15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

167. mál, fasteignamat

Pétur Ottesen:

Það er nú að vísu bæði fáskipað í d. og af þeim ástæðum harla tilgangslítið að ræða um þetta mál ýmislegt, sem full ástæða hefði verið til að hefði getað borizt til eyrna þm. nokkuð almennt. En mér skilst, að hæstv. forseti hyggist nú að fá afgreiðslu málsins, þrátt fyrir það að svona sé nú ástatt hér eins og raun ber vitni um.

Þessar brtt., sem ég flyt hér, eru í framhaldi af þeirri gagnrýni, sem ég hreyfði við þetta mál við 2. umr. Þetta frv., sem nú liggur fyrir, er þannig úr garði gert, að það fasteignamat, sem samkvæmt því á fram að fara, á í aðalatriðum að framkvæma þriggja manna nefnd, sem situr hér í Reykjavík. Að vísu eiga skattstjórar og yfirskattanefndir ásamt undirskattanefndum að vera þessari landsnefnd til aðstoðar við endurskoðun matsins og láta henni í té upplýsingar, sem landsnefndin kann að óska eftir að fá. En það hefur nú hingað til verið litið svo á, að hér væri um svo þýðingarmikið mál að ræða, þar sem er um það að ræða að meta til verðs og þá um leið til margvíslegrar skattaálagningar allar fasteignir landsmanna, að skylda bæri til að byggja þetta mat á þeim grundvelli, að næg þekking á mismunandi aðstæðum væri ávallt fyrir hendi við matið. En það hefur verið litið svo á, að ekki væri fyrir hendi nauðsynleg þekking til að byggja skattmatíð á, nema þar kæmi til persónulegur kunnugleiki á staðháttum úti um hinar dreifðu og viðu byggðir þessa lands. Þess vegna hefur ævinlega verið sá háttur á þessu hafður að velja nefnd manna í hverju sýslufélagi og bæjarfélagi, sem framkvæmdi matið. Til frekara öryggis í því efni, að heildarsamræmis gætti um land allt, hefur verið skipuð yfirmatsnefnd, sem hefur haft þetta hlutverk með höndum. En aðalgrundvöllurinn að matinn, miðað við hinar mismunandi kringumstæður, hefur ávallt verið lagður á svæðum úti um landsbyggðina. Að vísu er til þess ætlazt hér að byggja ef til vill nokkru meira á því fasteignamati, sem nú er, heldur en áður hefur verið ákveðið um að gert skyldi. En það er vitað, að þar sem nú er svo langt um liðið síðan síðasta fasteignamat fór fram, — en gengið var frá því, að ég ætla, 1942, — þá hafa orðið geysimiklar breytingar, sem valda því, að aðstæður hafa breytzt og þar af leiðandi verðgildi margra fasteigna, m. a. af þeim sökum, og það í mjög stórum stíl. Þess vegna tel ég, að engu síður nú við það mat, sam hér er stofnað til, þurfi að koma sá persónulegi kunnugleiki, sem ávallt hefur áður verið talið að nauðsynlegt væri að væri fyrir hendi við slíka matsgerð.

Til þess að koma þessari hugsun á framfæri hér á Alþ. hef ég nú flutt hér brtt. í þá átt, sem ég nú hef lýst, að heildargrundvöllur matsins verði aftur fluttur út í byggðirnar, í stað þess að þetta á nú í aðalatriðum að framkvæma af nefnd hér í Reykjavík, en jafnframt verði svo yfirmatsnefnd, sem framkvæmi heildarsamræmingu á matinu, svo sem verið hefur að undanförnu. Það var fyrir 2 eða 3 árum, að ég ætla, flutt á Alþ. — ég held af fjhn. og að tilhlutan ríkisstj. — frv. um fasteignamat, og það er einmitt það frv., sem ég hef lagt til grundvallar þeim breytingum, sem ég flyt nú hér um þetta mál. Það náði þá að vísu ekki fram að ganga, en það var ekki af því, að það þætti neitt athugavert við það að halda hinni gömlu reglu um grundvöll fasteignamatsins, heldur var það af allt öðrum ástæðum, að málið dagaði uppi þá. Það mun hafa stafað af ágreiningi, sem upp kom um það, hvaða hámark yrði sett í sambandi við hið nýja mat. Þetta eru því alveg nýjar till., sem hér koma fram, og farið þar inn á alveg nýja braut.

Mér þykir ekki ástæða til að fara að rekja hinar einstöku greinar þessa frv., eins og það mundi verða, ef brtt. minar yrðu samþykktar. Það er kunnugt af fyrri meðferð þessa máls fyrir tveimur árum hér í þinginu, og einnig eru þessar till. mínar búnar að liggja alllengi fyrir og þess vegna hefur gefizt nægt tóm til þess að athuga málið út frá því sjónarmiði, sem þar kemur fram.

Ég vil aðeins geta þess, að samkvæmt mínum till. er gert ráð fyrir, að hækkun matsins megi hvergi vera meiri en svo, að heildarmatsverð fasteigna ferfaldist. Hins vegar er samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, heimilt, að heildarmatið fimmfaldist. Tel ég, að það hámark, sem ég set hér, sé nær því, sem rétt sé, sanngjarnt og eðlilegt, heldur en það, sem í frv. stendur um þetta efni.

Þá vil ég enn fremur benda á það, að samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, eiga fasteignamatseigendur þess engan kost að koma á framfæri neinum umkvörtunum gagnvart því, sem þeim kann að þykja ekki rétt að farið, að því er snertir þær fasteignir, sem þeir eiga. Hafa ávallt verið í lögum ákvæði um að gefa einstaklingum færi á því að koma fram með umkvartanir sínar, ef þeim þykir sér óréttur ger. En fram hjá þessu er alveg gengið í frv. Hér liggur einnig fyrir brtt. frá hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem gæti bætt nokkuð úr í þessu efni, en þó engan veginn þannig um það búið, að menn komi fram rétti sínum, eins og ávallt hefur verið í gildi við undanfarin fasteignamöt. Samkv. þessari brtt. sendir landsnefndin fasteignamatið til umsagnar hlutaðeigandi sveitar- og bæjarfélagi, eins og hún hefur gengið frá því, ásamt þeim reglum, er nefndin hefur fylgt í störfum sinum. Hins vegar er ekki í þessari brtt. gert ráð fyrir því að veita eigendum fasteignanna neina aðstöðu til þess að koma á framfæri persónulegri óánægju sinni yfir því, sem þeir telja sér ranglega gert með matinu. Þetta tel ég vera alveg fráleitt eins og það er í frv. og engan veginn náð því, sem réttlátt er og sjálfsagt, í brtt. hv. 2. þm. Skagf., þótt hún næði samþykki, og fyllir hún því engan veginn þetta skarð, sem hér er í þessu frv., um að veita mönnum sjálfsagðan rétt til að koma á framfæri eða óska eftir nýrri endurskoðun á mati einstakra fasteigna.

Úr þessu þarf að sjálfsögðu að bæta, og mér finnst, að það geti ekki orkað tvímælis, að sjálfsagt sé að gera það á þann veg, sem ég legg hér til í brtt. minni, sem mundi þá verða 8. gr. þessa frv., ef brtt. mínar yrðu samþ. einnig að öðru leyti.

Ég gerði 9. gr. þessa frv. nokkuð að umræðuefni við 2. umr. þessa máls, og hefur það ef til vill orðið þess valdandi, að hv. fjhn. hefur flutt brtt. við niðurlag gr., en í niðurlagi gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skulu og við gildistöku endurskoðaðs mats, sbr. 6. gr. laganna, falla úr gildi allar ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati, og komi nýjar ákvarðanir til.“

Þetta er ákaflega óglöggt orðað og felur ekki í sér neina tryggingu gagnvart þeim, sem eiga að greiða þessi gjöld, en viða og í mörgum tilfellum er þetta notað sem gjaldstofn. Hins vegar er fyrr í þessari sömu gr. ákvæði um það, að því er snertir bæði eignarskatt og fasteignaskatt, að endurskoðunin sé við það miðuð, að skattar þessir hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins. En allar slíkar ákvarðanir eða varnarráðstafanir vantar algerlega að því er snertir það, hvernig þessir skattar eru notaðir sem grundvöllur í öðrum tilfellum.

Brtt. fjhn. um þetta efni er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við gr. bætist: er miðist við það, að þessi gjöld“ — þ.e. opinber gjöld, sem innheimt eru sem hundraðshluti af fasteignum — „hækki ekki almennt umfram það, er af flokkun fasteigna kann að leiða.“ — Ég hef aðeins sett hér um þetta, að niðurlagið orðist svo : „er miðist við það, að þessi gjöld hækki ekki almennt“. Er það orðalag miðað við þá framkvæmd á matinu, sem ég legg til að höfð verði, því að það er ekki um að ræða flokkun á sama hátt og gert er ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur.

Það er að sjálfsögðu aðalatriðið í þessum brtt. mínum, að matið verði nú sem að undanförnu látið fram fara á takmörkuðum svæðum, þar sem ávallt er fyrir hendi nægilegur kunnugleiki á öllum aðstæðum. Er máske frekar nú en nokkru sinni áður nauðsynlegt, að slíkur kunnugleiki sé fyrir hendi, af því að einmitt á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar, sem gera mismun á verðgildi jarðanna. Það eru auknar samgöngur, bættar og breyttar vegasamgöngur, það eru símalagningar, það eru rafmagnsleiðslur, og margt fleira kemur hér til greina, sem verkar mjög á verðgildi jarðanna. Og þar sem misjafnlega langt er á veg komið með þessar framkvæmdir, þá náttúrlega verður á þessu mjög mikill aðstöðumunur. Þess vegna er nú frekar en nokkru sinni áður nauðsynlegt, að fyrir hendi sé næg persónuleg þekking á því, að fasteignamatið mótist af þessum breyttu aðstæðum. En þessu verður aldrei náð með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að aðalframkvæmd matsins byggist á áliti og gerðum 3 manna, sem sitja í Rvík og verða um staðarþekkingu algerlega að byggja á meira og minna ófullkomnu áliti, sem þeim berst um þetta úr ýmsum áttum. Það er mjög mikilsvert og veltur mikið á því, að rétt mat og eðlilegt, miðað við aðstæður á þeim tíma, er matið fer fram, sé gert. Og ég vil vænta þess, að þeir menn, sem eru hér utan af landsbyggðinni, gæti réttar þeirra manna, sem þar búa, að því er þetta snertir, en það getur oltið á miklu og á margvíslegan hátt, að um þetta sé vel búið.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil þó aðeins að lokum einnig leggja áherzlu á það, að sjálfsagt er að búa svo um, að einstökum eigendum fasteigna sé gefið á því fullt og óskorað tækifæri að koma á framfæri þeim athugasemdum, sem þeir vilja gera við matið að því er snertir einstakar fasteignir þeirra. Það er óverjandi að svipta þá sjálfsögðum rétti í þessu efni, eins og hér er gert.