22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. V-Húnv. (SkG) hefði átt að láta vera að minnast á það, að menn væru syfjaðir hér í d., því að aldrei á ævi minni hef ég heyrt aðra eins svefngönguræðu og þá, sem hann flutti hér.

Í fyrsta lagi er hann að tala um, að við hv. 9. landsk. þm. höfum misskilið eitt og annað, en svo þegar að því kemur að skýra, á hvern hátt við höfum misskilið hlutina, þá gefst þessi hv. þm. algerlega upp og steinhættir, vegna þess að hann hefur ekkert fram að færa, þar sem ekki var um það að ræða, að við misskildum neitt. Við töluðum hér ákaflega skýrt og greinilega, og það þurfti engum um það að blandast hugur, nema menn væru þá hálfsofandi hér í d. á meðan við töluðum.

Það er náttúrlega ekki ástæða til að gera margar eða langar athugasemdir við ræðu, sem menn flytja upp úr svefni, eins og hv. þm. V-Húnv. sýnilega gerði, en þó kemst ég ekki hjá því að nefna örfá dæmi. Það síðasta, sem hann var að tala hér um, var það, að þessi till. okkar væri einkennilega orðuð, þar sem lagt er til í henni, að ákvæðin um 20% skatteftirgjöf gróðafélaganna skuli falla niður. Skilur ekki hv. þm. V-Húnv., að brtt. okkar er flutt við frv. ríkisstj. um að framlengja þessi ákvæði, en ekki við l., sem eru alls ekki til umr. hér og gengu úr gildi í fyrra? Hefur hann ekki áttað sig á því, að í fyrirsögn till. stendur það einmitt, að till.brtt. við frv., sem til umr. er, og það er till. um að fella niður úr þessu frv. þessi ákvæði?

Þá sagði hv. þm. V-Húnv., að það væri fjarri öllum sanni, sem ég hélt fram hér áðan, að skattgreiðendur, þ.e.a.s. gróðafélögin, ákvæðu sjálfum sér skattinn. Ja, sér er nú hvað. Hvað heldur þessi hv. þm. að það sé, þegar einn skattgreiðandi ákveður, hvað mikinn hluta af tekjum sínum hann telur fram? Hvað skyldi hann gera með því annað en að ákveða sjálfum sér skattinn? Eftir að tekjurnar eru taldar fram, þá eru alveg fastar reglur um það, hver skatturinn skuli vera af þeim tekjum. Ef fyrirtæki hefur eina millj. kr. í skattskyldar tekjur, en telur ekki fram nema segjum 400 þús. kr., hvað ætli það hafi þá gert? Ætli það hafi eftirlátið skattstofunni að ákveða því skattinn, eða ætli það hafi gert það sjálft? Ja, ég skil ekki svona málflutning.

Þá sagði hv. þm. V-Húnv., að það væri ekki æskilegt að leggja óeðlilega háa skatta á þau félög, sem teldu rétt fram. Hver er að tala um það? Var ekki skattstiginn, sem enn er að nokkru leyti í gildi varðandi skatt félaga og mun hafa verið undirbúinn af hv. þm. V-Húnv., miðaður við það einmitt, að félög teldu rétt fram? Og gerðu þeir, sem undirbjuggu þennan skattstiga, ráð fyrir því, að hann verkaði á þann hátt, að skatturinn yrði óeðlilega hár? Ég held ekki. Ég held þeir hafi talið sig vera að semja mjög sanngjarnan og sjálfsagðan skattstiga, þegar þeir voru að því, og þess vegna sé ekki um það að ræða, að félög borgi óeðlilega háan skatt, þó að þau borgi þann skatt, sem skattstiginn ákveður, sízt af öllu þegar það er haft í huga, að þau ráða því algerlega sjálf, þessi félög, hve mikið af tekjum sinum þau telja fram.

Einnig gat hv. þm. V-Húnv. þess í ræðu sinni, að hann hefði nú aflað sér upplýsinga um skattalöggjöf fleiri þjóða en Dana. Það er sýnilegt af þessu svo og því, hvað þetta hefur tafið fyrir þeirri nefnd, sem átti að og á að vinna að þessum málum, að hv. þm. V-Húnv. og sennilega meðnm. hans allir hafa tekið þessi nefndarstörf sín sem eins konar skólasetu í skattamálum. Og það getur á engan hátt talizt óeðlilegt, þó að við spyrjum ýmsir, hvenær þessum skóla muni ljúka og hvenær þessi nefnd muni ganga undir það próf að skila verkefni því, sem henni var falið að vinna, þ.e.a.s. undirbúa frv. að skattalögum félaganna.