10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

137. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Viðkomandi fyrri brtt. á þskj. 443 og þar með varatill. get ég aðeins vitnað til þess, sem ég sagði um sama efni í umræðum hér áðan um frv. til l. um breyt. á l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, því að hér er um sama atriðið að ræða. Það er þessi margumtalaði lífeyrisréttur þeirra manna, sem hafa verið það lengi í opinberri þjónustu, að samanlagður aldur þeirra og þjónustutími er orðinn 95 ár.

Það er gert ráð fyrir því í þessum frv., að það gildi það sama um sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og um þá, sem eru í lífeyrissjóði barnakennara, og virðist það svo eðlilegt og sjálfsagt mál, að ekki þurfi um það að fjölyrða. En hér yrði munur á, ef þessi brtt. á þskj. 443 yrði samþykkt, hvort heldur er aðalbrtt. eða varatill.

Hv. frsm. og 1. flm. till., hv. 9. landsk. (KGuðj), segir, að ég muni ekki hafa rætt við stjórn lífeyrissjóðs barnakennara og ekkna þeirra, og er það rétt. En þetta frv. var samið af stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og um 7. gr. segja þeir, alveg á sama hátt og þeir segja um tilsvarandi breytingu á lögunum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins: „Hér er gert ráð fyrir að fella niður ákvæðið um, að sjóðfélagi, sem hefur náð 95 ára samanlögðum aldri og þjónustutíma, megi hætta störfum og taka eftirlaun. Breyting þessi getur þó ekki tekið til þeirra, sem orðnir eru sjóðfélagar fyrir gildistöku hennar.“ — Það gildir því nákvæmlega það sama um þetta hvort tveggja.

Um síðari brtt. þeirra skal bent á það, að höfundar frv. gera þá grein fyrir þeirri málsgr. 17. gr., sem hv. 9. landsk. og hv. 1. landsk. vilja fella niður, að í þeirri málsgr. felist það nýmæli, að barnalífeyrir frá slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins kemur til frádráttar samkvæmt lögum þessum. Ákvæði þetta er sett til samræmis við l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og það verður að teljast mjög eðlilegt, að það gildi um þetta sömu reglur í báðum sjóðunum.