12.11.1954
Efri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

71. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru hér á dagskrá í dag tvö frv., sem voru borin fram sem stjórnarfrv. í hv. Nd., og ég vildi leyfa mér að fara örfáum orðum um þau hvort um sig. Fyrra málið, sem nú er til umræðu, er frv. til l. um breyt. á l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Þetta frv. felur í sér þá breytingu, að þar sem í þessum lögum, sem eru að stofni til frá árinu 1947, en hefur lítillega verið breytt síðan, var reiknað með, að það framlag, sem á að leggja annars vegar til byggingarsjóðs samkv. 13. gr. laganna og hins vegar til landnáms og nýbýlastofnunar samkv. 4. gr. laganna, skyldi aðeins haldast um 10 ára skeið, en með þessari brtt. er lagt til, að þetta tímabil verði framlengt um önnur 10 ár, þannig að það komi 20 ár á báðum þessum stöðum inn í lögin í stað 10 ára.

Það mætti náttúrlega rökstyðja á ýmsan hátt, að það er mikil þörf fyrir þetta. En ég hygg nú, að það í raun og veru þurfi ekki, vegna þess að allir hv. þdm. munu þekkja þessi mál og vita, að hér er í raun og veru um sjálfsagðan hlut að ræða. Um framlagið til nýbýla og byggðahverfa, sem hefur að undanförnu verið 21/2 milljón á ári, má það segja, að á árunum síðan þessi löggjöf var sett, sem er framhald af löggjöf, sem áður gilti um nýbýli, hefur býsna mikið verið gert í þessum efnum, bæði með stofnun sjálfstæðra nýbýla, og sömuleiðis með því að efna til hverfisbyggða á allmörgum stöðum í landinu, á þann hátt að koma þar upp á skipulegan hátt nokkrum býlum og að ríkið styðji það með því að rækta visst flatarmál fyrir hvert býli, leggja vegi, skólpleiðslur og sjá um, að önnur aðstaða sé veitt, eins og sími og rafleiðslur og annað slíkt, eftir því sem hægt er. Ég get aðeins getið þess, að nýbýlastjórnin og landnámsstjóri, sem er framkvæmdastjóri hennar, hafa nú í meðförum 10 slík byggðahverfi hér á landi, sem eru komin misjafnlega langt áleiðis, eins og gefur að skilja. Í þeim, sem fyrst voru tekin til meðferðar og skipulagningar og ræktunar, er nú farið að reisa býli, og eru nokkur slík býli komin upp. Hin eru í undirbúningi, og það er reiknað með, að í þessum 10 býlahverfum, þegar þau eru fullræktuð og komin í gang, verði í kringum 70 býli. Og það virðist vera áhugi hjá mörgum einmitt að fá býli í slíkum hverfum. Það má segja, að þetta mál sé á tilraunastigi enn þá. Hvergi er þetta svo langt komið, að hægt sé með vissu að segja, hvernig reksturinn gengur, þegar hafinn er búrekstur á þessum býlum. Þau fyrstu eru aðeins búin að starfa fá ár, og þetta tekur, eins og gefur að skilja, alllangan tíma allt saman, en þó er ekki nokkur minnsti vafi á því, að þetta er einn mikilsverður liður í því að hindra, að þjóðfélagið kollsteypist á þann hátt, að mestur hluti fólksins flytji á tiltölulega lítinn hluta landsins og vissar byggilegar og góðar sveitir annars staðar fari í eyði.

Samhliða þessu hefur svo verið starfað að því að reisa einstök nýbýli með jarðaskiptingu og á annan hátt. Og eftir upplýsingum frá landnámsstjóra má geta þess, að á árunum 1947 til 1953, eða fram á þetta ár, sem nú er að liða kannske, hefur verið samþykkt stofnun 460 einstakra nýbýla. Mörg þessi býli eru þegar komin að fullu til búrekstrar, en auðvitað eru önnur á alls konar millistigum hvað snertir framkvæmdir og að gera þau fullbúin, til þess að taka megi við þeim og hefja þar búrekstur.

Það orkar ekki tvímælis, að þessi leið býlafjölgunar er töluvert miklu ódýrari en hin, að mynda býli í sérstökum hverfum, þar sem allt verður að gera að nýju, því að þar sem um einstök býll er að ræða, þá er það mjög víða svo, að það eru börn þess bónda, sem á jörðinni býr, sem skipta jörðinni milli sín eða hann skiptir þeim milli barna sinna, og börnin hafa svo athvarf heima, meðan verið er að koma upp nauðsynlegustu framkvæmdum á hinu nýja býli. En ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að nýbýlastjórnin og þeir, sem mest hafa starfað að þessum framkvæmdum, líti svo á, að það verði að fara báðar þessar leiðir fyrst um sinn.

Um skiptingu eldri býla í nýbýli má að vísu segja, að það sé svo gömul reynsla fyrir því, að það sé sjálfsagður hlutur, þótt það væri svo hér um fleiri aldir, að engin slík nýbýli væru í raun og veru reist, því að þá var enginn styrkur til þess veittur eða aðstoð frá ríkinu. En nú eru bráðum 20 ár síðan nýbýlalögin voru sett hér í fyrstu, árið 1936, og sú reynsla sýnir fyllilega, að þau hafa komið að geysimiklu gagni, þó að benda megi að sjálfsögðu á ýmis missmíði hvað snertir einstök býli. Það hafa verið reist nokkur býli, sem reynslan hefur sýnt að ekki hefði átt að gera, vegna þess að þau lentu á skökkum stað, þar sem skilyrði til framkvæmda og búrekstrar voru ekki við hlítandi, eða þá vegna samgangna voru ekki slík sem ættu að vera. En þetta eru — ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða það — svo fá dæmi, að það miklu fremur styður þá almennu reglu, að hér hafi verið rétt af stað farið. Og í nýbýlalöggjöfinni frá 1947, sem er framhald af þessu, var svo tekin upp stofnun byggðahverfa, að vísu var það í eldri löggjöfinni líka, en hafði ekki komið til framkvæmda. Og þá leið verður, að mínum dómi, einnig að fara áfram.

Ef það framlag, 21/2 millj. kr., sem árlega er veitt í þessu skyni í fjárlögum og var miðað við 10 ára tímabil, yrði afnumið, þá yrði náttúrlega þessi þróun algerlega stöðvuð, eins og gefur að skilja. Veit ég, að enginn hv. alþm. vill gera það. Hins vegar mætti segja, að þessi framlenging hefði getað beðið eitt ár enn, því að fram til ársins 1956 á að greiða þetta framlag. En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir framkvæmd þessara mála, að það sé vitað a.m.k. með eins árs eða helzt tveggja ára fyrirvara, hvers er að vænta í þessum efnum, og þess vegna er það, að ríkisstj., sem stendur að þessu frv., álítur, að það sé ekki eftir neinu að bíða með að framlengja þetta framlag um önnur 10 ár.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um landnámið og framlag til þess, en hin breytingin, sem er við 13. gr. l., er um að framlengja einnig ákvæði um 21/2 millj. kr. framlag til byggingarsjóðs sveitanna, og það eru eiginlega alveg sömu rök sem má færa fyrir því eins og þessu, sem ég nú hef lýst.

Byggingarsjóðurinn á, eins og við vitum, að veita lán til íbúðarhúsabygginga í sveitum og hefur allt frá 1929, að hann var fyrst stofnaður, gert ómetanlegt gagn. Honum er það fyrst og fremst að þakka, hve stórkostlegar breytingar hafa orðið um byggingarmál sveitanna á þessu 25 ára tímabili, þannig að ég efast um, að í nokkru öðru landi sé hlutfallslega hægt að benda á jafnmiklar og stórfelldar breytingar og orðið hafa hér hjá okkur. Því miður er mikið ógert enn í þessum efnum, og það eru viss byggðarlög hér á landi, þar sem tiltölulega eða allt of skammt a.m.k. er komið áleiðis með að breyta gömlum, ófullkomnum og ónothæfum byggingum í sæmilega mannabústaði, eftir því sem nú er krafizt. Þess vegna er geysihlutverk eftir fyrir byggingarsjóðinn, eins og gefur að skilja, og þess vegna er að sjálfsögðu jafnsjálfsagt að framlengja þetta ákvæði einnig. En ég vil taka það fram um leið, að þó að þetta sé framlengt, þá er þetta ekki nein fullnaðarlausn á málum þessara sjóða, sem þarna er um að ræða, hvorki landnámsins né byggingarsjóðsins. Það hafa orðið miklar breytingar, frá því að þessi löggjöf var sett áður, byggingarkostnaður stórkostlega miklu hærri, og allt hefur þokazt á þá leið, og þess vegna reikna ég með, að hið háa Alþingi hljóti að standa gagnvart því mjög fljótlega að gera enn meiri breytingar á þessu. En að dómi ríkisstj. er sjálfsagt að gera þessar breytingar, sem hér er farið fram á, framlengingu á þessu framlagi, nú strax og blanda því ekki inn í aðrar þær ráðstafanir, sem kynni að þurfa að gera, og kann vel svo að vera, að ríkisstj. síðar á þessu Alþingi komi með einhverjar till. varðandi þessi mál, sem ekki snerta þetta atriði beint út af fyrir sig.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Þetta frv. var samþ. alveg óbreytt í hv. Nd., eins og gengið var frá því sem stjórnarfrv., og ég leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.