02.05.1955
Efri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, gat ég ekki fallizt á till. hv. meiri hl. um að samþykkja frv. óbreytt.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ákvæðin um tekjuskattsauka hlutafélaga verði framlengd til ársloka 1955, samkv. 46. gr. tekjuskattslaganna, og enn fremur, að ákvæðið um álag á eignarskatt í 67. gr. sömu laga skuli gilda áfram til loka þessa árs. Þessum tveimur atriðum frv. er ég fullkomlega samþykkur og því sammála hv. meiri hluta hvað það snertir.

Hins vegar er enn fremur svo til ætlazt samkv. 1. gr. frv., að tekjuskattur, tekjuskattsviðauki og stríðsgróðaskattur félaga séu lækkaðir um 20% frá því, sem ákveðið er í skattstiga tekjuskattslaganna. Þessi lækkun var ákveðin á síðasta Alþingi fyrir næstliðið ár, og er nú lagt til að hún verði einnig framlengd fyrir þetta ár. Ég er alveg andvígur því, að þessi skattaívilnun verði veitt félögunum núna, eins og ég var andvígur því á síðasta þingi, að skattar þeirra væru þá lækkaðir um þessi 20%. Ástæðan til þess er sú, að með sérstökum ákvæðum, sem gilda um framtöl og skattlagningu félaga, sérstaklega hlutafélaga, eru þeim veitt svo mikilsverð fríðindi og skattaívilnanir, að að minni hyggju er ekki ástæða til þess að veita sams konar lækkun á sköttum til þeirra og talið var að hefði verið framkvæmd á sköttum einstaklinga með breytingu tekjuskattslaganna á síðasta þingi.

Þær ívilnanir, sem þessum félögum eru veittar frá skattgreiðslu, eru með ýmsu móti. Í fyrsta lagi er, svo sem öllum er kunnugt, úthlutun arðs til hluthafa, ef um hlutafélag er að ræða, sem nemur 5% af hlutafénu. Í öðru lagi er ákveðinn hluti af nettótekjum, sem heimílt er að leggja skattfrjálsan í varasjóði félaganna. Og í þriðja lagi, sem ekki skiptir minnstu máli og í ýmsum tilfellum mestu máli, eru afskriftareglur þær, sem upp hafa verið teknar nú á seinni árum og eru ákaflega þýðingarmiklar einmitt fyrir stærstu félögin, sem hafa miklar fasteignir, skip, vélar og annað þess háttar undir höndum auk húseigna og landeigna. Þar eru ákvæðin um afskriftirnar svo rúm, að það má losna við skattgreiðslur af gífurlegum upphæðum á ári hverju, ef þeim er beitt til fulls.

Eins og kunnugt er, þá er meginhlutinn af gróðamyndun í landinu núna einmitt hjá ýmiss konar félögum, hlutafélögum, sameignar- og samvinnufélögum, og er ástæðan til þess sú, að meiri skattfríðindi hafa verið veitt þessum félögum og auðveldara að koma fé sínu undan skatti á þann hátt heldur en ef einstaklingarnir hefðu reksturinn með höndum. Í því er hvöt til að leggja saman fé sitt og ráðast þannig í stærri fyrirtæki, og er ekkert um það að segja. En það hefur einnig leitt til þess, að búin eru til hlutafélög, sem eru í raun og veru bara einstaklingsrekstur, og njóta þau þá eða þeir einstaklingar, sem að þeim standa, sömu skattfríðinda og ef um raunverulegan og reglulegan félagsskap margra manna væri að ræða.

Það er vitað, eins og ég áðan sagði, að megingróðasöfnunin í landinu rennur til þeirra félaga, sem þessi ákvæði skattalaganna fjalla um, og allir vita, að þar er um gífurlegar upphæðir að ræða. En við skattframtöl kemur það fram, að á árinu 1953 eru ekki taldar fram sem skattskyldar nema rösklega 28 millj. kr. hjá 80 tekjuhæstu félögunum í Rvík. Það getur engum, sem nokkuð þekkir til hér, blandazt hugur um, að þessi upphæð er ákaflega fjarri því að segja til um það, hverjar raunverulegar tekjur eða arður þessara félaga hefur orðið, auk þess sem að sjálfsögðu eru ýmis vanhöld á framtölum margra þessara félaga, því að bæði menn og stofnanir eru ekki gjörn á að flíka tekjum sínum meira en nauðsynlegt er við skattframtöl, hygg ég að sé óhætt að segja. Þá liggur það, hversu þessi upphæð er lág, í því, að þegar hún er ákveðin, er búið að draga frá varasjóðstillögin, úthlutun arðs til þeirra, sem fé eiga í fyrirtækjunum, og loksins fyrningarafskriftir af þeim eignum, sem afskriftir falla á og félögin hafa með höndum. Og enginn vafi er á því, að hér er um svo gífurlegar upphæðir að ræða, að þau skattfríðindi, sem á þann hátt fást, eru margra milljóna króna virði.

Eftir því sem næst verður komizt á framtölum 80 tekjuhæstu félaganna í Reykjavík, mun hrein eign þessara félaga hafa verið á milli 400 og 500 millj. kr. á árinu 1953, og er þá talið, að fasteignamat, sem að sjálfsögðu er talið fram sem verð á fasteignum þeirra til skatts, sé um 1/15 hluti af raunverulegu verði. Þegar litið er til þessa, er það augljóst, að ekki nema lítill hluti af raunverulegum tekjum þessara félaga kemur fram til skatts, eins og lögin eru nú, og því enn þá minni ástæða til þess að veita ívilnanir frá skatti, lækka þennan lága skatt, sem þarna er um að ræða, um 1/5 hluta, eða 20%.

Meginþungi skattabyrðarinnar hvílir, eins og öllum er kunnugt um, á einstaklingum í landinu og þá fyrst og fremst þeim einstaklingum, sem hafa launatekjur og ekki nokkra möguleika á því að leyna tekjum sínum eða koma þeim undan skatti.

Ég álít því, að það sé annað, sem kallar miklu meira að til breytinga á skattalögunum en að lækka þann tiltölulega lága skatt, sem félögin bera, miðað við eignir þeirra og tekjur, — það séu aðrar breytingar, sem kalli miklu meira að en að lækka þennan tiltölulega lága skatt um fimmtung fyrir það eina ár, sem hv. frsm. telur að hér muni vera um að ræða.

Hv. frsm. drap réttilega á það, að árið 1952 hefði verið skipuð mþn. í skattamálum til þess að athuga tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og gera till. til breytinga þar á. Frá þessari hv. mþn. komu till. gegnum ríkisstj. á síðasta þingi um breytingar á skattlagningu einstaklinga, sem hlutu afgreiðslu hér á þingi. En enn á þessu þingi, þó að liðin séu 3 ár full síðan nefndin var skipuð, hafa engar till komið fram um breytingar á sköttum félaganna og ekki heldur um tekjustofna sveitarfélaganna. Mér varð því mikil ánægja að því, að hv. frsm. upplýsti nú, að þess mætti vænta, að till. um þetta efni mundu koma frá n. það snemma, að þær yrðu lagðar fyrir þingið núna í haust. Mér virðist einmitt, með tilliti til þessa, að það sé engan veginn aðkallandi að lækka þennan skatt, sem hér um ræðir á félögunum, þar sem telja má víst eftir þessari yfirlýsingu hv. frsm., að hér sé aðeins um eitt ár að ræða og að lögin verði í heild sinni endurskoðuð hvað þetta snertir þegar á næsta þingi. Eins og ég áðan sagði, eru önnur atriði, sem ég tel að meira kalli að.

Hv. frsm. gat þess einnig, sem mér þykir vænt nm að heyra, að í sambandi við endurskoðun á skattlagningu félaganna væri nauðsynlegt að athuga einnig hlutafélagalögin. Ég er honum sammála um þetta og vildi mega vænta þess, að það yrði gert hið bráðasta, því að það eru tvö mál, sem snerta hvort annað.

Ég sem sagt get ekki orðið samferða hv. meðnm. mínum. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að fella úr frv. ákvæðin um þessa skattalækkun hjá félögunum, og legg því til á þskj. 691, að 1. gr. verði breytt og orðuð eins og þar segir.