21.03.1955
Neðri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

167. mál, fasteignamat

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það mun ekki vera hægt að telja, að það sé að öllu leyti að ófyrirsynju, að endurskoðun og athugun fari fram á gildandi fasteignamati. Svo mikið hefur raskazt verðgildi hluta og verðhlutföll innbyrðis frá því, er síðasta fasteignamat fór fram, að það getur ekki talizt óeðlilegt, að fasteignamatið sé endurskoðað. Mér sýnist þó, að bygging frv. og framsetning þess öll bendi til þess, að aðalatriði málsins verði mat á þeim nýrri framkvæmdum, er fram hafa farið síðan siðasta fasteignamat var gert, og samræming á milli eldra mats, sem óneitanlega hefur raskazt mikið fyrir viðburðanna rás síðan aðalfasteignamatið fór fram. Þó að vísu sé að því vikið í 1. gr. frv., að endurskoðun eigi að fara fram á fasteignamatinu, þá skilst mér eftir öðrum ákvæðum frv., að lögð sé áherzla á mat hinna nýrri framkvæmda, sem gerðar hafa verið eftir að fasteignamatið fór fram, og athugun jafnframt innbyrðis á verðgildi hinna eldri eigna eða þeirra eigna, sem áður höfðu verið metnar.

Ef meiningin væri sú, að fasteignamat skyldi fara fram að öllu leyti á nýjum grundvelli, þá tel ég, að ekki sé varlega ákvarðað, hvernig þetta mat skuli gert. Þetta mat eiga að framkvæma þrír menn, eins og segir í 2. gr. þessa frv., tveir, sem kosnir verða af sameinuðu Álþingi, og einn, er fjmrh. skipar. Slík n. getur ekki haft nægan kunnugleika til þess að meta allar fasteignir, hvar sem er á landinu. Það er að vísu sagt í þessu frv., að þessi n. geti leitað til skattstjóra og yfirskattanefnda og þær þá einnig leitað til undirskattanefnda, eins og segir í 4. gr. þessa frv., og vissulega verður hægt að fá nokkrar upplýsingar um þetta efni á þennan veg. En ég efast samt mikið um það, að þær verði eins ýtarlegar og tæmandi og ef verkið væri unnið á þann hátt, sem áður hefur hér tíðkazt, að fyrst hafa verið undirbúnar tillögur frá hverri sveit og síðan höfð yfirnefnd í hverri sýslu, matsnefnd, til þess að meta allar fasteignir innan sýslunnar. — M.a. af þessu, hvernig þetta ákvæði er, geri ég ráð fyrir, að það sé rétt skilið hjá mér, að höfuðviðfangsefni þessarar nefndar sé að meta hinar nýrri framkvæmdir, bæði hvað áhrærir byggingar og umbætur alls konar ræktun á jörðum o.fl., o.fl. Mér finnst, að 3. gr. þessa frv. líka geri einmitt ráð fyrir þessu, því að þar er talað um, að til viðbótar gildandi fasteignamati eigi að fara fram athugun á því, sem gert hefur verið síðan 1942, bæði hvað ræktunarframkvæmdir og byggingar snertir, og einnig beri þá að taka tillit til þess, sem gengið hefur úr sér, þ.e.a.s. fella úr matinu þær byggingar og önnur mannvirki, sem eru ekki lengur til staðar og ber ekki að hafa lengur í mati. En í sambandi við slíkt vil ég á það minna, að þá er einnig nauðsynlegt, að fram fari ýtarlegri rannsókn á því, hvað fasteignir eða — við skulum segja — ræktunarframkvæmdir hafa gengið úr sér frá því, að fasteignamatið fór fram, hvernig ástatt er um þær nú, og tekið sé fullt tillit til þess, sem þær hafa rýrnað að gildi. Þessi viðfangsefni, bæði hvað áhrærir nýjar byggingar og ræktun síðan fasteignamat fór fram og einnig hvað slík mannvirki hafa gengið úr sér, á að vera mögulegt að geta fengið nokkurn veginn ljósar upplýsingar um, svo að þessir þrír menn geti komizt að sanngjarnri niðurstöðu um þessi atriði, því að það er vitaskuld ekki nema lítið brot, ef taka ætti fasteignamatið alveg frá grunni og til nýrrar athugunar, og er mikið annað mál.

En í sambandi við hinar nýrri framkvæmdir er samt sem áður margs að gæta, og þar verður algerlega að treysta á það, að heiman úr héruðunum komi það glöggar upplýsingar og skýrar, að matsnefndin, sem þetta verk á að vinna, geti áttað sig til fulls á því, um hvað mikið verðmæti er að ræða, því að annars er það ókleift verk, sem henni er ætlað að vinna, svo að réttlát eða sanngjörn niðurstaða verði fengin í hennar mati.

Það er um það getið í 5. gr. frv., að Búnaðarfélag Íslands eigi að gefa upplýsingar um ræktunarframkvæmdir, og þær vitaskuld verða nokkurn veginn tæmandi, en það er engan veginn nóg. Það þarf líka umsögn um það, hvað þessum ræktunarframkvæmdum liður. Það er ekki nóg að fá aðeins upplýsingar um það verðmæti, sem farið hefur til ræktunarinnar eða þessara framkvæmda, heldur einnig, hvað langt er komið áleiðis með slíkar umbætur og hve mikinn arð þær gefa þeim, sem þær á eða hefur kostað.

Ég vil í þessu sambandi benda á það um t.d. þá, sem ræsa fram lönd sín til ræktunar, að það er fjarri öllu lagi, ef á að taka þá upphæð, sem til þess hefur gengið, og telja þegar, að þar sé um aukið verðmæti á fasteigninni að ræða, því að eins og kunnugt er, þá líða nokkur ár frá því að slíkt er framkvæmt og þar til umbæturnar fara að gefa eigandanum eða þeim, sem framkvæmir þær, nokkurn arð. Ef um túnrækt er að ræða, þá verða að líða a.m.k. þrjú ár frá því að landið var fyrst brotið og þar til því er lokið og gera má ráð fyrir, að það gefi nokkurn arð.

Um þetta og ótalmargt fleira, t.d. framræslu í öðru skyni, þurrkun engja og þurrkun lands til beitar, eins og á sér stað orðið, þá má ekki telja, að fasteignin aukist að verðmæti eins og kostar að gera slíkar framkvæmdir.

Á þetta vil ég benda til þess að vekja athygli á því, að þeir, sem koma til með að hafa þetta verk með höndum, hafi aðgæzlu á öllu því, sem máli skiptir í þessum efnum.

Í 6. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að flokkun fari fram á fasteignunum og miðist við þá breytingu, sem orðið hefur síðan aðalmat fór fram, og sé lagt til grundvallar verðgildi fasteignanna eftir því, hvar þær eru. Fyrir fasteignamatið hlýtur þetta að vera eitt höfuðgrundvallaratriðið, og ég hygg, að við fasteignamöt, sem fram hafa farið, hafi þessa atriðis alls ekki verið gætt sem skyldi. Það verður vitaskuld um þetta efni að miða við það, hvað fasteignin gefur af sér, hvað miklar tekjur hún gefur af sér eigandanum eða þeim, er hana notar. Það er á allan hátt réttlátt, og er sjálfsagt að hafa einmitt góðar gætur á því. Það skiptir miklu meiru en aðeins að leggja til grundvallar verðgildi fasteignarinnar án tillits til þess, sem hún gefur af sér. T.d. er það svo með okkar atvinnugreinar, við skulum segja landbúnað og sjávarútveg, að báðar þessar atvinnugreinar, sem eru þó höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, þurfa að binda mjög mikið fé í sínum atvinnurekstri, sem getur ekki nema að nokkru leyti svarað vöxtum eða greiðslum til eigendanna af því verðmæti, sem í þetta er sett. Það er á allra vitorði, sem til þekkja, hvað landbúnaðinn áhrærir, að hann þarf að hafa afar mikið fé bundið í húsakosti, í íbúð fyrir fólk, sem að landbúnaðinum vinnur, og í peningshúsum. Þar við bætist svo í seinni tíð mjög mikið fjármagn, sem lagt er í verkfæri og vafalaust gefur oft og einatt bændunum, sem verkfærin nota, góðan arð, þ.e.a.s. léttir undir með starfi bóndans, og afraksturinn af starfinu verður miklu meiri miðað við það, sem áður tíðkaðist með ófullkomnari verkfærum. — Þess vegna vona ég og treysti, að þeir menn, sem fara höndum um þetta, gefi þessu góðar gætur, ella gæti þetta, ef ekki væri tekið nægilega tillit til þessara hluta, orðið til þess að íþyngja mönnum stórkostlega og það á ranglátan hátt.

Í þessari sömu grein, 6. gr. frv., er gert ráð fyrir, að hækkun á mati megi ekki fara fram úr 400%; það er það hæsta. Ég skal ekkert segja um, hvort menn hitta þar á það, sem hæfilegast er, — slíkt getur verið skoðunarmál, — en mikil trygging er auðvitað í því eftir þessu frv., að hærra verður ekki farið. En um það er ég ekki í neinum vafa, að ef ætti að verða svona allalgild regla, að fasteignamat ætti að hækka nokkuð mikið í áttina við hámarkið, þá mundi það víða koma illa við.

Í 9. gr. þessa frv. er ákvæði um það, að þegar þetta nýja fasteignamat er gengið í gildi, láti ríkisstj. fara fram endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um eignarskatt og lögum um fasteignaskatt, og endurskoðunin miðist við, að þessir skattar hækki ekki umfram það, sem verið hefur. Þetta er gott og blessað, og hvað áhrærir þessi gjöld þurfa menn ekki að kvíða, að þetta leiði til þess, að hækkun verði á þessum gjöldum eða mönnum verði umfram það, sem er, umfram þær reglur, sem gilda, íþyngt með þeim. Þá er og sagt í þessari gr., að við gildistöku endurskoðaðs mats falli úr gildi allar ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati, og komi nýjar ákvarðanir til, eins og stendur í greininni.

Samkv. þessum ákvæðum, ef að lögum verða, hækka þessi gjöld ekki samkv. ákvæðum laganna umfram það, sem þau eru. Til þess að svo verði, verða stjórnarvöldin, sem þar eiga hlut að máli, að taka sínar ákvarðanir. En engin minnsta trygging er samt sem áður í þessum ákvæðum, ef hlutaðeigandi stjórnarvöldum býður svo við að horfa, að þessi gjöld hækki ekki alveg í samræmi við fasteignamatið eins og það kann að verða. Og ég er ekki ánægður með þetta ákvæði eins og það er. Mér finnst, að ekki mætti minna vera en nokkur takmörk yrði að setja fyrir því, hvernig þetta yrði í framkvæmdinni, því að hér er um mikla hagsmuni hjá fólkinu að ræða, og vil ég þá sérstaklega snúa mér að því, sem heyrir byggð landsins til, sýslufélögunum og sveitunum, og snertir kauptúnin úti um landið líka, því að hér ræðir um mikil gjöld, sem eru miðuð við fasteignamat og sýslunefndir hafa tekið ákvarðanir um og koma til með að gera áfram og sveitarstjórnir sömuleiðis.

Ég vil minna á ýmis gjöld í þessu sambandi, og skal ég drepa á það, sem reyndar kom nú fram í ræðu hv. þm. Borgf., þ.e. gjöldin til raforkusjóðanna, sem sýslunefndirnar hafa tekið ákvarðanir um, þar sem verið er að framkvæma dreifingu raforkunnar, að það er lagt til grundvallar um slík gjöld, hvað ætla má, að framkvæmd á dreifingu raforkunnar kosti. Það eru gerðar áætlanir fyrir héruðin um dreifingu orkunnar og lagt til grundvallar fjarlægðir og verðlag á efni og annað þess konar, sem málið snertir, og síðan er þeim, sem raforkunnar eiga að verða aðnjótandi, gert að greiða sinn hlut af þessum gjöldum. Það er fast gjald fyrir hvert heimili, en auk þess hin svokölluðu heimtaugargjöld eða línugjöld, og þau eru nokkuð mismunandi eftir því, sem stendur á. Í minni sýslu, Árnessýslu, er þetta gjald, sem menn verða að greiða, 45% af fasteignamati, og þar að auki hið fasta gjald fyrir hvert heimili, sem verður að greiða. Nú má kannske segja, að ekki sé mikil hætta á því, að þetta raskist stórkostlega, þar sem gjaldið er að vissum hluta fast, og megi e.t.v. gera ráð fyrir, að mikil breyting verði ekki til hækkunar í framkvæmdinni. En varlega skyldu menn treysta slíku. Það er margt nú, bæði hér hjá okkur og annars staðar í heiminum, á hverfanda hveli og ósýnt nema tilkostnaðurinn við þessa framkvæmd verði miklu meiri en hann er nú, og þá er rétt að hafa allan vara á því, að það sé ekki hægt að velta með svona einföldu móti kostnaðinum yfir á þá menn, sem eiga að vera þessara gæða aðnjótandi. Það gæti orðið þeim þungt í skauti, jafnvel þótt það raskaðist ekki í stórum stíl frá því, sem nú er.

En svo eru fleiri gjöld, sem koma hér til greina og fasteignamatið er lagt til grundvallar.

Er þá fyrst að telja gjald til sýsluvegasjóða, sem er lagt á sveitarfélögin og fasteignamatið er lagt til grundvallar, hvernig skuli greitt. Þessi gjöld veit ég að skipta í sumum sýslufélögum mörgum hundruðum þúsunda króna á ári, og sýslunefndirnar telja sig hafa allt of litla fjármuni milli handa í þessu efni, svo að ég er ekki ugglaus um, að ef það væri hægt að auka greiðsluna á eins einfaldan hátt og reyndar blasir hér við, þá mundi það gert. Það mætti segja, að miðað við fasteignamatið yrði gjaldið minna, en það gæti í raun og veru orðið hjá þeim, sem greiða, miklu meiri fjárhæð.

Þá er einnig sýslusjóðsgjald, og að einum þriðja hluta er fasteignamatið lagt til grundvallar þeim gjöldum. Og þau gjöld skipta líka í hinum ýmsu héruðum hundruðum þúsunda króna. Þannig er það í mínu héraði fyrir árið sem leið, að það gjald er nærri 1/2 millj. kr., og því er jafnað niður á hreppsfélögin og lagt til grundvallar fasteignamat jarðanna.

Þá er og enn að telja gjöld sveitarsjóða til hinna almennu trygginga, sem eru líka allmiklar fjárhæðir, og til grundvallar fyrir slíkri greiðslu er einnig lagt fasteignamatið í hverjum hreppi.

Þá skal ég og minna á, að gjöld til fjallskilasjóða í ýmsum héruðum miðast við fasteignamat, og í sumum héruðum eru þetta það há gjöld til viðbótar því, sem menn greiða af fjallskyldum fénaði, að á sumum býlum skiptir þetta mörgum hundruðum króna, eins og það er.

Ég veit ekki heldur nema gjöld til sveitarsjóðs grundvallist að einhverju leyti á fasteignum innan sveitarinnar. Um það þori ég ekki að segja. Ég veit það ekki alveg með vissu. En mig minnir þó, að ég hafi eitthvað heyrt talað um það, að þegar útsvörum er jafnað niður, þá sé tekið tillit til fasteigna hjá hinum einstöku gjaldendum.

Eins og menn sjá á þessu, og vafalaust getur eitthvað fleira komið til greina, þá eiga menn mikið í húfi með, að framkvæmd þessa verks fari vel úr hendi og að ekki sé rasað fyrir ráð fram að hækka fasteignamatið án tillits til alls annars. Ég viðurkenni, að það er næsta óeðlilegt við fasteignamat, þegar menn hafa lagt í einhverja framkvæmd, sem er máske mjög verðmæt, að eftir núgildandi reglu eru menn kannske orðnir allt í einu eignalausir, þó að áður en þeir réðust í t.d. að byggja hús, ættu þeir talsverð efni. Þetta er óeðlilegt, og þetta ber að leiðrétta. En þó verður sú leiðrétting að fara þannig fram, að tekið sé fyllsta tillit til þess, hvert gildi eignin hefur, eftir að búið er að framkvæma verkið, hvert gildi hún hefur fyrir þann, sem hana á eða hennar nýtur.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Borgf., og ég get tekið undir það, að áður hefði fasteignamat farið fram á þann hátt, að það hefði verið unnið að því fyrst úti í héruðunum, þar væri yfirfasteignamatsnefnd, sem gengi frá þeim plöggum, og síðan hefði það verið samræmt hér. Ef ætti að taka allt matið frá grunni með þessu frv. og leggja það sama til grundvallar og ef fullkomið mat ætti að fara fram, þá teldi ég þetta sjálfsagða leið. En þannig hef ég ekki litið á þessa framkvæmd. Mér væri þökk á að heyra það, ef ég misskildi það eitthvað. Ég hef skoðað það sem höfuðviðfangsefnið að meta það, sem gert hefur verið síðan fasteignamat fór fram, með tilliti til þess vitaskuld, hvaða gildi það hefur, og endurskoðun á hinu,sérstaklega á þann hátt að taka fullt tillit til þess, hvað eignirnar gefa af sér og hvert verðmæti þannig lagað er í þeim fólgið. Það er talsvert annað, og þess vegna, ef ég skil þetta rétt, get ég fyrir mitt leyti látið mér lynda þetta fyrirkomulag, sem er á frv., því að það að stofna til mats úti um allt land, ef það á ekki að vera allsherjarathugun á sama grundvelli og þegar mat hefur farið fram, og svo vinnu hér verður óbærilega dýrt, svo að mér finnst alls ekki vert að leggja í það, því að ég hygg, að séu þessi takmörk sett á þann veg, sem ég hef nú skilið þetta mál, þá megi fá allgóðan og sanngjarnan grundvöll undir þetta mat. Það verður vitaskuld að treysta því, að þeir menn, sem fara með það, vandi sitt verk. Það hef ég enga ástæðu fyrir fram til þess að ætla annað en verði og þá megi vel hlíta því að hafa þetta fyrirkomulag, því að ef ekki ætti að leggja meira í það en svona, þá fyndist mér hitt vera allt of kostnaðarsamt og mundi ekki heldur vera brýn nauðsyn á að hafa það svo.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar að þessu sinni um málið. En ég vildi gjarnan biðja hv. fjhn. þessarar d. að íhuga fyrir 3. umr. málsins og vildi þá gjarnan mega eiga tal við n., hvort ekki væri hægt að setja einhver ákvæði í 9. gr. frv., að hækkanir þær, sem önnur stjórnarvöld geta haft í sinni hendi, megi þó ekki fara fram yfir visst mark. Það væri mikið öryggi fyrir menn að hafa slíkt í lögunum, og ég ætla, að Alþ. bæði gerði rétt í því og það sýndi þá líka um leið, að fyrir því vekti það eitt, að þetta verk væri vel af hendi leyst, svo að allir mættu hlíta að lokum þeim ákvörðunum, sem eftir þessum lögum væru teknar.