18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, er mjög skylt því, sem við vorum að ræða hér áðan, þó með þeim mun, að í staðinn fyrir, að áðan vorum við að ræða um þau lán, sem veitt eru til verkamannabústaða, er hér um að ræða þau lán, sem veitt eru samkv. lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, og þessi lög sjálf eru að vísu nokkuð ný í þeirri mynd, sem þau nú eru, sett rétt eftir stríðið, en byggja hins vegar að nokkru leyti á gömlum l., sem lengi höfðu verið allmikið baráttumál.

Í aths. við lagafrv. þetta er gerð grein fyrir ástæðunum til þess, að hæstv. ríkisstj. leggur til að hækka nú vextina. Hún segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Verður þó að telja, að vaxtagreiðslum sé í hóf stillt, miðað við vaxtakjör, sem algeng eru nú orðið.“ Í þessari röksemd er nokkur blekking. Vaxtakjör eins og þau, sem nú eru algeng, hafa verið til á Íslandi áður, jafnvel áratugum saman, og samt sem áður hefur þá þótt ástæða til þess að hafa vextina af lánunum til þess að byggja upp sveitirnar miklu lægri en vaxtakjör voru almennt þá á frjálsum markaði, m.ö.o. 2% í stað þess að miða þau við þá vexti, sem þá voru orðnir algengir.

Þetta er eina lagafrv., sem veruleg grg. er fyrir, af þessum þremur, sem hér liggja fyrir, og þar virðist auk þess aðallega vera byggt á því, að Búnaðarbankinn eða ræktunarsjóðurinn tapi svo miklu á því að verða að lána út á þennan hátt, að það geti ekki borgað sig fyrir hann.

Nú vil ég minna á það, að þegar rætt var hér forðum um lán til Búnaðarbankans og ráðstöfun á fé þá og ákveðinn hár vaxtafótur, þá sagði ég hvað eftir annað við ríkisstj., að með því að setja vextina eins hátt og þá var gert, 51/2%; mundi þetta þýða, að fyrr eða seinna kæmu þeir og hækkuðu þá vexti, sem þá voru í ræktunarsjóðnum, og nú sýnir sig, að þetta er gert, þannig að það sýnir sig, að það, sem þeir voru að mótmæla þá sérstaklega, ýmsir af framsóknarráðherrunum, hefur nú komið fram. En var þörf á þessu? Var þörf á að láta svona undan? Ég álít ekki, og ég vil alveg sérstaklega benda á í því sambandi, að það er vel hægt að tryggja þessum sjóðum þær tekjur, sem þeir þurfa til þess að borga upp mismuninn þarna á annan hátt.

Ég minntist á í ræðu um annað mál, að það væri eitt, sem væri mjög eðlilegt í því efni, og það væri, að Búnaðarbankinn hefði nokkra verzlun með útlendan gjaldeyri. Ég álit, og það munu víst flestir þm. álíta líka, að það komi til þess nú þegar á þessu ári, en a.m.k. á því næsta; að íslenzkur landbúnaður fari að flytja út vörur. Ég veit, að það eru ekki vandræði með að útvega markað fyrir þær vörur, sem íslenzkur landbúnaður framleiðir, ekki sízt, ef búið ar þannig að honum, að hann er ekki látinn liggja undir mjög þungum vaxtakjörum og á kost á sæmilegum lánum. Ég á þar með við, að auk þess sem hann nú þegar að nokkru leyti selur landbúnaðarafurðir út úr landinu, þá komi kjötframleiðsla til útflutnings til greina aftur á næstunni. En eitt af því, sem er auðvitað nauðsynlegt, ef á að hjálpa landbúnaðinum til þess að geta verið jafnfær til að sjá um útflutning og keppa á útlendum markaði eins og aðrar atvinnugreinar, er að búa þannig að honum, að hann hafi löng lán og lága vexti. Það er eitt skilyrðið til þess, með hvaða atvinnurekstur sem er, að þannig sé að honum búið hvað lán og vexti snertir, að ekki fari of mikill hluti af andvirði varanna, sem framleiddar eru, í þá fúlgu, sem fer til peningamannanna, peningavaldsins. Og ég hélt nú satt að segja, að það hefði verið frá upphafi ekki sízt skoðun Framsfl., að þannig ætti að stjórna þessum málum, að það ætti að reyna að losa landbúnaðinn sem allra mest við vaxtaokur, og þess vegna hefði það frá upphafi verið stefnan að reyna að hafa vextina svo lága, að þeir væru um 2%. Ég skal aftur koma með aðra spá, ef ekki er tekið neitt tillit til þessa, og hún er sú, að svo framarlega sem ekki er hugsað um það, að landbúnaðurinn fái sæmileg kjör hvað vexti snertir á þeim lánum, sem hann þarf til sín, þá komi eftir nokkurn tíma sú krafa, að í staðinn borgi ríkissjóður uppbætur á það, sem flutt er út. Það tíðkast í ýmsum öðrum atvinnuvegum og kannske ekki alveg eins óeðlilegt. En hvernig er þá þessi hringrás orðin, ef ríkissjóður ákveður fyrst að svo að segja okra á þeim lánum, sem ríkissjóður sjálfur getur ráðið um, segja síðan við atvinnuvegina: Ja, þið eruð ekki færir um að standa undir framleiðslunni. Þið eruð ekki samkeppnisfærir, og það verður að borga með ykkur og framleiðslunni, sem þið flytjið út, — en okra á þeim aftur á móti hvað vextina snertir? Þetta nær ekki nokkurri átt. Við eigum að ganga þannig frá þessum atvinnuvegum, — og það er sama, hvort í hlut á sjávarútvegur eða landbúnaður, að við reynum að hafa vextina til þeirra sem allra lægsta og lánin sem bezt og látum ekki ráða í þessum efnum, hvers konar vextir það eru, sem braskaralýðurinn skapar í sínum svokölluðu frjálsu viðskiptum. Við eigum að sjá um að halda þessu utan við. Og þetta var í gamla daga að minnsta kosti alltaf stefna Framsóknar, og hún var ekkert hrædd við að standa með þessu þá. Það var svo um tíma, að það var beinlínis reynt að sjá til þess, að það væri lagður allmikill skattur á auðmenn landsins til þess að geta haft vextina lága til bændanna og þeirra, sem vildu byggja sveitirnar upp. Ég vil bara rétt, þó að það verki nú kannske eins og hálfgerður draugur fyrir Framsfl. núna, minna á frv. um byggingar- og landnámssjóð, ekki aðeins eins og það var lagt fram á fyrstu árunum, 1925 og 1926, heldur líka eins og það var lagt fram, þegar Framsfl. í fyrsta skipti komst í ríkisstj., lagt fyrir Alþ. 1928. Meðan íhaldsstjórnin var hér á árunum 1925 og 1926, flutti Jónas Jónsson frá Hriflu sem landsk. þm. Framsfl. tvö frv., sem voru samferða, frv. um byggingar- og landnámssjóð og frv. um gróðaskatt. Með gróðaskattinum átti að leggja alveg sérstakan aukaskatt á gróða peningamannanna, og þennan sérstaka gróðaskatt, eins og hann var kallaður, átti síðan að nota til þess að „finansera“ eða tryggja fé til þess að koma upp nýbýlum og til þess á annan hátt að vinna að því, að hægt væri að byggja í sveitunum, og umr. á þeim árum voru mjög harðar um þessi mál. Það var jafnan nokkuð af þessu, sem var hugsanlegt að snerti þeirra eignir, og í þeim umr. var greinilega sýnt fram á það, að svo framarlega sem bændur ættu að geta staðið undir því bæði að skapa nýbýll í landinu og húsa jarðirnar, þá þyrftu þeir að hafa mjög lága vexti.

Það vakti, eins og nærri má geta, gífurlega andúð hjá íhaldinu og fulltrúum peningamannanna, þegar þessar till. um gróðaskattinn komu fram, og öll frv. Jónasar og Framsfl. á árunum 1925 og 1926 um byggingar- og landnámssjóð og um gróðaskattinn voru drepin á þessum árum. En Framsókn hafði þó með þessari afstöðu gefið yfirlýsingu um sína stefnu í þessum efnum.

Árið 1928, þegar Framsókn var komin í stjórnaraðstöðu, var greinilegt, að það tók að hafa nokkur áhrif á hana afstaða bankanna, ekki sízt Landsbankans, og það var á nokkurn hátt dregið úr þessu hvað það snertir, að hætt var við að afla fjárins í þetta með gróðaskattinum, heldur var hann beinlínis lagður fram af ríkinu: En það var reynt að sjá til þess, að eftir sem áður væru vextirnir raunverulega lágir og að það, sem þyrfti að endurborgast, væri sem lægst. Til þess að reisa býli, sem ræktað land fylgdi, átti árlegt gjald af allri lánsupphæðinni að vera 31/2% í 50 ár eftir 5. gr. frv. og laganna þá, — 31/2% í 50 ár, bæði afgjaldið og vextirnir til samans, — en aftur á móti með lán viðvíkjandi byggingarkostnaði, sem þá máttu nema 4/5 byggingarkostnaðar, átti árlegt gjald af allri lánsupphæðinni, þ.e. bæði vextir og afborganir, að vera til samans 5% í 42 ár. Það, sem þá hefur vakað fyrir, kemur greinilega fram í grg. við 5. gr., þar sem ákveðið er um afgjaldskvaðirnar og hvernig megi leigja, að þær svari til 2% vaxta. Hugmyndin, sem þar liggur á bak við, er því sú. M.ö.o., frá upphafi vega hefur verið gengið út frá því, að til þess að byggja sveitirnar upp þyrfti jafnvel að leggja sérstakan skatt á gróðamennina í bæjunum, jafnvel það róttækan skatt, að gengið væri að þeirra elgnum, ekki aðeins að þeirra stórgróða, og það hefur verið álitið sjálfsagt, að það yrði að tryggja þeim bændum og þeim nýbýlingum, sem vildu leggja í að stofna nýbýli og auka landbúnaðinn í landinu, lán til 40-50 ára og að til samans afborganir og vextir af slíku væru frá 31/2% upp í 5%. Hugmyndin, sem fyrir öllum þessum mönnum hefur vakað; sem um þetta hafa fjallað, er vextir í kringum 2%. Og ég vil aðeins skjóta því fram til allra þeirra, sem hugsa um, hve mikið við eigum eftir að vinna enn þá í íslenzkum landbúnaði og hve dýrt það er að stofna nýbýli núna, hvort það sé ástæða til þess yfirleitt að fara út í það að hækka vextina við þá, sem eiga að stofna þessi nýbýli. Ég vil því spyrja þá menn, sem koma hér fram í þinginu með þáltill. um jafnvægi í byggð landsins og annað slíkt, þá menn, sem segja alveg réttilega, að við þurfum að reyna að gera mönnum mögulegt að auka ræktunina í sveitunum, að stofna nýbýli þar, að gera svo og svo miklu af landsmönnum mögulegt að búa þar, — ég vil spyrja þá að því: Finnst þeim þetta vera hjálp til þess, finnst þeim þetta vera stefnan? Ég held, að þetta sé orðið alveg umsnúið frá því, sem var í gamla daga. Fyrir 25 árum, jafnvel fyrir upp undir 30 árum, þótti Framsfl., sem þá leit alveg sérstaklega á sig sem fulltrúa leiguliðanna og smábændanna, rétt að stilla upp hér á Alþingi spurningunni um að leggja sérstakan gróðaskatt á auðmennina í Reykjavík til þess að gera mögulegt að láta vaxtalág og löng lán til handa bændunum í sveitinni og þeim, sem vildu gerast bændur. Núna aftur á móti finnst Framfl. rétt að láta gróðamennina í Reykjavík, það vitlausa brask, sem hér er orðið með peninga í kringum okkur, marka stefnu málanna, sem Álþingi er að afgreiða; fyrst gróðamennirnir í Reykjavík álíta, að það sé gefið að fá peninga fyrir 7%, 8%, og bjóða meira, þá eigi að hlaupa á eftir þeim og h2ekka vexti, sem búið er að halda raunverulega í þessum lögum, sem hérna liggja fyrir, í einu eða öðru formi áratugum saman, úr 2% upp í 31/2 %.

Ég álít þess vegna, að það sé rétt að stinga hér nokkuð við fótum, athuga, hvort í fyrsta lagi sé ekki eðlilegt að vinna þetta vaxtatap upp á annan hátt. Ég hef minnzt á aðferð til þess og skal fara nánar inn á hana, en hins vegar þó, og það er aðalatriðið, álít ég nauðsynlegt að tryggja, að haldizt geti þeir lágu vextir, sem svo lengi hefur verið barizt fyrir og svo lengi hefur tekizt að halda í, með tilliti til hagsmuna þeirra, sem þessi lög varða. Ég álít, að lífsvenja peningavaldsins í Reykjavík eigi ekki að marka þau kjör, sem við ætlum að tryggja bændum og verkamönnum við þeirra nauðsynlega starf.

Viðvíkjandi svo hins vegar því vaxtatapi, sem Búnaðarbankinn og sjóðirnir verða fyrir, vil ég benda á það, sem ég hef minnzt á áður. Hví ekki að leyfa Búnaðarbankanum í þessu tilfelli að hafa með höndum verzlun með útlendan gjaldeyri? Ég minntíst á það áðan, að nú mundi landbúnaðurinn þurfa að fara að flytja út kjöt í viðbót við þær vörur, sem hann þegar hefur flutt út. Er nokkur sérstök ástæða til þess, að bændur geti ekki jafnt verzlað við þann banka, sem þeir telja sérstaklega sinn banka, Búnaðarbankann, í þessum efnum og hann annazt um yfirfærslur og annað slíkt í sambandi við það? Víð vitum það allir, sem eitthvað komum nærri viðskiptum bankanna hér, að þeirra höfuðgróði í sambandi við viðskipti er ekki vaxtamismunurinn á því fé, sem þeir fá til innláns, og því sem þeir lána út. Höfuðgróðinn er það fé, sem þeir fá fyrir þær tryggingar og þær yfirfærslur, þ.e. þá „remhoursa“ og þær yfirfærslur, sem þeir framkvæma í sambandi við viðskiptamál, og hví í ósköpunum mætti ekki tryggja Búnaðarbankanum jafnt slíkt með því skilyrði, að hagnaðurinn af slíkum viðskiptum rynni allur til þessara sjóða, sem þarna er um að ræða, byggingarsjóðsins og ræktunarsjóðsins? Ég er alveg handviss um, að það mundi gera miklu meira en að vega upp það tap, sem lagt er til að vega upp nú, og þó ekki að öllu leyti, með því að hækka vextina.

Ég vil minna á það, að það hefur áður komið fram hér í Nd. frv. um að gera þessa breytingu viðvíkjandi Búnaðarbankanum, og það frv. hefur verið samþ. hér í Nd., að hann fengi svo og svo mikið af gjaldeyrinum til umráða, en var hins vegar fellt í Ed. Þá var nú ekki sérstaklega um að ræða þetta vaxtaspursmál í sambandi við það, en mér sýnist, að einmitt í sambandi við þetta vaxtamál væri slík breyting ákaflega eðilleg, og ég vil benda á það sem tekjuöflun fyrir ræktunarsjóð og byggingarsjóð sveitanna.

Ég á bágt með að trúa því, að slíkt mundi ekki hafa fylgi hér í þessari hv. d., eins og það hefur haft áður, þegar reynt hefur á það. Og ég vil taka það fram, að það yrðu vafalaust fleiri en félög bændanna, sem hefðu viðskipti við Búnaðarbankann, ef hann á annað borð hefði gjaldeyrisyfirfærslu, þannig að óbeint mundi þess vegna sá gróði, sem hann fengi með slíku, verka sem eins konar skattur á gróðamennina í Reykjavík, sem sé vera mjög nærri þeirri hugmynd, sem Framsfl., áður en hann nokkru sinni komst í ríkisstj. á Íslandi, var að koma með.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. athugi gaumgæfilega, áður en þeir fara inn á þá leiðu leið, sem lögð er til í þessum efnum, að breyta vaxtafætinum hjá þessum sjóðum, og reyni heldur að finna aðra leið til þess að tryggja ræktunarsjóðnum og byggingarsjóðnum þá peninga, sem þeir þyrftu að fá. Hef ég þegar bent á eina, sem er mjög vel fær, og ég efast ekki um, að fleiri séu færar til þess. En þó að það væri engin önnur leið en að ríkið yrði sjálft að leggja fram til þess að bæta þetta upp, þá er það margfalt betra en að nú sé látið undan þessum þrýstingi peningavaldsins og okraravaldsins allt í kringum okkur og farið að hækka vextina, sem þarf að halda lágum.