18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

167. mál, fasteignamat

Pétur Ottesen:

Það má vafalaust til sanns vegar færa, að ýmis rök hnígi að því, að rétt sé og eðlilegt, að fram fari endurskoðun á fasteignamatslögunum, og þess vegna ekki nein ástæða til að andmæla því út af fyrir sig. En að því er snertir framkvæmd þessa máls, þá er í frv. þessu allmikið vikið frá þeirri reglu, sem fylgt hefur verið að undanförnu um fasteignamat. Lengi vel giltu þau ákvæði hér, að fasteignir skyldi meta tíunda hvert ár, og var þá svo ákveðið ávallt, að aðalmatið eða grunnmatið á fasteignunum færi fram í hverju héraði, þannig að skipuð var fasteignamatsnefnd fyrir hvert sýslu- og bæjarfélag á landinu. Þetta studdist að sjálfsögðu við það, að nauðsynlegur væri persónulegur kunnugleiki á aðstæðum í hverju héraði, sem vitanlega eru að verulegu leyti grundvöllur undir verðgildi fasteignanna, og sá kunnugleiki væri tryggður sem allra bezt. Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt reynzt mjög vel, því að reynslan hefur sýnt, að þrátt fyrir það að skipuð hafi verið landsnefnd, sem átti svo að endurskoða fasteignamat einstakra fasteignamatsnefnda, þá hafa tiltölulega litlar breytingar orðið á fasteignamatinu, a.m.k. var ekki raskað sambandinu á milli matsins innan hvers héraðs um sig. Þær litlu breytingar, sem gerðar hafa verið, hafa hnigið að því að samræma heildarmatið um land allt.

Nú er horfið frá þessari reglu samkvæmt þessu frv., og framkvæmd þessa máls byggist á starfi þriggja manna, tveggja, sem Alþingi kýs, og eins, sem fjmrh. skipar, og þessir menn sitja að þessum störfum hér í Rvík. Náttúrlega er ekkert hægt að segja um það fyrir fram, hvað víður er sjóndeildarhringur þessara manna, sem valdir verða til þess að framkvæma þetta mat, eða hvað mikla þekkingu þeir hafi til brunns að bera um aðstæður viða á landinu. En hitt leiðir af sjálfu sér, að sú þekking, þar sem hún er einskorðuð við svo fáa menn, hlýtur að vera ákaflega takmörkuð. Að vísu á að bæta hér úr með því, að þessi fasteignamatsnefnd á að hafa aðstöðu til þess að geta leitað upplýsinga hjá skattstjórum, yfirskattanefndum og svo undirskattanefndum, eftir því sem n. telur nauðsynlegt, og það fer þá að sjálfsögðu allmikið eftir því, hvaða óskir n. hefur fram að bera í þessu efni, hvaða till. muni koma um þetta frá skattanefndunum, því að það er ekki gert ráð fyrir, að þær leggi þar annað til mála en að svara þeim fyrirspurnum eða óskum, sem þeim kunna að berast frá fasteignamatsnefndinni. Það leiðir þess vegna af sjálfu sér, að það er engan veginn svo vel um það búið sem verið hefur að undanförnu, að fasteignamatið byggist á jafngóðum kunnugleika á staðháttum með þessari aðferð eins og áður var. Þá er enn fremur ráð fyrir því gert að byggja í verulegum atriðum á grundvelli núgildandi fasteignamats, en meta viðbætur allar, hús og ræktun. Þetta hefur nú verið gert hvað húsin snertir. En hér kemur fleira til greina, breyttar samgöngur, símalagningar, rafleiðslur o.fl., sem veruleg áhrif hefur á verðgildi fasteignanna. En þetta er ekki á færi neinna að meta, annarra en þeirra, sem vita af eigin raun, hver áhrif þetta hefur á hið raunverulega verðgildi fasteigna.

Hv. frsm. fjhn. taldi það vera kost á þessu frv., að með þessu móti mundi kostnaðurinn við framkvæmd matsins verða miklu minni en ef fylgt hefði verið því fordæmi, sem fyrir er um matið, og það byggt upp á sama grundvelli og áður hefur verið. Ég skal nú ekkert um þetta segja, en tel þetta vafasama ályktun, því að það fer nokkuð eftir því, hvað starfsemi skattstjóranna, yfirskattanefnda og undirskattanefnda verður umfangsmikil heima í héruðunum, því að að sjálfsögðu verður að borga þeim fyrir sitt starf. Ef það verk, sem þar á að vinna, á að veita nauðsynlegar upplýsingar í hendur matsnefndarinnar, þá er það gefið mál, að það þarf að leggja heima í héruðunum í þetta allmikið starf, og gæti þá vel farið svo, að áhöld yrðu um kostnaðinn. En hitt leiðir af sjálfu sér, að grundvöllurinn undir þessu verður miklu ótryggari en hann hefði orðið með því að halda sér við það fyrirkomulag, sem áður hefur verið um þetta efni.

Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri hér, þó að það sé nú raunar ekki alveg samkvæmt þingsköpum að vera að tala mjög almennt um málið við þessa umr., en ég átti þess ekki kost við 1. umr. að láta þessa skoðun koma hér fram.

Það er náttúrlega alveg rétt, sem hv. frsm. fjhn. sagði, að það er allmikið öryggi í því hámarki, sem hér er sett um það, hvað þetta mat megi fara hátt. En þó er gert ráð fyrir því, að hækkunin geti numið 400%, og er það allveruleg hækkun. Ef á mörgum stöðum verður farið upp í þetta hámark, þá er það engin smáræðis hækkun, en það hefur þessi þriggja manna fasteignamatsnefnd alveg á valdi sínu, hvað sem hver segir. Hún hefur hér alræðisvald, er hún getur notað eftir eigin geðþótta. Og það er svo fast að gengið um þetta, að af fasteignaeigendum er tekinn réttur til þess að kæra yfir því, ef þeim þykir á sig hallað. En þann rétt hafa þeir ávallt haft.

Í 9. gr. þessa frv. eru sett ákvæði um það, að þrátt fyrir hækkunina á matinu skuli eignarskattur og fasteignaskattur ekki hækka almennt vegna hækkunar fasteignamatsins. Ég veit nú ekki, hvað felst í þessu „ekki almennt“, en það felur að sjálfsögðu í sér, að það séu þó til einhver frávik frá því, að skatturinn hækki ekki, svo að það sé opin leið til þess, að hann megi þó eitthvað hækka í vissum tilfellum. Þetta orðalag hlýtur að fela það í sér. Nú er það vitað, að ýmsir aðrir skattar eru byggðir á fasteignamatínu, svo sem sýslusjóðsgjöld, sýsluvegagjöld, heimtaugargjöld, þar sem verið er að leggja rafmagn út um byggðir landsins, og sennilega er það eitthvað fleira, þó að ég hafi það ekki á takteinum þetta augnablikið, sem byggist á hæð fasteignamatsins. Það er að vísu talað hér um það einnig í 9. gr., að þó skuli við gildistöku endurskoðaðs mats falla úr gildi allar ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati, og koma nýjar ákvarðanir til. Má vera, að það, sem ég nú hef nefnt, heyri undir þetta. En það er augljóst mál, að það eru í þessu frv. ekki settar neinar hömlur á það, að þau gjöld, önnur en fasteignaskattur og eignarskattur, megi ekki hækka alveg eftir því, sem þeim sýnist, sem vald hafa og rétt til þess að leggja þessi gjöld á og skylt er að nota þennan skattstofn.

Ég vildi t.d. beina því til hv. frsm. fjhn. að athuga það t.d. að taka, að nú er vitað, að í þeim tilfellum, þar sem fasteignamatið mundi hækka um 400%, þá hækkar náttúrlega ákaflega mikið og í sömu hlutföllum t.d. heimtaugargjald við lagningu rafmagns út um byggðir landsins. Ég veit ekki, hvort fjhn. hefur hugsað sér að slá nokkurn varnagla við þessu. Eins og frv. liggur hér fyrir, er það ekki gert. Og ég er ákaflega hræddur um það, ef sá skattur á bændur, heimtaugargjöldin, ætti að hækka í hlutfalli við svo mikla hækkun á fasteignamatinu, þar sem hjá mörgum er nú þröngt fyrir dyrum og erfitt um að standast þann kostnað, sem leiðir af þessari nauðsynlegu framkvæmd, að dreifa rafmagninu út um byggðir landsins, að ef þetta ætti nú að bætast þarna ofan á, þá mundi það þyngja gönguna fyrir ýmsum, sem litla úrkosti eiga í því vegna fjárhagsaðstæðna að tileinka sér þessi mjög eftirsóttu og þörfu þægindi, sem felast í dreifingu rafmagnsins út um byggðir landsins. Þetta er náttúrlega til athugunar og eins ákvæði að öðru leyti um það, að ekkert hámark er hér sett almennt um aðra skatta í sambandi við fasteignamatið en fasteignaskatt og eignarskatt, og ég vildi nú í sambandi við þetta mál hreyfa þessum atriðum.