03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

189. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. forseti skaut hér fram áðan til hv. frsm. minni hl., að hann var hér að ræða um allt annað mál en á dagskránni er, enda er sýnilegt, að þau mjög svo óviðeigandi ummæli, sem hann hefur látið hafa sig til að setja inn í nál., eiga alls ekki við þetta mál. Sýnir það, að hv. frsm. minni hl. hefur ekki gert sér ljóst, þegar hann var að semja nál., hvaða mál það var, sem hann hafði tekið til meðferðar. Öll ræða hans hneig að allt öðru frv., sem verður hér til umr. síðar, og gefst honum þá væntanlega tækifæri til þess að nota þessi gögn í því máli.

Ég vil á þessu stigi aðeins þakka hv. frsm. meiri hl. fyrir hans skeleggu og réttlátu ummæli um þau ummæli í nái. hv. minni hl., sem eru mjög svo óviðeigandi í þessu tilefni og alls ekki lík því, sem vinnubrögð hv. frsm. minni hl. jafnan eru. Hann virðist hafa verið hér undir einhverri sérstakri þvingun frá sínum ágæta flokki, eða það hefur haft slík áhrif á hann að sjá þá staðreynd, að hans flokkur sé að molast niður í þinginu og missa fylgi hjá þjóðinni, að hann hefur látið skapið hlaupa svo með sig í gönur sem sýnilegt er af ræðu hans.

Ég vil leyfa mér aðeins að benda á í sambandi við það, sem hv. þm. var að tala um, að hér sé verkamanninum íþyngt með ákvæðum frv. miklu meira en bónda í sveit, að þegar verkamaðurinn fær 75% af kostnaðarverði úr byggingarsjóði verkamanna, eða um 150 þús. kr. á íbúð með 31/2% vöxtum, ef þetta mál nær fram að ganga, og er þetta viðurkennt af hv. frsm., þá þarf hann þó ekki að taka að láni annars staðar frá eða greiða úr eigin vasa nema b0 þús. kr. til að koma slíkri íbúð upp. En hvað þarf bóndinn að gera? Við skulum ekki deila um það hér, hvort bóndi þarf yfirleitt meiri eða minni húsakynni en verkamaðurinn með jafnmargt fólk í heimili, og hygg ég þó, að það sé erfitt fyrir mann með jafnstóra fjölskyldu í sveit að komast af með sömu húsastærð og jafnstór fjölskylda gerir í kaupstað. En það skal ég þó láta liggja á milli hluta. Hitt vil ég benda hv. þm. á, að ef gert er ráð fyrir því, að sams konar hús eigi að byggja í sveit, þá kostar það engu minna en að byggja það í kaupstað, og þá verður þó að reikna með, að íbúðin kosti 200 þús. kr. í sveit. Venjulega á sveitabóndinn við það að búa að þurfa að aka öllu byggingarefni langar leiðir frá verzlunarstað; oft tugi kílómetra, auk þess sem hann verður að sæta því að kaupa miklu dýrara iðnaðarfólk, þar sem það verður að fara venjulega frá heimili sínu til þess að byggja fyrir hann, en slíkt á sér venjulega ekki stað í kaupstað. En tökum ekki tillit til neins af þessu, heldur göngum út frá því; að kostnaðarverðið sé það sama. En þá þarf þó bóndinn að standa undir 140 þús. kr. vaxtabyrði hjá öðrum lánveitanda, á meðan hinn, sem byggir í kaupstað, Þarf þó ekki nema 50 þús. kr. fram yfir lánsfé úr byggingarsjóði verkamanna. Þessu virðist hv. frsm. alveg hafa gleymt, því að það er vitað, að úr þeim sjóði, sem hann vísaði hér til, er bónda ekki lánað nema 60% af byggingarkostnaði og aldrei yfir 60 þús. kr. á hverja byggingu, hversu dýr sem hún kann að verða. Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. ætti að reikna út, hvað mikil vaxtabyrði hvílir á bónda, sem verður að lúta þessum kjörum, að fá aðeins 60 þús. kr. út úr byggingarsjóðnum með 31/2%, þ.e. sömu vöxtum og hinn aðilinn fær 150 þús. kr., og verða síðan að bera miklu hærri vaxtabyrði af 140 þús. kr. á móti 50 þús. kr. hjá hinum aðilanum, sem í kaupstað býr.

Þá gat hv. frsm. þess, að með þessu móti væri verið að taka 2/3 af launahækkuninni, sem hefði fengizt með verkfallinu. Nú vildi ég gjarnan spyrja hv. 4. þm. Reykv.: Dettur honum virkilega í hug, að þessi launahækkun, sem fékkst hér með 5 eða 6 vikna verkfalli, hafi fengizt án þess, að viðkomandi aðilar, þ.e. launþegarnir, verði að greiða eitthvað fyrir hana? því var marglýst yfir hér, áður en verkfallið var hafið, og sýnt fram á það með rökum, að launahækkunin hlyti að leggjast á herðar sjálfra launþeganna síðar meir. Það er enginn óviðkomandi aðill hér, sem svífur yfir skýjunum og greiðir þessa launahækkun. Hún hlýtur að koma á alla þjóðfélagsþegnana, einnig á verkamennina, sem þurfa að byggja yfir sig húsnæði, og hún kemur miklu þyngra niður á þessa sömu aðila í gegnum annan útgjaldalið, þ.e. vinnulaun iðnaðarmannanna og verkamannanna, sem vinna við að koma húsbyggingunni upp, en hv. 4. þm. Reykv. lét sinn flokk standa fastast með þeim, sem gerðu kröfu um að fá iðnaðarmennina stórhækkaða í launum og miklu hærra hlutfallslega en láglaunamennina, og taldi það vera nauðsynlegustu aðgerðirnar til þess að bjarga fátækustu verkamönnunum í Reykjavík. Hann hefur kannske ekki gert sér það ljóst á þeim tíma, sem hann stóð að verkfallinu með öllu því afli, sem Alþfl. átti yfir að ráða enn þá hjá þjóðinni, en honum er það kannske ljóst nú, að ef 2/3 af launahækkuninni eru teknir á þennan hátt með því að hækka um 11/2% vexti af þeim 150 þús. kr., sem þessir aðilar geta fengið úr byggingarsjóðunum, þá fer meira en 1/3 hluti af launahækkuninni vegna hækkandi launa við byggingarnar sjálfar. Það væri líklega heppilegast fyrir hv. Alþfl. og hv. 4. þm. Reykv. að snúa nú við blaðinu og krefjast þess, að stöðvuð verði vinna um nokkra stund til þess að lækka launin aftur í landinu.

Hv. þm. sagði, að sig furðaði á því, að þeir menn, sem væru fulltrúar fyrir kaupstaðina, skyldu ekki láta meira til sín taka í þessu máli en komið hefði fram hjá hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar.

Í fyrsta lagi er gleðilegt að geta sýnt fram á það, að þm. almennt, og ekki hvað sízt hinir ágætu þm. Sjálfstfl., eru alveg hafnir upp yfir það að vera þm. einhverrar klíku, hvort sem það er í kaupstað eða í sveit. Þeir eru fyrst og fremst þm. fyrir þjóðina, þegar þeir eru komnir á Alþ., og sýna hér fulla sanngirni í málum og víðsýni. Ég skal játa, að þetta er ákaflega óvenjulegt hjá Alþfl., og þess vegna komu nú þessi ummæli frá hv. 4. þm. Reykv., þrátt fyrir það að hann hafi setið hér á þingi í fjöldamörg ár og séð þessar starfsaðferðir hjá öðrum flokksmönnum og öðrum þingfulltrúum, svo að þess vegna verður að fyrirgefa það. En auk þess sýndi hv. frsm. meiri hl. fram á það, að í þessu var full sanngirni, gagnstætt ósanngirninni í þeim ummælum, sem komu fram hjá hv. 4. þm. Reykv. í nál: og ræðu hans.

Ég vildi því vænta þess, að þegar hv. 4. þm. Reykv. hefur athugað þessi mál öll, sýni hann þá sanngirni í þessu máli að falla frá sinni skoðun um afstöðu til málsins sjálfs og viðurkenni það, sem er raunverulega mergur þessa máls, að það sé miklu meira virði fyrir bæði sveitarfélögin og fyrir íbúa í kaupstöðum og þorpum að fá nokkuð löng og verulega há lán út á byggingarnar, svo lengi sem vaxtabyrðin er ekki meiri en hér ræðir um, 31/2%, heldur en að fá vaxtalægri lán, ef yrði svo að skera niður lánsupphæðirnar til framkvæmdanna einungis vegna þess, að féð yrði að ganga til greiðslu á vaxtamismun, því að það er að sjálfsögðu miklu minni úrbót fyrir viðkomandi aðila, og hefur það einnig komið fram í öðru frv., sem verður hér síðar til umr. Er þar gert ráð fyrir því, að sveitirnar geti fengið önnur lán en þau, sem hér um ræðir, og þá með miklu hærri vaxtakjörum en hér eru sett inn í þetta frv.