22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

165. mál, heilsuverndarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed., fékk skjóta og góða afgreiðslu þar, og vil ég vænta þess, að svo megi einnig verða í þessari hv. d.

Þetta frv. hefur ekki í för með sér neinn aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, en er flutt með tillíti til þess, að' eins og l. eru núna um heilsuverndarstöðvar, hefur ekki tekizt að framkvæma þau. Samkvæmt núgildandi l. er gert ráð fyrir, að allir kaupstaðir reki heilsuverndarstöðvar, en aðeins 6 kaupstaðir af 13 hafa talið sér fært að gera það og ekki líklegt, að þeir kaupstaðir, sem ekki hafa enn komið heilsuverndarstöðvum á fót hjá sér, treysti sér til þess fyrst um sinn, að óbreyttum þeim kostnaðarhlutföllum, sem hvíla á bæ, sjúkrasamlagi og ríki.

Þá er einnig í núgildandi heilsuverndarlögum aðeins rætt um berklavarnir, en samkv. 2. gr. þessa frv. eru taldar upp 12 greinar, sem sjálfsagt þykir, að heilsuverndarstöðvarnar nái til. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði eins og áður 1/3 hluta eðlilegs kostnaðar af rekstrinum.

Þá er einnig gert ráð fyrir, að stöðvarnar starfi eftir reglugerð, sem hlutaðeigandi sveitarfélög semja og ráðh. staðfestir.

Ég sé ekki ástæðu til að öðru leyti að fjölyrða um þetta frv., en þótt áliðið sé þingsins, vænti ég, að hv. Nd. afgr. það á sama hátt og Ed., þar sem það hefur engan kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkið, en er eðlileg og sjálfsögð lagfæring á gildandi lögum. — Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn. deildarinnar.