22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. í þessu máli hefur nú rætt skattamál nokkuð almennt. Ég mun nú ekki gera það nema að mjög litlu leyti, enda komið fram yfir miðnætti og fáir þeir, sem annars ættu helzt á að hlýða, viðstaddir. Þó get ég ekki alveg leitt hjá mér að benda á það, að þróunin í skattamálum okkar hefur að undanförnu verið sú, að hinir beinu skattar, eins og tekjuskattur og eignarskattur, hafa farið sífellt minnkandi í hlutfalli sínu í því skattakerfi, sem á landsmenn er lagt. Þar á móti hafa óbeinir skattar aukizt.

Það er vissulega svo komið, að tekjuskatturinn og þó kannske sérstaklega eignarskatturinn er ekki mjög stór liður í hinum almennu greiðslum manna nú á dögum, miðað við það, sem óbeinn skattarnir eru. En samt sem áður er hér engan veginn um þess háttar mál að ræða, að engu máli skipti, hversu mikið er á lagt eða hvert hlutfall er haft á milli álagna á einstaklinga og félög. Höfuðmeinið í því skattakerfi, sem við nú búum við, er það, að hinir ýmsu þegnar þjóðfélagsins búa við algert misrétti og algert misræmi í því, hverjir möguleikar þeirra eru til þess að komast fram hjá skatti. Ég er engan veginn frá því, að þau ákvæði þessa frv., sem miða að því að lækka um 20% skattgreiðslur félaga frá því, sem skattstigi skattalaganna annars gerir ráð fyrir, væru sanngjörn, ef við gætum reitt okkur á það, að tekjur þær, sem félögin hafa, kæmu fram á þeirra skattframtölum, en það mun af öllum viðurkennt, að svo er ekki nema að litlu leyti.

Við búum sem sagt við það, að vinnandi fólk í landinu, launamenn, verkamenn, sjómenn o.s.frv., hefur alveg sérstakt eftirlit á sínu skattframtali, ekki bara það eftirlit, sem skattayfirvöldin framkvæma, heldur hafa þeir atvinnurekendur, sem þessir launþegar vinna hjá, í rauninni eftirlit með því, að allir þeir peningar, sem innunnir eru á hinum venjulega vinnumarkaði, komi fram til skattayfirvaldanna. Aftur á móti er enginn slíkur sambærilegur aðili, sem tryggir það, að framtöl atvinnurekenda séu rétt og í samræmi við þær tekjur, sem þeir hafa. — Sem sagt: annars vegar eru atvinnurekendur, hins vegar eru launþegar. Framtöl launþeganna eru yfirfarin af atvinnurekendum og af skattayfirvöldunum, en framtöl atvinnurekendanna eru einungis yfirfarin af skattayfirvöldunum og engum öðrum. Nú er það svo, að skattayfirvöldin hafa takmarkaða möguleika til þess að sannprófa hvert það skattframtal, sem þeim berst, og raunin er sú, að vinnuþegarnir, þ.e.a.s. launþegar í landinu, verða að greiða skatt af öllum sinum tekjum, en atvinnurekendur gera það ekki nema sumir hverjir. Að sjálfsögðu munu finnast undantekningar, þannig, að atvinnurekendur telji fram eftir beztu samvizku, en eins og ég sagði, þá er það almenn skoðun í landinu, að þá sé um undantekningar að ræða, en ekki að það sé regla.

Við þær breytingar, sem gerðar voru á skattalögunum á s.l. ári, var til bráðabirgða ákveðið, að nokkur ákvæði skyldu gilda um skattgreiðslur félaga. Í 64. gr. skattalaganna er gert ráð fyrir því, að félög, þ.e.a.s. hlutafélög, samlagshlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, svo og önnur félög, sjóðir og stofnanir, sem eru ekki sérstaklega undanþegin skatti, skuli á árinu 1954 fá 20% eftirgefið af þeim skatti, sem þau ættu að greiða, miðað við skattstiga laganna. Og í 65. gr. skattalaganna er gert ráð fyrir, að félög fái sömu eftirgjöf á stríðsgróðaskatti. — Þetta tvennt höfum við hv. 1. landsk. (GÞG), sem skipum minni hl. fjhn. í þessu máli, lagt til að verði ekki endurnýjað, heldur skuli þessi félög nú á yfirstandandi ári látin greiða þann skatt, sem skattstigi skattalaganna gerir ráð fyrir.

Ekki er ég þess umkominn að gefa hér upplýsingar um það, hversu miklar tekjur Ríkissjóður mundi af því hafa, ef þannig yrði breytt til frá þeirri reglu, sem gilti s.l. ár, en hitt veit ég, að formælendur þessa frv. telja, að hér sé ekki um mjög mikla upphæð að ræða, en það getur vart byggzt á öðru en því, að þeir gera ekki ráð fyrir því, að allur sá gróði, sem þau félög, sem hér eiga í hlut, hafa haft, muni koma fram á skattframtali því, sem skatturinn verður á lagður eftir.

Ég vil benda á það, að á yfirstandandi ári hefur ríkissjóður sjáanlega orðið fyrir ýmsum skakkaföllum á sinum tekjuliðum. Það er útilokað annað en að þær vinnudeilur, sem staðið hafa, muni að nokkru rýra tekjur ríkissjóðs, og með einhverju verður að bæta það upp. Ég vil einnig benda á það, að hv. þm. Þjóðvfl. hafa lagt hér fram brtt. við þetta lagafrv., þar sem þeir gera ráð fyrir því, að sá skattur, sem þannig fengist, þ.e.a.s. sá skattauki frá s.l. ári, sem fengist með því að gefa nú gróðafélögum landsins ekki eftir frá skattstiga laganna, yrði notaður til þess að halda niðri vöxtum í byggingarsjóðum, bæði byggingarsjóði þeim, sem veitir lán til íbúðabygginga í sveitum, og byggingarsjóði verkamanna. Þetta er skynsamleg till., og get ég tekið fullt tillit til hennar. Við í minni hl. fjhn. höfum lagt til, að tekjuskatturinn verði ekki eftir gefinn hjá félögum á þessu ári, og get ég skoðað það sem viðbót við okkar till., að honum verði að nokkru einmitt varið í þessu skyni, sem hv. þm. Þjóðvfl. hafa bent á.

Um hin tvö atriðin, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að framlengd verði frá gildandi lögum, er það að segja, að eins og á stendur geta þau ekki talizt óeðlileg. Þau eru um það, að skattanki sé greiddur á tekjur félaga og að eignarskattur verði innheimtur með 50% álagi. Eignarskattur er í rauninni svo lágt ákveðinn, að það getur tæplega talizt ósanngjarnt, að hann sé innheimtur með viðauka, einkum þegar hann er lagður á fasteignir, en þær eru raunverulega í margföldu verði víða á landinu við það, sem þær eru skráðar samkv. fasteignamati.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara um þetta öllu fleiri orðum. Við í minni hl. n. höfum lagt til, að þau ákvæði laganna, sem fjalla um 20% eftirgjöf af tekjuskatti og stríðsgróðaskatti félaga, verði ekki endurnýjuð, en að öðru leyti verði frv. samþ., og er brtt. okkar á þskj. 613 um þetta.

Varðandi þá ræðu, sem hv. frsm. meiri hl. hélt hér áðan og kom lítillega að þeim samnm. mínum, sem ásamt mér skipar minni hl. í n., get ég tekið fram, að það kann vel að vera, að það hafi ekki verið tekið fram sérstaklega í umræðum um skattamál hér á Alþ. í fyrra, að málinu væri frestað til næsta árs, en hv. 1. landsk. þm. er ábyggilega ekki einn um að hafa skilið það svo. Það kann að vera, að þá hafi forsvarsmenn stjórnarflokkanna komizt að orði eitthvað svipað og hv. frsm. meiri hl. gerði nú, að endurskoðunin mundi verða framkvæmd svo fljótt sem auðið yrði, eða eitthvað í þá áttina.

En ég vil benda hv. frsm. meiri hl. á það, að þótt það sé rétt, sem hann sagði, að mestur vandi, sem endurskoðunarnefnd skattalaganna er á höndum, muni vera sá að ákveða skattgreiðslur til bæjar- og sveitarfélaga, þá er engan veginn útilokað að afgreiða þann þátt málsins, sem snýr að greiðslum til ríkissjóðs. Það verður þá einungis dálítið minni partur af verkefni n., sem bíður, heldur en annars er. Og ég verð að láta í ljós þann grun minn, að framlengingin á þessum skattafslætti til handa gróðafélögunum stafi ekki af því, sem látið er í veðri vaka, að nefndin hafi ekki komizt yfir að endurskoða þetta. Auðvitað hlýt ég að álykta, að skatteftirgjöfin til gróðafélaganna stafi af því, að ríkisstj. og hennar fylgislið hafi ekki áhuga á því að ganga nærri gróðafélögunum um skattgreiðslu til ríkisins. Það eru allt aðrir aðilar, sem þar á að ganga nærri.

Ég get ekki heldur látið hjá líða í þessum almenna þætti um skattamálin að benda á það, að ríkisstjórnin gumar sífellt af því, að hún hafi lækkað skatta í fyrra. Hún á við það, að það var lækkaður skattstiginn á einstaklingum og það var gefinn 20% afsláttur af skatti félaga. En þar á móti voru hækkuð ýmiss konar önnur gjöld. Það voru hækkaðir næstum allir liðirnir í því, sem heitir aukatekjur ríkissjóðs. Sá, sem ætlar að ferðast til útlanda, verður núna að borga margfalt verð fyrir vegabréfið sitt. Sá, sem ætlar að fá leyfisbréf fyrir einhverju, t.d. leyfisbréf fyrir því að gifta sig, leyfisbréf fyrir því að fá að reka verzlun eða eitthvað þess háttar, verður að borga margfalt það gjald, sem áður tíðkaðist, og þannig hefur ríkisstjórnin ekki lækkað neina heildarskatta, alls ekki, hún hefur raunar hækkað þá. Hún hefur fært þá til á milli liða, og hún hefur skipt um nöfn á þeim, og þar með flaggar hún með því, að hún hafi gert einhver ósköp til að létta landsmönnum skattabyrðarnar. Þetta er alger blekking.

Ég heyrði það af ræðu hv. frsm. meiri hl., að hann hefur kynnt sér nokkuð rækilega, í hvaða eða að minnsta kosti á hverjum liðum hafi orðið mestur seinagangur hjá Dönum um að endurskoða sína skattalöggjöf. Það kynnir sér auðvitað hver það, sem hann hefur áhuga fyrir. Ég hefði nú haldið, að ekki hefði síður verið nauðsyn að einbeita sér að því að koma málum áfram hér hjá okkur en að reyna að finna það út, hvað einhverjir erlendis, hvað einhverjar fjarlægar þjóðir kunna að hafa getað komizt langt í því að fara sér hægt við að endurskoða skattalöggjöf. En ég vil að lokum vonast til þess, að þetta verði síðasta árið, sem íslenzka þjóðin telur það koma til mála að gefa stærstu gróðaaðilum landsins eftir skatt frá því, sem þau eiga að greiða samkvæmt almennum ákvæðum l. um tekjuskatt og eignarskatt.