÞG) flytja tvær brtt., þ.e.a.s. ef ekki næst samkomulag um það í n. á milli 2. og 3. umr., að n. standi öll að þeim brtt.

Í frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er gert ráð fyrir því, að gr., sem ákveður það, að samanlagður aldur og starfsaldur, þegar hann hefur náð 95 árum, gefi rétt til fulls lífeyris eða fullra eftirlauna úr sjóðnum, verði felld niður. Í frv. um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna — starfsmanna ríkisins — er gerð sú grein fyrir þessu, að menn byrji nú yfirleitt yngri í mörgum tilfeilum í starfi hjá ríkinu, og er í þeim l. gert ráð fyrir, að menn geti byrjað starf 18 ára sem sjóðfélagar í þeim lífeyrissjóði. Þess vegna á sú breyting nokkurn rétt á sér að því er varðar lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Um lífeyrissjóð barnakennara gegnir öðru máli, enda þótt sömu rökin séu fram færð fyrir þessari breytingu í því frv. Sjóðfélagar í þeim sjóði geta menn ekki orðið, fyrr en þeir eru 21 árs gamlir, sökum þess að þeir fá ekki réttindi til kennslu fyrr, og hefur það ákvæði staðið óbreytt um langan tíma. Sú niðurfærsla á starfsaldri byrjenda í þeirri grein, sem um er talað í frv. um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, er þess vegna alls ekki fyrir hendi að því er varðar lífeyrissjóð barnakennara. Það er þess vegna ekki tiltæk forsenda fyrir þessari niðurfellingu, sem hér er fram færð. Þess vegna munum við leggja til, að þessum ákvæðum núgildandi laga verði ekki raskað. Þess má einnig geta, að í stjórn lífeyrissjóðs barnakennara hefur ekki náðst neitt samkomulag um þetta. Enn fremur er vert að geta þess, að sambandsþing kennarasambandsins, sem haldið var á s.l. vori, beitti sér mjög eindregið gegn þessari breytingu, sem þá hafði borizt í tal.

Hin breytingin, sem við væntanlega munum beita okkur fyrir, liggur í því, að á öðrum stað í þessu frv. hefur verið stigið skref til þess að rýra réttindi, sem sjóðfélagar í lífeyrissjóði barnakennara eiga samkvæmt núgildandi lögum. Það er með þeim hætti, að í 17. gr. frv. segir í 2. málsgr.:

„Bætur, sem eftirlifandi börn sjóðfélaga fá greiddar samkvæmt lögum um almannatryggingar, skulu koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum þessum.“

Þetta er nýmæli og miðar að því að rýra þau réttindi, sem sjóðfélagar þarna hafa. Það er nú yfirleitt ekki þróun þessara mála, að réttindi sjóðfélaga séu látin rýrna, enda engin ástæða til á þeim tímum, sem nú eru, og þess vegna munum við beita okkur fyrir því, að þau ákvæði, sem um þetta eru í l., standi óbreytt. Þess má geta, að bætur almannatrygginganna í þessu tilfelli eru keyptar með sérstöku iðgjaldi, og hefur það þegar verið metið, að hve miklu leyti sjóðfélagar hinna ýmsu lífeyrissjóða njóti réttinda úr almannatryggingunum, og iðgjald þeirra miðað við það. Hér er þess vegna beinlínis gengið á þau réttindi, sem menn nú hafa.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að það er ekki ætlun okkar að tefja afgreiðslu þessara mála með því að biðja um afbrigði fyrir okkar skriflegu brtt., heldur munum við mælast til þess við formann hv. fjhn., að fundur verði haldinn um málið á milli 2. og 3. umr. og að þar verði málið tekið fyrir af n. í heild. Að öðrum kosti munum við flytja till. eins og þær eru hér boðaðar.