26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur verið sagt í sambandi við þetta mál, að verið væri að lækka skatta á auðfélögum; málið væri um það.

Ég vil benda á, að hér er ekki verið að leggja til að gera neina breytingu á skattlagningu félaga frá því, sem var í fyrra. Hér er aðeins um það eitt að ræða að framlengja það ákvæði, sem þá var sett í lög, um 20% lækkun á skatti félaga.

Í sambandi við tal manna um, að það sé óhæfa, að mönnum skuli hafa dottið í hug að lækka skatta á félögum, er rétt að menn viti, að skattabyrði félaga, bæði hlutafélaga, samvinnufélaga og allra annarra félaga, er nú margföld á við það, sem hún var fyrir stríð. Það gilda þeir skattstigar fyrir þessi félög, sem lögfestir voru fyrir stríðið, ásamt öllum viðaukum, sem settir voru á í styrjöldinni. Það er þess vegna þannig ástatt núna, að félag borgar t.d. sama skatt af 100 þús. kr. og félagi var ætlað að borga af 100 þús. kr. fyrir stríð. Breytingin hefur orðið svo stórkostleg m.ö.o., að skattabyrðin hefur margfaldazt. Það var dregið úr þessu að því er snerti einstaklingsskatta með því að umreikna tekjurnar, sem kallað var, þ.e., að áður en skattstíginn var borinn við tekjurnar, voru þær lækkaðar mjög stórkostlega eftir vissum reglum, sem áttu að koma í veg fyrir, að það þyngdist alveg vélrænt á mönnum skattabyrðin eftir því, sem verðbólgan jókst. En þessi umreikningsregla var aldrei lögfest um félögin, og þess vegna hefur skattabyrði þeirra, miðað við nettótekur, sífellt farið vaxandi. Þetta er því auðvitað orðið þannig, að brýn þörf er að endurskoða þessar reglur allar saman, og hefur því margoft verið yfir lýst nú upp á síðkastið. En það varð ekki hægt að koma sér saman um þessi mál í fyrra eða ljúka þeim, þannig að þá gætu orðið sett ákvæði til frambúðar um skatt félaga eins og einstaklinga.

Þá var ætlunin, að því verki yrði lokið fyrir þetta þing. Nú hefur því ekki orðið lokið enn þá. Það er ekki af því, að endurskoðunin sjálf hafi ekki átt sér stað, heldur blátt áfram vegna þess, að menn hafa ekki getað komið sér saman um það í mþn., hvaða úrræði væru heppilegust. Það er sem sé ágreiningur í nefndinni. Það hefði verið í lófa lagið fyrir mig að framkalla nál. úr mþn. með því að leggja áherzlu á, að n. skilaði, hvað sem samkomulagi liði. En þá hefði n. bara orðið klofin um málið. Það taldi ég engum til góðs, að n. kæmi fram klofin um málið núna fyrir þetta þing. Það væri betra, fyrst ekki var hægt að fá samkomulagsálit fyrir þingið, að málið drægist eitthvað enn á langinn og reynt yrði enn þá að ná samkomulagi fyrir næsta þing.

Ég lýsi á hinn bóginn yfir því, að takist ekki að ná samkomulagi fyrir næsta þing, þá mun ég verða hvetjandi þess, að n. skili samt af sér. Ég mun ekki taka það á mig að stuðla að því, að mþn. skili ekki áliti ár eftir ár, þótt ágreiningur sé. En ég taldi ekki rétt að leggja áherzlu á, að n. skilaði nú, fyrst ágreiningur varð. Það er ætlunin, að n. starfi áfram, hún starfi að því að endurskoða skattlagningu félaga til ríkisins, og enn fremur hefur n. það hlutverk að endurskoða tekjulöggjöf sveitar- og bæjarfélaga og hlýtur því að sinna því verkefni jöfnum höndum.