18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég gerði hér nokkra grein í umr. um það mál, sem hér var á dagskránni næst á undan, einnig fyrir afstöðu minni til þessa frv., af því að efni þeirra fer svo mjög saman. En það eru þó nokkur atriði, sem mig langaði að hér kæmu fram einnig sérstaklega í sambandi við þetta frv.

Það vekur í fyrsta lagi nokkra athygli, að þessum stóru málum er fylgt þannig á eftir hér á Alþ. af hæstv. ríkisstj., að um frv. er höfð aðeins örstutt framsaga og síðan er gengið af fundi og málin ekki rædd. Sá hæstv. ráðh., sem eðli málsins samkvæmt á að vera hér við umr. og svara fyrirspurnum og ræða málið við þm., hefur ekki talið það skipta máli, heldur horfið af fundi. Það verður að segjast eins og það er, að það hefur verið harla þunnskipað hér á þingbekkjunum af hálfu stjórnarliðsins. Það virðist vera sem svo, að því finnist alveg sjálfsagt, að þessum málum sé hér kastað fram umræðulítið og þm. svo að segja varnað að fá þær upplýsingar eða skýringar varðandi málin, sem eðlilegt væri að hér kæmu fram.

Þá vil ég einnig segja það, að það er furðulegt um fulltrúa bændakjördæmanna í landinu, sem hér hafa sig æði oft í frammi á Alþ., þm. Framsfl. og ýmsir af þm. Sjálfstfl., sem jafnan telja sig sjálfkjörna hér til þess að tala fyrir hagsmunum bændastéttarinnar, að nú þegar er verið að skerða réttindi bændastéttarinnar, verið að taka af bændastéttinni réttindi, sem hún hefur búið við í mörg ár, þá lætur enginn af þessum fulltrúum til sín heyra, ekki eitt einasta orð. Sá þessara aðila, sem var knúinn vegna formsins til þess að segja hér örfá orð, hæstv. ráðh., sagði, að sér leiddist þetta mál og það væri heldur óþægilegt, ja, svona leiðinlegt, en kaus svo hitt, eins og ég hef sagt, að hverfa héðan af fundi.

Það væri nú ekki ófróðlegt fyrir aðra þm. að fá að heyra frá fulltrúum bændakjördæmanna, hvaða rök þeir flytja fyrir því, að það þurfi nú að hækka vaxtakjörin á þeim lánum, sem veita á til uppbyggingar í sveitum landsins, bæði til ræktunar og eins til húsabygginga í sveitum. Það hefur verið lítillega bent á það, að þessir sjóðir þurfi að taka nokkurt fé að láni með miklu hærri vaxtakjörum en þeir almennt veita sín lán með: En hitt hefur svo verið dregið undan, að þessir sjóðir eiga allmikið af eigin fé og hagur þeirra hefur hreint ekki verið erfiður í þessum efnum. Hitt hefur svo líka verið dregið undan, að upplýsa um það, hvernig þessir sjóðir fá aðallega það lánsfé, sem þeir eiga að nota til sinnar starfsemi.

Ég minnist þess í þessu efni, að samþ. var hér á Alþ. á sínum tíma um hinn stóra mótvirðissjóð, sem ég hygg að muni nema á milli 300 og 400 millj. kr. samtals og Íslendingum hefur áskotnazt í sambandi við Marshallkerfið, hér hefur myndazt sem óafturkræft gjafafé og er því hrein eign Íslendinga, að helmingur af þessu mikla fé skuli ganga til landbúnaðarins, til framkvæmda í sveitum landsins. Nú er ætlunin sú, að Framkvæmdabanki landsins hafi með þessa miðlun að nokkru leyti að gera og um leið og þetta fé innheimtist frá Laxárvirkjuninni, Sogsvirkjuninni og öðrum þeim aðilum, sem upphaflega fengu þetta fé, skuli lána þetta fé; helmingurinn á að fara til framkvæmda í sveitum landsins, og þetta er eign ríkissjóðs.

Hver er það nú, sem kúskar ríkisstj. til þess að hafa vaxtakjörin á þessum peningum, sem veittir eru af mótvirðissjóði til framkvæmdasjóða landbúnaðarins, til ræktunarsjóðs, til byggingarog landnámssjóðs, — hver er það, sem kúskar ríkisstj. til þess að lána þetta endilega með 5, 6 eða 7% vöxtum? Hver rekur á eftir með það? Af hverju má þá ekki lána þetta með viðráðanlegri vöxtum fyrir sjóði landbúnaðarins? Það væri virkilega gaman að heyra það frá hálfu hæstv. ríkisstj. og frá hálfu þeirra þm., sem telja sig sérstaklega hér á Alþ. umbjóðendur bænda, hvað það er, sem rekur á eftir með að knýja í gegn þessa vaxtahækkun. Er kannske fólgin í þessari vaxtahækkun einhver stuðningur við bændur landsins, sem ég og aðrir koma ekki auga á? Eða er ætlunin sú, sem maður hefur stundum séð áður, að halda þannig á málunum að veita landbúnaðinum styrk og aftur styrk í ýmsu formi út á ýmsar framkvæmdir og styrkurinn á auðvitað að þakkast á viðeigandi hátt, á viðeigandi degi, þegar það á sérstaklega við í sambandi við alþm.? Landbúnaðurinn á að þakka sína styrki, jafnvel þó að styrkirnir hafi allir verið teknir til baka aftur, m.a. með óþarflega háum vöxtum af þeim lánum, sem landbúnaðurinn hefur fengið.

Það er hvimleitt ástand að knýja fram þá lagasetningu, að landbúnaðurinn skuli þurfa að borga miklu meira fyrir sín lán til sinna nauðsynlegu framkvæmda en þörf er á, en á sama tíma séu svo menn hér á hv. Alþ. að sperra sig við að flytja frv. um að styrkja landbúnaðinn, velta honum aukinn styrk út á þetta eða hitt. Slík vinnubrögð ættu að leggjast niður, og það fer vonandi að koma sá tími, að bændur landsins sjái það, að þetta er óviðkunnanlegt. Það er ekki þetta, sem þeir óska eftir.

Hér var sagt af hæstv. félmrh., í sambandi við þessi vaxtafrv., að þessi frv. væru einn liður, eins og hann orðaði, í samningum stjórnarflokkanna um lausn húsnæðismálanna. Það er nú líka mjög fróðlegt fyrir bændur landsins að heyra þetta. M.ö.o., þegar á að leysa húsnæðisvandamálin, auðvitað fyrst og fremst í þéttbýlinu, fyrst og fremst að leysa húsbyggingarmálin hér í Reykjavík og næsta nágrenni við Reykjavík, þar sem mest þarf að byggja, en þangað hlýtur meiri hluti hinna byggingarlánanna að renna, þá er einn liðurinn sá að láta bændur landsins fara að borga allmiklu hærri vexti af lánum til ræktunarframkvæmda, af lánum til þess að byggja upp húsnæði í sveitum. Það er fróðlegt að fá slíkar upplýsingar sem þetta, að einn liður í því að leysa húsnæðismálin í þéttbýlinu hér í Reykjavík er það að hækka raunverulega álögur á bændur landsins. Hvað segja nú bændafulltrúarnir hér á Alþingi um þetta? Eru þeir raunverulega samþykkir þessari ráðstöfun? Eða una þeir kannske ráðstöfuninni, svo sem kemur fram í því, að þeir geti ekki rætt um þetta hér á Alþ.? Það sýnist líka vera harla einkennilegur stuðningur, að það skuli vera einn liður í því að leysa byggingarvandamálið, húsnæðisvandamálið, að hækka vaxtakjörin á lánum til byggingar á verkamannabústöðum, gera það að verkum, eins og ég sýndi fram á áðan, að vaxtagreiðslur af meðalíbúð í verkamannabústöðum hljóta, bara vegna þessarar vaxta, hækkunar, að hækka um 200 kr. á hverjum mánuði. Í mínum augum litur þetta þannig út, að það sé ekki að greiða fyrir lausn byggingarmála, þetta sé ekki að stuðla að neinu í þá átt, síður en svo. Er því einkennilegt, að þetta skuli koma hér fram undir þeirri yfirlýsingu, að þetta sé einn liður í því að leysa hin miklu vandamál húsnæðisskortsins.

Ég hef hér fyrir framan mig nýjasta prentaða ríkisreikninginn, reikning fyrir 1953, sem sýnir reikning þess sjóðs, sem hér er nú verið að ræða um, byggingarsjóðs sveitanna. Að vísu hefur þarna nokkuð gerzt á árinu 1954, og ég hef ekki þann reikning hér liggjandi fyrir. Þessi reikningur sýnir það, að höfuðstóll sjóðsins nemur 18.5 millj. kr., og þar að auki hefur svo þessi sjóður; til viðbótar við 18.5 millj., sem hann á alveg hreinlega, fengið á óendurkræfan hátt frá ríkissjóði, sem við þessa upphæð bætist, 71/2 millj., sem var veitt af tekjuafgangi ársins 1951, en 7 millj. kr., sem þessi sjóður fékk af gengisgróðanum árið 1950. Hrein eign þessa sjóðs er þá að upphæð 36 millj. kr. Skuldir sjóðsins við ríkissjóð eru hins vegar 13.2 millj. og við Framkvæmdabankann 2 millj. Það er því alveg augljóst mál, að byggingarsjóður sveitanna er vel stæður sjóður. Rekstrarreikningur yfir þetta ár sýnir það, að sjóðurinn hefur vaxið á árinu, hreinn rekstrarhagnaður sjóðsins á árinu er kr. 2919794,31, en allt ríkissjóðsframlag til sjóðsins á þessu ári var 21/2 millj. Hann hefur haft fullar 400 þús. þetta ár fram yfir það, sem er hið beina framlag ríkissjóðs til hans á árinu. Nei, það eru, eins og ég hef áður vikið að, engin rök, sem hníga að því, að vegna afkomu þessa sjóðs sé nauðsynlegt að hækka vextina eins og þetta frv. leggur til.

Svo að endingu það, að hér hefur aðeins verið á það minnzt og það er ekki óeðlilegt í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að um þetta leyti hefur allmikið verið rætt um jafnvægi í byggðum landsins. Það hafa menn úr öllum flokkum verið að halda ræður og flytja þingmál um það, hvaða ráðstafanir megi nú gera til þess að koma í veg fyrir þá þróun, sem verið hefur á undanförnum árum, þegar fólki úti á landsbyggðinni og í sveitum landsins hefur sífellt farið fækkandi, en vöxturinn hins vegar hefur orðið óeðlilega mikill hér í Reykjavík og í næsta nágrenni við Reykjavík. Það er skipuð sérstök nefnd til þess að finna með einhverjum ráðum bót við þessu. Á meðan svo þetta stendur yfir, meðan þetta fer fram, að þessi þingmál eru flutt, um þetta er rætt á Alþ., og meðan n. situr að störfum, þá koma frv. fram eins og þetta, sem miða að því að draga. úr þeim, hlunnindum, sem sveitirnar hafa búið við til síns atvinnurekstrar og til sinna framkvæmda, — frv., sem ekki er sjáanlegt að nokkuð hafi rekið af stað, annað en þá hreinn misskilningur stj. um það, hvað eigi að gera til þess að halda við jafnvægi í byggð landsins. Það er alveg augljóst mál, að ekki getur verið réttmætt, að það sé einn liður í samkomulagi stjórnarflokkanna um húsnæðisbyggingar í þéttbýlinu hér í Reykjavík að láta bændur landsins búa við lakari lánskjör en þeir hafa búið við fram að þessu. Það er algerlega að snúa við hlutunum.

Ég vil svo vona, að það eigi eftir að koma í ljós, þó að síðar verði, í umr. um þessi mál, að þeir fulltrúar bændakjördæmanna, sem æði oft hafa látið til sín heyra hér um málefni bændanna, eigi einnig eftir að rumska í sambandi við þetta mál og láta alþm. og aðra heyra, hvernig þeir vilja rökstyðja afstöðu sína til þessarar réttindaskerðingar, sem hér er um að ræða samkv. þessu frv. fyrir bændur landsins.