18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar eru fjögur mál, sem sérstaklega snerta vaxtagreiðslur af lánum. Það eru frumvörpin um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum, frv. til l. um breyt. á l. um ræktunarsjóð Íslands og frv. til l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, auk hins almenna húsnæðismálafrv., sem einnig stendur hér á dagskránni, þótt það sé ekki komið til umr. enn þá.

Það fer ekki hjá því, að í þeim frv., sem hér liggja fyrir, fáum við að sjá framan í þá stefnu, sem ríkisstj. almennt hefur í fjármálum og í því, hverja fyrirgreiðslu hún vill veita þegnum þjóðfélagsins í krafti þeirra verðmæta, sem þjóðin á. Og það verður ekki heldur sagt annað en að hún sé sjálfri sér samkvæm í frumvörpunum, því að í öllum þeirra er gert ráð fyrir því, að vextir af lánum séu hækkaðir frá því, sem gildandi er í öllum þessum atriðum. Ég skil það ofur vel, að það er engin sérstök skemmtun fyrir ríkisstj. að leggja þetta hér fram, enda var það svo, að sá ráðh., sem mælti fyrir einu af þessum frv., — því að fyrir hinum hefur ekki enn verið mælt af hálfu ríkisstj., — hafði sig hið hraðasta á brott, eftir að hann hafði lýst því yfir héðan úr ræðustól, að þetta mál væri óskemmtilegt. Það var mikið, að hann fann það. En það væri nú samt æskilegra, að ríkisstj. fyndi það, að það er enn þá óskemmtilegra fyrir þjóðina, sem býr í þessu landi, að sitja með þá ríkisstj., sem leggur þessi frv. fram, heldur en nokkurn tíma fyrir ríkisstj. að viðurkenna óstjórn sína í fjármálum með því að sýna hv. Alþ. framan í svona blöð eins og hér liggja fyrir.

Rökin, sem ríkisstj. leggur fram til sönnunar því, að þetta séu nauðsynlegar ráðstafanir, sem hér eru á ferðinni, eru nú að vísu harla lítil fyrirferðar, en einna helzt, ef maður ætti að taka eitthvað af þessu sem rök fyrir málunum, er þó það, að vextirnir, sem tíðkast hjá þessum aðilum, séu svo lágir, að sjóðirnir muni verða óstarfhæfir, ef svo heldur áfram sem horfir. Nú er það að vísu alveg rétt, að hinn almenni vaxtafótur í landinu hefur farið vaxandi að undanförnu, og er það ekki að furða, þar sem það eru einmitt peningamennirnir, þeir mennirnir í landinu sem stærstar fjárfúlgur eiga, sem einnig eiga ríkisstj. og nota hana auðvitað til þess, að þeir geti ávaxtað sitt fé með sem allra hagkvæmustu móti, og almenningur, sem lánin þarf að taka, borgar auðmönnunum meira en tíðkazt hefur fram til þessa.

Þessir útreikningar geta að vísu sýnt, að starfshæfni sjóðanna geti verið í nokkurri hættu að því leyti, að þá muni skorta fé, ef ekkert er að gert. En starfshæfni sjóða sem ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs og annarra slíkra er ekki einasta fólgin í því, að þeir fyllist upp í lok af krónum. Þeir eru til þess ætlaðir, að framkvæmdir séu í landinu, að byggð séu hús og að það sé ræktuð jörð. Sjóðirnir geta orðið óstarfhæfir með öðru móti en því, að þeir tæmist. Þeir verða líka óstarfhæfir, ef svo er komið, að þeir menn, sem eiga að gera þau verk, sem sjóðirnir eiga að leggja fé til, verði bundnir svo þungri vaxtabyrði, að þeir rísi ekki undir því. Sjóðurinn er einnig óstarfhæfur, ef ekki er hægt að rísa undir vöxtum hans eða afborgunum. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á það, — ja, það er nú kannske erfitt að benda henni á eitt eða neitt, þar sem hún er auðvitað haldin til sinna híbýla og telur sér allsendis óskylt að ræða þessi mál í alvöru við hv. alþm., en samt sem áður vona ég, að henni berist það til eyrna einhverju sinni, að því hefur verið haldið hér fram, að með þeirri framkomu, sem hún hefur sýnt hér í þessu máli, í fyrsta lagi með að leggja frv. fyrir sem slík og í öðru lagi með því að vera ekki til viðtals við alþm. um hina raunverulegu hluti, sem koma til með að gerast, ef frv. verða samþ., hefur ríkisstj. unnið sér til óhelgi, og hún sannar það enn, sem raunar hefur verið haldið fram um hana áður, bæði af mér og öðrum, að hún sé ekki stjórn fólksins í landinu, heldur sé hún stjórn peninganna, peningavaldsins. Hún gerir alls konar útreikninga um það, að fólkið geri ekki nógu mikið fyrir peningana, en henni dettur aldrei í hug að sýna útreikning um það, hvernig einn bóndi á að geta staðið undir sínum skuldbindingum, ef hann ræktar jörðina fyrir lán úr ræktunarsjóði, ef hann byggir sér hús í sveit fyrir lán úr byggingarsjóði, ef hann byggir sér hús í kaupstað fyrir önnur þau lán, sem fyrir atheina ríkisins eru til þess ætluð. Slíka útreikninga lætur hún ævinlega vanta, enda er það í fullu samræmi við það, að hún er ekki stjórn fólksins í landinu, heldur er hún stjórn, sem hefur tekið að sér að láta fólkið í landinu ganga undir peningunum, að gera fólkið í landinu þræla fjármagnsins, en ekki hið gagnstæða, að fjármagnið sé tæki fólksins til þess að gera þá hluti, sem til þarf, að þjóðin geti orðið efnahagslega sterk og að einstaklingar þjóðarinnar geti búið við góðan kost. Þessi meginstefna ríkisstj. var raunar ljós, áður en þessi frv. voru lögð fram. Hún birtist í hvert skipti, sem ríkisstj. leggur fram einhverja pappíra varðandi það, hvernig hún ætlar að afgreiða fjármál þessa lands. Ekki sízt í fjárlögum þeim, sem ríkisstj. afgreiðir, kemur það fram, að hún reiknar með því, að bústofn þjóðarinnar sé skattar og tollar og að þeir, sem hún verður fyrst og fremst að þjóna skyldum sínum við, séu sjóðir og aurakassar, en alls ekki fólkið í landinu.

Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að leggja fram, meðan á afgreiðslu þessa máls og þessara mála stendur hér í þinginu, útreikninga um það, hvernig hún hefur hugsað sér, að þeir, sem taka eiga lán úr þessum sjóðum, geti framkvæmt þá hluti, sem til er ætlazt. Ef hún getur sýnt fram á það, ef hún getur reiknað það dæmi til enda, að sjóðirnir komi að gagni með slíkum hætti, þá hefur hún flutt rök fyrir sínu máli; fyrr hefur hún ekki gert það.

En ég sé það á öllu atferli ríkisstj., að hún muni ekki hafa sterkan hug á því að færa nein raunveruleg rök fyrir sínu máli, enda eru þessi mál þannig vaxin, að hennar rök eru ekki til. Þess vegna er það, að við sjáum á eftir ráðherrunum burt úr þingsalnum, þegar fara á að ræða þessi mál, hvað þá að þeir geti gefið upplýsingar um eitt eða neitt varðandi framkvæmd þessara mála.