29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

70. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 92, um breyt. á l. um ræktunarsjóð, sem eru lög frá 1947, er mjög hliðstætt því frv., sem ég áðan lýsti, varðandi landnámið og nýbyggðirnar og byggingarsjóðinn. Það framlag, sem ákveðið er í 3. gr. laganna til ræktunarsjóðs, 500 þús. kr. á ári í tíu ár og er því úti á sama tíma og hitt, eða 1956, er hér lagt til að verði framlengt um tíu ár eins og hitt.

Ræktunarsjóðnum er ætlað að veita lán til ræktunarframkvæmda í sveitum, jafnt framræslu, ræktunar, útihúsabygginga og ýmislegs annars, og þar að auki til iðnfyrirtækja, er snerta landbúnað, eins og sláturhúsa, mjólkurbúa og margs fleira slíks, þannig að hlutverk sjóðsins er geysilega víðtækt og mikið. Hefur hann á þennan hátt veitt allmikið fé til ýmissa þessara framkvæmda og orðið á þann hátt að geysilegu liði. Ég vil taka það fram nú, að ræktunarsjóðurinn varð um síðustu áramót að standa skil á vöxtum og afborgunum af 32–33 millj. kr. Það eru lán, sem tekin hafa verið handa honum, en Búnaðarbankinn verður að sjá um. Vextir af lánum ræktunarsjóðs eru 21/2%, en árleg vaxtagreiðsla af þessum lánum, sem bankinn stendur undir nú, er 1.1 millj. kr. Ræktunarsjóðurinn átti um síðustu áramót í útlánum um 54 millj. kr., og eru vaxtatekjur af því fé fyrir bankann í kringum 1.3 milljónir, þannig að þær vaxtatekjur, sem bankinn hefur með framlagi ríkissjóðs, eru í kringum 250 þús. kr. En svo verður hann að taka þátt í kostnaði við teiknistofu landbúnaðarins og aðra leiðbeiningarstarfsemi, sem nemur allt að 1/2 millj. kr., þannig að hér er auðséð, að í raun og veru er alltaf halli á rekstri ræktunarsjóðsins eins og nú er. Það verður að teljast sennilegt, að hann verði að fá árlega næstu árin 10–20 millj. kr. af nýju láni til þess að geta dælt því út, eftir því, hvað eftirspurnin er mikil nú, þannig að með þeim vöxtum, sem nú eru á fé, sem tekið er að láni, er auðséð, að þarna er um geysimikinn halla að ræða. Þetta sýnir, að það er enn meiri nauðsyn fyrir ræktunarsjóðinn að halda sínu tillagi, þó að ekki sé farið fram á meira, heldur en fyrir byggingarsjóðinn. Er ég því viss um, að allir hv. þdm. munu vera sammála um það, að sjálfsagt sé að framlengja þetta framlag nú.

Ég get haft sömu orð um það og ég hafði um byggingarsjóðinn og landnámið, að þó að hér sé aðeins um framlengingu að ræða nú á þessu gjaldi, þá mun það enn fremur koma fram vegna starfsemi ræktunarsjóðsins, að gera verður einhverjar ráðstafanir á allra næstu árum og þó helzt á þessu þingi til þess að gera ræktunarsjóðnum fært að halda uppi lánastarfsemi með þeim kjörum, sem nú eru, án þess að of mikið halli á hag bankans í sambandi við það. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu um þetta, en leyfi mér að lokum að óska eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.