26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í frv. þessu leggur hæstv. ríkisstj. til, að framlengd verði ákvæði um tekjuskattsviðauka, stríðsgróðaskatt og álagningu á eignarskatt, sem í gildi hafa verið um langt skeið. Hins vegar er einnig í frv. lagt til, að framlengt verði ákvæði skattalagabreytingarinnar frá því í fyrra um 20% lækkun á skattgreiðslu félaga. Svo sem kunnugt er, var með skattalagabreytingunni í fyrra skattur einstaklinga lækkaður verulega, og þá þótti rétt að láta félögin í landinu einnig verða aðnjótandi nokkurrar skattlækkunar, en þar sem endurskoðun skattalagaákvæðanna um félögin var ekki lokið, var það ráð upp tekið að lækka skatt þeirra almennt um 20%. Við skulum nú segja, að þetta hafi verið afsakanlegt í fyrra, vegna þess að þá var kannske ekki við því að búast, að endurskoðun hinna flóknu lagaákvæða um skattheimtu hjá félögum gæti verið lokið samtímis endurskoðun einstaklingsskattanna. Síðan er liðið eitt ár, og enn er þessari endurskoðun á félagasköttunum ekki lokið, og þess vegna ætlast nú hæstv. ríkisstj. til, að þessi ákvæði um almenna skattlækkun hjá félögum verði framlengd um eitt ár enn.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að virða svolítið fyrir sér fjárhag þeirra skattgreiðenda, sem hér er um að ræða, félaganna, og þá sérstaklega félaganna hér í Reykjavík. En um það þarf ekki að orðlengja, að reglurnar, sem gilda um skattgreiðslu félaga, eru í fáum orðum sagt svo fáránlegar, að það er dæmalaust, að það skuli hafa verið dregið í jafnmörg ár og raun ber vitni að endurskoða þessi lagaákvæði.

Félög eða atvinnufyrirtæki, sem rekin eru af félögum, greiða sáralítinn skatt til ríkissjóðs, ef miðað er við skattgreiðslur einstaklinga, og þó er það vitað, að nær öll gróðamyndunin í landinu á sér stað í atvinnurekstri, sem rekinn er af félögum. M.ö.o.: Þrátt fyrir það að auðsöfnun í landinu á sér fyrst og fremst stað í hinum ýmsu félögum og aðallega í hlutafélögunum, þá greiða félögin yfirleitt sáralítinn skatt til ríkissjóðs. Til þess að sýna mönnum fram á, að ég fer hér ekki með staðlausa stafi, hef ég núna á milli 2. og 3. umr. gert á þessu lauslega athugun. Hún er því miður miklu lauslegri en ég hefði sjálfur óskað, vegna þess, hve tíminn, frá því að frv. var lagt fram og þangað til það nú kemur til 3. umr. og endanlegrar afgreiðslu, hefur verið naumur.

Það liggja þegar fyrir í Hagtíðindum upplýsingar um innheimta skatta árið 1953, þ.e.a.s. skatta lagða á tekjur 1952. Það kemur í ljós, að meðalskattur allra félaga í landinu hefur numið 11700 kr. Og hugsi menn sér nú: Meðalskattur allra félaga í landinu, að meðtöldum hinum stóru auðfélögum, sem vitað er að safna gífurlegum auði og hafa gífurlegar tekjur, er 11700 kr. á þessu ári. Og það, hversu fáránlega lág þessi tala er, verður gleggst þegar það er athugað, að meðalskattur allra einstaklinga hér í Reykjavík var á þessu sama ári 1144 kr. M.ö.o.: Félögin, þar sem öll auðsöfnunin á sér stað, greiða ekki nema um það bil tífaldan meðalskatt Reykvíkinga. Þetta eitt nægir til þess að sýna fram á, hversu fáránlegar þessar reglur, sem gilda um félagaskattana, eru fyrir löngu orðnar. Það er öllum, sem þessum málum eru kunnugir, alveg ljóst, í hverju þetta liggur. Félögin njóta lögum samkv. mjög mikilla skattfríðinda. Auk heimildar til að draga frá tekjum 5% af hlutafé, hafa þau heimild til mikilla skattfrjálsra framlaga í varasjóð, auk þess hafa þau heimild til mjög mikilla skattfrjálsra fyrningarafskrifta, og enn fremur hafa þau skilyrði til þess að kaupa fasteignir, sem eru skattmetnar á hinu lága fasteignamatsverði, svo að staðhæfa má, að allur hinn gífurlegi gróði félaganna hverfur í varasjóðsframlögin, í fyrningarafskriftirnar og í fasteignakaupin. Þar hverfur hinn framtaldi ágóði, auk svo þess gífurlega ágóða, sem vitað er að safnast á hendur þessara aðila án þess að koma nokkurn tíma til framtals.

Því miður eru ekki til upplýsingar um það, hversu miklu þessi raunverulegu skattfríðindi hjá félögunum nema. Það eru til upplýsingar um það, hversu mikið félögin draga frá á skattframtölum sínum vegna 5% frádráttar af innborguðu hlutafé og varasjóðstillaga, en það er engin almenn heimild til um það, hversu miklu fyrningarafskriftir félaganna nema, en þær eru að langmestu leyti samkv. gildandi reglum hrein skattaívilnun.

Árið 1953 voru fram taldar nettótekjur félaga í Reykjavík 51.3 millj. kr., en þar frá fengu þau að draga með löglegum hætti skattfrjáls varasjóðstillög og 5% af hlutafé, 10 millj. og 94 þús., eða 10.1 millj. kr. Um það bil fimmtunginn af sínum tekjum fengu þessi félög að draga frá með löglegum hætti vegna þessara skattahlunninda, þannig að skattskyldar tekjur þeirra urðu ekki nema 41 milljón. Raunverulegar tekjur þeirra hafa verið miklu meiri, vegna þess að hér er búið að draga frá hinar lögheimiluðu fyrningarafskriftir, sem eru tugir milljóna, þó að þar sé um að ræða raunverulega skattaívilnun, eins og ég gat um áðan.

Hversu allt þetta kerfi er í raun og veru holgrafið, kemur bezt fram í því, þegar athugað er, hver er skattskyld nettóeign þessara sömu félaga, þ.e.a.s. allra félaganna í Reykjavík. Öll félög í Reykjavík, sem hafa í nettótekjur 51 millj. kr. á árinu 1953, eiga í skattskylda nettóeign 94 milljónir, þ.e.a.s.: skattskyld nettóeign þeirra er ekki einu sinni tveggja ára nettótekjur. Þurfa nú hv. þingmenn gleggra dæmi um það, hvílík feikn hér eru í raun og veru á ferðinni, þegar það er upplýst, að sú eign, sem öll félög í Reykjavík greiða skatt af, nemur ekki einu sinni tvöföldum árstekjum ársins 1953? Þetta er auðvitað sönnun þess, að tekjurnar, hinar óframtöldu og hinar framtöldu, hverfa með einhverjum hætti, sem almenningi finnst dularfullur, en þeim, sem náin kynni hafa af þessu, finnst ekki alveg eins dularfullur, — í hít, þar sem ríkisvaldið nær ekki til þess að skattleggja þær.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, verður það ljósara en ella, sem hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr. þessa máls, að þetta frv. hefði sáralitla fjárhagsþýðingu fyrir ríkissjóð, — að það hefði sáralitla fjárhagsþýðingu fyrir ríkissjóð, þó að félögum væri gefinn eftir 1/5 af þeim skatti, sem þeim bæri samkv. skattalöggjöfinni. Hér er skýringin komin á þessu. Félögin greiða m.ö.o. smánarskatt í samanburði við einstaklingana. Skattabyrðin hvílir á einstaklingunum, hinum almenna launamanni fyrst og fremst, en ekki á atvinnurekendunum, ekki á félögunum, en þau eru ríkustu og stærstu atvinnurekendurnir.

Ég hef hér einnig fyrir framan mig tölur um skattskylda eign nokkurra ríkustu félaganna í Reykjavík í árslok 1953, og þá sést greinilegast, hvers konar aðilar það eru, sem hæstv. ríkisstj. vill núna vera að ívilna alveg sérstaklega í skattgreiðslu með sérstöku lagafrv. Ef tekið er tillit til þess, að vægilega talað verður fasteignamat, sem skattgreiðsla félaganna er miðuð við, ekki talið nema 1/15 af raunverulegu verðmæti eigna, þá kemur í ljós, að 81 ríkasta félagið hér í Reykjavík á eignir, sem nema að meðaltall 5.3 millj. kr. Og það eru þessir vesalingar, sem hæstv. ríkisstj. finnst vera ástæða til þess að hygla nú alveg sérstaklega með sérstökum skattaívilnunum í þessu frv. Heildareignir þessa 81 ríkasta félags í reykjavík eru um 430 millj. kr. og þannig að meðaltali rúmar 5.3 millj. kr.

Þegar menn annars fara að virða fyrir sér þessi skattamál og bera saman skattgreiðslu félaganna annars vegar og einstaklinganna hins vegar, fer ekki hjá því, að þeir taki líka eftir því, hvað skattgreiðsla einstaklinganna er ólík á hinum einstöku stöðum á landinu. Hún er svo ólík, að það hlýtur eitthvað meira en lítið að vera við bogið. Ef t.d. annars vegar er borinn saman meðalskattur einstaklinga í Reykjavík og í sveitum landsins, þá kemur í ljós, að meðalskattgreiðsla einstaklinga í Reykjavík er þrisvar til fjórum sinnum hærri en meðalskattgreiðsla einstaklinga í sveitum landsins. Meðalskattur einstaklinga í Reykjavík var á árinu 1953 1144 kr., en meðalskattur einstaklinga í sveitum landsins var 387 kr. Ég hygg, að þetta hljóti að eiga fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að mjög er misjafnlega gengið eftir því, að menn telji samvizkusamlega fram til skatts í Reykjavík annars vegar og í sveitunum hins vegar. Það getur varla verið svo mikill munur á tekjum einstaklinga í Reykjavík annars vegar og í sveitunum hins vegar, að það út af fyrir sig, ef rétt væri fram talið, réttlætti svona gífurlegan mun á skattgreiðslu, þannig að hún sé næstum fjórðungi meiri á hvern einstakling í Reykjavík, því að langmestur hluti af einstaklingsskattgreiðendunum hér í Reykjavík er launamenn, enda kemur í ljós, að ef athuguð er meðaleign manna hér í Reykjavík annars vegar og í sveitunum hins vegar, þá er munurinn ekki nálægt því eins áberandi. Meðaleign þeirra, sem greiða eignarskatt í Reykjavík, var á þessu sama ári, 1953, 48985 kr., en meðaleign manna í sveitum, sem greiddu eignarskatt, var 38420 kr. Þarna munar ekki nema fjórðungi á skattskyldri meðaleign þeirra manna, sem á annað borð greiða eignarskatt, en á greiðslu tekjuskattsins munar svo miklu, að það er næstum fjórum sinnum meira, sem meðaleinstaklingur greiðir í skatt í Reykjavík, heldur en greitt er í sveitunum. Þetta tel ég þó í sjálfu sér vera aukaatriði í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða.

Ég vildi ekki láta þessum umræðum um þetta mál ljúka án þess að benda á það, að með þessu frv. er verið í fyrsta lagi að ívilna stórkostlega auðfélögum, ívilna fyrirtækjum, ívilna félögum, sem eiga yfir 5 millj. kr. í hreina eigu að meðaltali, auk þess sem þær tölur, sem ég hef nefnt, hafa sýnt fram á það mjög ljóslega, að öll skattamál félaganna eru í slíkum ólestri, að til hreins vansa er. Er sjálfsagt að láta þessa aðila, sem vel geta borgað, halda áfram að borga sinn hlut í ríkissjóð, meðan því verður ekki komið í verk að endurskoða þessar skattareglur, því að sú staðreynd, að skattskyld eign allra félaga í Reykjavík skuli ekki nema tvöföldum árlegum nettótekjum, tekur svo greinilega af öll tvímæli um það, að hér er meira en lítið bogið við. Það er — ég segi það aftur — ekki vansalaust að láta það dragast öllu lengur að endurskoða þessi mál frá grunni, og meðan það er ekki gert, þá er sjálfsagt að láta þessi auðfélög halda áfram að greiða sína skatta til ríkissjóðs.