21.03.1955
Neðri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

167. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. hafa tekið fram.

Ég vil þá fyrst segja, að ég hefði fyrir mitt leyti helzt viljað, að farið hefði fram reglulegt fasteignamat. Ég lagði fram frv. 1951 um, að nýtt fasteignamat skyldi fara fram á venjulegan hátt. Mér fannst þá og finnst enn breyting vera orðin svo mikil, frá því að síðasta mat átti sér stað, að slíkt væri eðlilegt. En því var ekki vel tekið þá og hefur ekki verið vel tekið enn, og þess vegna hef ég til samkomulags við ýmsa og til þess að reyna að tryggja framgang málsins fallizt á, að ekki fari fram nýtt fasteignamat, heldur endurskoðun á fasteignamatinu. Verði sérstök áherzla á lögð að fá inn í matið allar breytingar, sem orðið hafa frá því að síðast var metið, bæði þær breytingar, sem orðið hafa vegna viðauka og endurbóta, og eins þær breytingar, sem orðið hafa vegna sérstakrar rýrnunar á verðmæti eigna eða bættrar aðstöðu. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en af þessari stefnu frv. leiðir, að meiningin er að komast hjá því að setja upp fasteignamatsnefnd í hverri sýslu. Í þess stað er gert ráð fyrir einni aðalnefnd, sem fær aðstoð skattstjóra, skattanefnda og yfirskattanefnda og svo ýmissa stofnana við öflun upplýsinga. Ég álít, að þótt ekki fáist fram, að gert verði nýtt fasteignamat, megi vænta þess, að af því, sem hér er ráðgert, verði verulegt gagn og að samræmi gæti fengizt stórum betra en nú er orðið í matinu. Ástandið er þannig nú, að óhugsandi er, að við það verði unað, enda margar stofnanir tekið sig fram um að skora á hv. Alþ. að láta ekki við svo búið standa. Mér finnst blátt áfram ómenning að því að hafa fasteignamat, sem notað er sem mælikvarði fyrir stórfelldum greiðslum, og hafa í því til lengdar slíkt ósamræmi og nú á sér stað.

Ég hef ekki skilið hv. þm., sem talað hafa, þannig, að þeir hafi á móti því, að fram fari samræming á fasteignamatinu, og vona ég, að um það séu menn sammála.

Ég kvaddi mér eiginlega hljóðs út af því, sem sagt hefur verið um 9. gr. Það er ekki venja, þegar sett hafa verið ný lög um fasteignamat, að slá nokkurn varnagla um fasteignaskatt eða neitt þess konar í sambandi við það. Lögin hafa aðeins verið um, að nýtt fasteignamat skyldi fara fram. Svo hefur auðvitað verið til þess ætlazt, að bæði hv. Alþ. og allir aðrir, sem ráða gjöldum, sem miðuð eru við fasteignamatið, breyti gjaldatöxtunum í samræmi við hið nýja mat, og komi þá að sjálfsögðu til nýjar ákvarðanir alls staðar. Dálítið hefur bólað undanfarið á ótta um það, að tillögur um nýtt fasteignamat ættu rót sína að rekja til áhuga á því að hækka skatta, t.d. til ríkisins, fá meiri eignarskatt eða jafnvel hærri fasteignaskatt til ríkisins en verið hefur. Hefur því verið tekinn upp sá háttur að slá við þessu varnagla í frv. Hann er í 9. gr. Um skattana, sem ákveðnir eru með lögum frá Alþ., eins og eignarskatt og fasteignaskatt, er þannig til tekið, að það skuli endurskoða löggjöfina, þegar fasteignamatið hefur átt sér stað, og miða við það, að skattar þessir hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins. Ég vænti, að menn skilji, að það er ekki hægt að tiltaka þetta nánar, fyrr en fasteignamatið liggur fyrir. En með þessu er samt sem áður mörkuð stefna um þetta. Vitanlega getum við ómögulega fundið út, á meðan við ekki þekkjum matið, hvernig haga skuli einstökum ákvæðum í þessum lagabálkum, til þess að útkoman verði þannig, að skattabyrðin í heild verði sem allra líkust því, sem hún hefur verið, þegar nýja matið er komið. Að þessu hefur nú ekki heldur verið fundið að öðru en því, að hv. þm. Borgf. vék aðeins að þessu, ef ég skildi rétt. Honum virtist orðalagið um þetta vera dálítið óákveðið. Það má segja, að svo sé, en það er ekki hægt að komast nær þessu að svo vöxnu en að marka stefnuna.

Þá er það niðurlag greinarinnar, sem bæði hv. þm. Borgf. og 1. þm. Árn. ræddu nokkuð ýtarlega, ákvæðið um, að falla skuli úr gildi allar ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati, og komi nýjar ákvarðanir til. Í þessu sambandi vil ég aftur benda á, að þegar hér hafa verið sett lög undanfarið á hv. Alþ. um nýtt fasteignamat, þá hefur ekkert svona ákvæði fylgt. Það hefur verið álitinn sjálfsagður hlutur, að þeir, sem hér áttu hlut að máli, endurskoðuðu þessi gjöld og miðuðu þau við nýja matið. Hefur þó ætíð verið gert ráð fyrir, að nýtt fasteignamat yrði miklu hærra en það mat, sem áður gilti. Hv. Alþ. hefur treyst því, að þetta yrði ekki misnotað, það yrði ekki smeygt á menn stórhækkuðum gjöldum með því að láta allar prósentutölur standa óbreyttar og nota mikið hækkað mat sem grundvöll. Þetta hefur hv. Alþ. undanfarið látið liggja alveg á valdi þeirra, sem þessum gjöldum eiga að ráða og eiga að bera ábyrgð á þeim gagnvart gjaldendunum, hvort sem það hafa verið sýslufélög, bæjarfélög eða hreppsnefndir. Nú hefur orðið nokkuð vart við ótta um, að nýtt mat gæti orðið misnotað þannig, að reglugerðir eða tilkynningar væru látnar standa óbreyttar, þótt matið hækkaði. Til þess að fyrirbyggja þetta og til þess að tryggja, að yfirvöldin þurfi í hvívetna að taka nýja ákvörðun og bera ábyrgð að nýju gagnvart umbjóðendum sínum, þá er þetta ákvæði sett í 9. gr., þ.e., að allar ákvarðanir falli úr gildi og taka verði nýjar ákvarðanir, sem menn standi ábyrgir fyrir gagnvart þeim, sem þeir eiga að standa reikningsskap gerða sinna. Bólað hefur á því, t.d. hjá hv. 1. þm. Árn., að honum fyndist þetta tæplega vera nógu sterkt ákvæði, og væri máske ástæða til, að því er mér skildist á honum, að setja um þetta sterkara ákvæði, taka valdið að einhverju leyti af þeim, sem hafa það nú, um þessi gjöld, sem miðuð eru við fasteignamatið. Ég hef ekkert á móti því, að þetta sé íhugað í n. Þetta sjónarmið var talsvert hugsað við undirbúning málsins. Samt er rétt að athuga allar bendingar um þetta, hvort hægt er að ná eitthvað frekari tökum á þessu en gert er ráð fyrir í frv.

Ég vil í því sambandi benda á til íhugunar fyrir nefndina, að við getum ekki búizt við því, að löggjöf um fasteignamat eða löggjöf um endurskoðun á fasteignamati sé um leið löggjöf um heimtaugargjöld, löggjöf um fjallskilagjöld, löggjöf um sýslusjóðagjöld, löggjöf um sýsluvegasjóðagjöld, tryggingagjöld o.s.frv. Það er óhugsandi að ætla sér að setja ákvæði um öll þessi gjöld inn í lög um fasteignamat eða lög um endurskoðun fasteignamats. Slíks eru engin dæmi í þingsögunni, að þannig hafi verið farið að, enda finnst mér ekki hugsanlegt, að svo verði gert.

Þá vil ég enn fremur benda mönnum á, þeim sem bera þann ugg í brjósti, að sýslunefndir eða aðrir þeir, sem þessum gjöldum eiga að ráða, séu á þeim buxunum að hækka þau, að þessir aðilar geta hækkað þessi gjöld, þó að nýtt fasteignamat komi ekki til. Nýtt fasteignamat mundi ekki breyta neinu um þetta.

Loks vil ég benda á, að það gæti orðið mjög tvíeggjað, ef farið væri út í að setja hámörk og binda hendur þessara aðila mjög mikið, sumra hverra, sem koma þarna til greina. Jafnvel gæti það orðið til þess að ýta undir hækkun, sem annars yrði ekki. Ef hv. Alþingi færi að setja hér hámörk, sem væru hærri en gjöldin eru nú raunverulega, þá er hætt við, að það freistaði þessara aðila til þess að hækka gjöldin, sem þeir máske létu undir höfuð leggjast, ef þeir væru látnir alveg bera ábyrgð á þessu sjálfir gagnvart sínum umbjóðendum, eins og alltaf hefur verið, þegar nýtt fasteignamat hefur verið gert.