03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem nú er tekið til umræðu, er í raun og veru ferðafélagi þess frv., sem var síðast til umræðu, áður en fundarhléið var tekið, og náskylt því frv. Það er stjfrv. og hefur gengið óbreytt gegnum hv. Nd. Frv. er um það, að vextir af útlánum byggingarsjóðs við Búnaðarbankann hækki úr 2%, sem þeir nú eru, upp í 31/2%. Ekki er ætlazt til þess, að lögin verki aftur fyrir sig. Þau lán, sem búið er að veita, þegar lögin ganga í gildi, verða með þeim vöxtum áfram, sem um var samið, þegar þau voru veitt. Annað væri vitanlega ekki rétt, það væru samningsrof. Að sjálfsögðu er ekki æskilegt að hækka vextina um þennan 11/2%, en nauðsyn knýr og almennir vextir, bæði inn- og útlánsvextir, hafa hækkað miklu meira en þessu nemur. Eigin fé byggingarsjóðs hrekkur ekki til útlána þeirra, sem þörfin kallar eftir í sveitum landsins til híbýlabóta. Lánsfé handa sjóðnum hefur verið tekið með 41/2–61/2% vöxtum, og búast má við hærri vöxtum á ófengnu fé. Að óbreyttum útlánsvöxtum hjá sjóðnum yrði stórfelldur halli á rekstri hans, sem hlyti að lama hann og éta af umráðafé hans. Þó að vextirnir verði hækkaðir eins og frv. gerir ráð fyrir, eru þeir lægri í hlutfalli við innlánsvexti en þeir voru, þegar þeir voru lögleiddir. Vaxtahækkunin er því breyting í áttina til samræmingar við viðskiptalífið í landinu.

Ég þykist þess fullviss, að bændur muni ekki yfirleitt telja þessa vaxtahækkun óeðlilega eftir atvikum. Hinu munu þeir leggja meira upp úr, að geta átt það tryggt að fá sæmilega há lán til íbúðarhúsabygginga og löng lán, eins og verið hafa, eða 42 ára lán til aðalbygginga íbúðarhúsa. Styttri lán hafa þó verið veitt úr þessum sjóði, ef byggt er úr öðru efni en steini. Bændur þurfa allmikið lánsfé og löng lán til þess að koma jörðum sínum í gott lag, en hins vegar geta þeir betur en áður var borgað leigu af lánsfénu, vegna þess að öll afkoma búanna er orðin tryggari.

Meiri hl. fjhn. mælir með frv., eins og nál: hans á þskj. 706 ber með sér. Hins vegar er hv.

4. þm. Reykv. (HG) á móti frv., svo sem sönnum stjórnarandstæðingi sæmir, og er ekkert sérstakt um það að segja. Nál. hans á þskj. 714 er hógvært, og það er ástæðulaust fyrir mig sem frsm. meiri hl. á tímanaumum fundi að láta það álit lengja ræðu mína.