02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

165. mál, heilsuverndarlög

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur að athuguðu þessu frv. lagt til, að því sé breytt nokkuð, eins og fram kemur á þskj. 684, og er í nál. gerð grein fyrir ástæðunum fyrir því. Það, sem aðallega er um að ræða, er lítils háttar formbreytingar á frv., þar sem tekin eru saman í eina grein, sem verður 3. gr., ákvæðin um það, hverju skipa skuli með reglugerð í sambandi við þessa löggjöf, og í 2. gr. verður þá aðeins upptalningin á helztu heilsuverndargreinunum, og þar er gerð sú lítils háttar breyting, að liðunum er fjölgað um einn, sem stendur í sambandi við það, að áður voru flokkaðar undir 9. lið, undir geðvernd, bæði áfengis- og deyfilyfjavarnir, en að athuguðu máli þótti réttara að hafa áfengisvarnirnar sér í lið, en ekki flokkaðar undir geðvernd, enda hafa verið starfræktar áfengisvarnir, a.m.k. í höfuðstað landsins, nú undanfarin ár sem sérstakur liður heilsuverndar eða heilsugæzlu. — 4. gr. er svo breytt þannig, eða till. til breytingar, að það sé aðeins kveðið skýrt á um það, sem meiningin var með frv., en það kemur fram í grg. þess, að það var til þess ætlazt, að þátttaka sjúkrasamlaga í kostnaði af heilsuverndarstöðvum yrði áfram eins og verið hefur í þeim heilsuverndargreinum, sem ræktar hafa verið fram að þessu, þ.e.a.s. 1/3 hluti á móti 1/3 frá bæjar- og sveitarfélögum og 1/3 frá ríkinu. Hins vegar er gert ráð fyrir því, þar sem búast má við, að heilsuverndarstarfsemin aukist mjög og það verði of kostnaðarsamt fyrir sjúkrasamlögin, að umfram þetta sé sérstaklega samið um kostnaðinn af rekstri heilsuverndarstöðva milli sjúkrasamlaga og bæjar- og sveitarfélaga, og er það óbreytt eins og áður var, og ef þessir aðilar koma sér ekki saman, er það á valdi ráðh. að kveða á um þátttöku sjúkrasamlaganna í kostnaðinum.

Það er einnig gert ráð fyrir því í greininni, að á vissum stöðum, og sérstaklega mun það sennilega verða nokkuð almennt utan Reykjavíkur, verði tæplega hægt að aðgreina sérstaklega þá fjóra þætti heilsuverndargreina, sem fram að þessu hafa verið ræktir og eru í upptalningunni undir lið 1) mæðravernd, 2) ungbarnavernd, 7) berklavarnir og 9) áfengisvarnir, og þar sem þessir liðir verði ekki sérstaklega aðgreindir eða kostnaðurinn af þeim, þá verði það samningsatriði á milli sjúkrasamlaganna og bæjar-. og sveitarstjórnanna, hvernig fara skuli um kostnaðinn.

Með þessum breytingum leggur n. til, að frv verði samþ., og held ég, að það felist ekki í því nein breyting frá því, sem ætlazt var til af ríkisstj. hálfu. Eru þessar breyt. gerðar í samráði við hæstv. heilbrmrh.