08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

167. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér finnst það vera menningarmál að hafa samræmi í fasteignamatinu. Fasteignamatið er notað sem mælikvarði í mörgu tilliti, og er þá auðvitað afar þýðingarmikið, að ekki sé í því mikið ósamræmi.

Áður var ákveðið í lögum, að meta skyldi allar fasteignir á landinu á tíu ára fresti, og var þetta hugsað til þess að koma í veg fyrir, að stórfellt ósamræmi myndaðist vegna breytinga. Þetta ákvæði var numið úr lögum siðast þegar ný löggjöf var sett um fasteignamat. Nú hafa á hinn bóginn á síðustu árum orðið ákaflega miklar breytingar á verðmæti fasteigna, bæði fyrir það, að ýmsar framkvæmdir hafa verið gerðar, sem ekki eru metnar millimötum, og eins vegna hins, að ástæður hafa breytzt stórlega í einstökum byggðarlögum og þar með verðmæti eignanna. Er nú svo komið, að fasteignamat það, sem í gildi er, er tæplega til nokkurs nothæft, en er þó notað sem mælikvarði um mörg hin allra þýðingarmestu efni. Úr þessu þarf að bæta. Ýmsar stofnanir hafa látið til sín heyra og óskað eftir því, að hér yrði gerð á endurbót. Meðal þeirra er búnaðarþing, sem hefur skorað á hv. Alþ. að láta fara fram nýtt fasteignamat.

Með þessu frv. er lagt til, að fasteignamatið verði samræmt, en ekki gengið svo langt, að fram fari nýtt fasteignamat.

Er ekki ástæða til þess að gera grein fyrir þessu máli í einstökum atriðum, þar sem frv. fylgir grg., og efni frv. ætla ég að sé ljóst af greinum þess. En höfuðhugsunin er, að fram fari samræming á fasteignamatinu, en þó þannig, að engin fasteign verði hækkuð meira í verði en um 400% frá því, sem hún er áður. Ég hefði kosið, að þetta ákvæði hefði ekki verið í frv., en hef fallizt á til samkomulags að setja það í frv. Mér hefði fundizt eðlilegast, að fasteignamatið hefði verið samræmt, miðað við verð á eignum eins og það er nú. En ég tel það þó stórfellda bót frá því ástandi, sem nú er, að þessi samræming fari fram á þeim grundvelli, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég tek fram aftur, að ég tel menningarmál blátt áfram, að það sé samræmi í fasteignamatinu, að ekki sé haldið uppi augljósu ranglæti með ósamræmi í matinu á einstökum eignum. Hitt kann að vera minni nauðsyn, að fasteignamatið sé í sjálfu sér endilega réttur spegill af verðmæti eignanna. Þó væri æskilegt, að það væri sem næst því. Samræmið er þó höfuðatriðið, og þess vegna tel ég, að með þessu frv., ef að lögum verður, mætti ráða verulega bót á því stórkostlega vandræðaástandi, sem nú ríkir í þessum efnum.

Ég vil vekja sérstaka athygli á 9. gr. frv., sem er að efni til um það, að þegar nýtt fasteignamat samkv. þessum lögum gengur í gildi, skuli láta fara fram endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um eignarskatt svo og lögum nr. 66 1921, um fasteignaskatt. Á að miða þessa endurskoðun við, að skattar þessir hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins. Enn fremur er þarna ákvæði um, að þá skuli falla úr gildi allar ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamatsverði, og verði að koma nýjar ákvarðanir til. Þessi ákvæði eru í fyrsta lagi til þess að sýna, að það er alls ekki ætlun stjórnarinnar eða þeirra, sem standa að þessu frv., að það eigi að breyta fasteignamatinu til þess að afla tekna í ríkissjóð með hækkun á eignarskatti, heldur er þvert á móti mörkuð sú stefna í frv., að það skuli um leið samræma eignarskattstigann þannig, að skatturinn hækki ekki í heild sinni frá því, sem hann er. Hér er því aðeins um að ræða samræmingu á milli fasteigna og annarra eigna.

Niðurlag 9. gr. er til þess sett að koma í veg fyrir, að þau gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, hækki í nokkru tilfelli af sjálfu sér við það, að matið er samræmt, þar sem niður falla allar ákvarðanir, sem nú eru í gildi um slíkar greiðslur. Það verður að taka nýjar ákvarðanir um það, hvernig þau skuli vera. Er með þessu ákvæði alveg tryggt, að fasteignamatssamræmingin verði út af fyrir sig ekki þess valdandi, að slík gjöld hækki.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn. til athugunar.