03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

189. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forsetl. Ég hef nú hlýtt á reiðilestur hv. þm. Barð. (GíslJ), sem var eins konar eftirmáll við reiðilestur hv. þm. Seyðf. (LJóh), og minnist ég þá gamla spakmælisins, að sannleikanum er hver sárreiðastur. Í raun og veru er það fullnægjandi svar við fullyrðingum beggja þessara hv. þm., vegna þess að þeir hafa ekki borið við að bera brigður á, að það sé óskaplega mismunað stéttunum, eins og sagt er í nál. mínu, eftir því, hvort búið er í sveit eða kaupstað, þar sem byggingarsjóði sveitanna er tryggt á tveimur árum aukið starfsfé, a.m.k. um 24 millj. kr., en kolfelldar hafa verið till. um tilsvarandi aukningu á starfsfé byggingarsjóðs verkamanna, sem er aðallega fyrir kaupstaðarbúa. Þetta eru staðreyndir, sem ekki er til neins að mótmæla. Hér er mismunað þeim mönnum, sem leita til þessara tveggja sjóða, eftir því, hvort þeir eru búsettir í sveitum eða kaupstöðum. Það breytir engu, þó að lagasetning almennt um stuðning til landbúnaðarins sé með allt öðrum hætti en til kaupstaðanna, enda er, eins og hv. þm. vel veit, þar um svo margvíslega styrki og stuðning fyrir utan sérstaklega lág vaxtakjör að ræða, að það er aðeins einn þáttur í miklu víðtækari stuðningsstarfsemi heldur en þetta frv: fjallar um.

Hv. þm. segir, að sams konar íbúð í sveit kosti a.m.k. jafnmikið og í kaupstað. Ekki hygg ég, að þetta sé nú alveg rétt. Hún verður í langflestum tilfellum ódýrari, og a.m.k. getur sveitabóndinn ævinlega haft betri aðstöðu til þess að nota eigin vinnukraft og þann vinnukraft, sem til er á heimilinu, heldur en hinn, sem í kaupstaðnum býr og byggir í félagi við marga aðra. - Þetta er staðreynd einnig, sem ekki er til neins að mæla á móti.

En það, sem ég gerði hér að mínu aðalumræðuefni áðan, var það, að báða þessa sjóði vantar starfsfé til þess að geta uppfyllt það verkefni, sem þeim er ætlað. Úr þessu er bætt hjá öðrum sjóðnum, en ekki hinum. Vaxtakjör sjóðanna hljóta eðlilega, eins og lögin nú eru, þ.e.a.s. útlánsvextir sjóðanna, að nokkru að fara eftir því, hversu mikið starfsfé þeir fá að láni, því að þá verður vaxtamunurinn, sem greiddur er, þeim mun meiri, sem starfsféð er meira, sem þeir hafa á milli handa. Þess vegna væri ekkert óeðlilegt, ef starfsfé sjóðsins væri aukið verulega, að þá væri jafnframt dregið úr vaxtamismuninum á þann hátt eða með það fyrir augum, að bann tæki ekki svo stórar fúlgur, að það lamaði framtíðarstarfsemi sjóðsins, ef ekki væri þá aukið framlag hins opinbera til þess að bera þennan aukna vaxtamun. Þetta er einn. þátturinn í þessu vaxtamáli, eins og ég áður sagði, og óhjákvæmilegt að ræða um hann í sambandi við það.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði sagt í minni fyrri ræðu, að 2/3 af þeirri launahækkun, sem verkamenn nú hefðu fengið, yrðu aftur teknir með hækkaðri húsaleigu eða húsnæðiskostnaði hjá manni, sem nú tæki lán hjá byggingarsjóði verkamanna, eftir að lögin yrðu samþ. Þetta er rétt, og það kalla ég í nál. að taka með annarri hendinni það, sem veitt er með hinni. Það gildir um þá tiltölulega fáu menn, sem kæmust að til þess að byggja fyrir lán úr sjóðnum nú fljótlega. En þetta gaf hv. þm. Barð. tilefni til þess að spyrja mig, hvort ég héldi, að launþegar fengju sínar kauphækkanir án þess að þurfa að borga fyrir þær. Nei, því miður hefur nú reynslan sýnt, að það fæst ekki. Þeir borguðu t.d. þær launahækkanir, sem þeir fengu núna, með 6 vikna verkfalli, sem er „kontant“-greiðsla fyrir fram, um leið og þetta fæst. Sorgleg staðreynd, es allt um það staðreynd, að það kostaði það að fá þessar launahækkanir.

Hv. þm. segir, að af þessu hljóti að leiða, að verðlag og þjónusta, sem verkamennirnir, sem kauphækkunina fengu, verða að greiða, hljóti að hækka, og þar með muni þeir aftur tapa þeirri launahækkun, sem þeim nú hafi áunnizt, eða svo skildi ég hann. Ég játa það, að þessi ótti, ef ég mætti kalla það svo, er ekki ástæðulaus, ef litið er til þess, sem gerzt hefur á undanförnum árum. En það er að ákaflega miklu leyti á valdi stjórnarvaldanna í landinu, hvort svona verður eða svona ekki, — ég er ekki að segja að öllu leyti, en að ákaflega miklu leyti.

Þá vil ég minna hv. þm. á það, að samkvæmt þeim samningum, sem nú eru í gildi og áður giltu, á kaupgjald það, sem samið hefur verið um, að hækka samkvæmt vísitölu á þriggja mánaða fresti. Sýni sú vísitala réttar breytingar, eiga þær hækkanir, sem fram koma, að leiða til þess, að tilsvarandi hækkun kemur á kaupgjalti verkafólksins. Því ætti það að vera hið mesta áhugaefni þeim, sem óttast þessa kauphækkun, að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir, að önnur verðhækkun verði en sú, sem beinlínis er óhjákvæmileg og óviðráðanleg. Vildi ég mega vænta, að hv. þm. vildi beita sér fyrir því í sínum flokki, að þetta sjónarmið yrði þar ráðandi. Ég er ekki viss um, að það sé þar ráðandi, því að ég hef fengið fréttir um ýmsar hækkanir, sem hafa orðið á þjónustu hér, einmitt á þeim fáu dögum, sem liðnir eru síðan samningurinn var gerður, og eru langtum, langtum meiri en kauphækkunin gefur nokkurt tilefni til. Og ég verð að telja, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki staðið í skyldu sinni, — hún átti mikinn þátt í að leysa þetta verkfall, — ef hún reynir ekki að hafa þarna hemil á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að karpa við hv. þm. Barð. um þetta mál. Það, sem er aðalatriðið, er, að engin sú breyting hefur verið gerð á starfsskilyrðum byggingarsjóðs verkamanna, sem geti réttlætt það eða gefið tilefni til að breyta vaxtakjörum nú. Allt öðru máli væri að gegna, ef starfsfé sjóðsins væri aukið svo, að hann gæti greitt úr þörf fleiri manna en hann gerir nú, en það er ekki fyrir hendi, og allar till. í þá átt hafa verið drepnar.