18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

94. mál, iðnskólar

Frsm. (Gunnar Thoroddeen:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um iðnskóla er flutt af hæstv. iðnmrh. Aðdragandi þess er alllangur og undirbúningur á ýmsan hátt vandaður. Mþn. sú um skólamál, sem starfaði á árunum 1945-47, samdi frv. til laga um iðnskóla, og var það flutt á þingi 1948 af menntmn. Nd. og aftur á þingi 1949, þá af iðnn. Nd. Siðan hefur málið verið til meðferðar hjá forráðamönnum iðnskólanna og iðnaðarsamtökunum. Hæstv. iðnmrh. hefur svo látið undirbúa málið fyrir þetta þing, en meðal annars var frv. rætt á iðnþingi 1954 og samþykkt þar í meginatriðum eins og það liggur hér fyrir.

Nú eru engin lög til um iðnskóla, og má vart lengur svo standa, svo mikill sem hlutur iðnaðarins er orðinn í athafnalífi þjóðarinnar. Það er talið, að það sé um þriðjungur allra landsmanna, sem lifir á iðnaði, og í Rvík er talið að séu um 40 af 100, sem hafa lífsframfæri sitt á einn eða annan hátt af iðnaði.

Undirbúningsmenntun iðnaðarmanna fyrir þeirra þýðingarmikla starf þarf að vera vönduð, og hingað til hafa iðnaðarmennirnir sjálfir og samtök þeirra haft alla forgöngu um stofnun iðnskóla. Iðnskólar hafa á undanförnum árum starfað á allmörgum stöðum, og nú ætla ég að þeir séu 15 að tölu. Langstærstur þeirra er skólinn í Rvík, þar næst iðnskólinn á Akureyri, en enn fremur eru nú starfandi iðnskólar í Hafnarfirði, á Akranesi, í Borgarnesi, á Þingeyri, Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Húsavík, í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, á Selfossi og í Keflavík. Þessir skólar hafa allir komizt á fót fyrir tilstilli iðnaðarmanna og félagsskapar þeirra. Að sjálfsögðu hefur ríkissjóður og bæjar- og sveitarsjóðir á hverjum stað veitt nokkurn fjárhagslegan stuðning, en það er vissulega tími til þess kominn að setja lög um iðnskóla almennt og m.a. að lögfesta þar atbeina og fjárhagslegan stuðning ríkisvalds og sveitarfélaga við þessar nauðsynlegu menntastofnanir.

Meginefni þessa frv. er að lögfesta ákvæði um verkefni iðnskólanna, um inntökuskilyrði, um stofnun þeirra, hvaða aðilar geti haft þar forgöngu um, um skólanefndir, um greiðslu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar, um framhaldsskóla o.fl. Einna þýðingarmest af ákvæðum þessa frv. er að sjálfsögðu ákvæðið um stofnkostnaðinn, en í 8. gr. frv. er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli greiða helming stofnkostnaðar, en bæjar-, sýslu- eða sveitarsjóðir hinn hlutann. Iðnn. hefur rætt þetta frv. ýtarlega, og m.a. hefur hún átt viðræður við núverandi og fyrrverandi skólastjóra iðnskólans í Reykjavík, formann iðnfræðsluráðs, forseta Landssambands iðnaðarmanna, og auk þess hefur málið utan funda verið rætt ýtarlega við hæstv. iðnmrh:

Niðurstaðan af þessum athugunum hefur orðið sú, að n. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breytingum: Nál. er á þskj. 365, og brtt. þær, sem n. öll stendur að, prentaðar á því þskj.

1. brtt. er við 6. gr. Það er ekki veruleg efnisbreyting, heldur er tilgangur hennar aðeins að ákveða, að alls staðar skuli vera fimm manna skólanefndir, en í frv., eins og það liggur fyrir, er þetta óbundið. Það er gert ráð fyrir því, að sveitarfélög, fleiri en eitt, geti staðið að iðnskóla; ef þau væru allmörg, þá ætti hvert um sig að tilnefna einn mann í skólanefnd, og gætu skólanefndir þannig orðið óeðlilega fjölmennar, þegar þess er gætt, að iðnaðarmannasamtökin eiga svo að tilnefna jafnmarga. Brtt. n. fer fram á, að ákveðið sé, að skólanefnd sé jafnan skipuð fimm mönnum. Bæjarstjórn, sýslunefnd eða hreppsnefnd á að kjósa tvo nefndarmenn til fjögurra ára, og iðnaðarmannafélag á skólasvæðinu á að kjósa jafnmarga og til sama tíma. Ef fleiri sveitarfélög en eitt standa að sama skóla, þá kjósa þau sameiginlega tvo skólanefndarmenn. Ef hins vegar verður ekki samkomulag, þá telur n. ekki annað úrræði en að ráðherra skeri þar úr. Eins er í 3. málsgr. þessarar brtt. ákveðið, að iðnaðarmannafélag tilnefni sína fulltrúa á sama hátt, og séu þau fleiri en eitt og komi sér ekki saman, þá skeri ráðherra úr. Fimmta nefndarmanninn og formanninn skipar svo ráðherra.

2. brtt. n. er við 7. gr. Hún er í tveim liðum. A-liðurinn snýr að því ákvæði í frv., að fámennari iðnskólar skuli vera sérstakar deildir innan gagnfræðaskóla. Ég hef við nánari athugun komizt að þeirri niðurstöðu, að það þurfi einnig að gera nokkra breytingu á 1. tölul., og vil því taka aftur til 3. umr. brtt. 2.a til nánari athugunar. — Brtt. 2.b er um að fella niður eina málsgr. í 7. gr., að hlutur ríkissjóðs í kostnaði skuli bundinn því skilyrði, að fullnægt sé ákvæðum, er gilda hverju sinni um árlegan starfstíma skóla og lágmarkstölu nemenda í deildum gagnfræðastigsskólanna. Reyndir menn í þessum fræðum hafa talið, að þetta ákvæði geti ekki staðizt, vegna þess að starfstími iðnskólanna er nokkuð annar en gagnfræðastigsskólanna, og af fleiri ástæðum telja þeir rétt að fella þessa málsgr. niður.

3. brtt. n. er aðeins orðalagsbreyting.

4. brtt. er um nýja kaflaskiptingu. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um hana.

5. brtt. er einnig aðallega orðalagsbreyting og dregin þar saman ákvæði úr fleiri greinum; dregið saman í þessa grein allt, sem fjallar um setningu reglugerðar og erindisbréfa. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar brtt. n.

Auk þess flytur meiri hl. iðnn. á þskj. 366 tvær brtt. Þessi meiri hl. er fjórir nm., en einn nm., hv. þm. V-Húnv., óskaði ekki að standa að flutningi þessara tillagna.

Fyrri till. er viðbót við 7. gr. frv., um það, að heimilt sé að láta listiðnaðardeildir Handíða- og myndlistarskólans njóta sömu réttinda um styrk úr ríkissjóði og segir í 2. málsgr. þessarar gr. Þessi tili. er tekin upp eftir ósk hæstv.

iðnmrh. til þess að skapa möguleika á því, að Handíða- og myndlistarskólinn njóti þessara sömu hlunninda, og taldi meiri hl. n. það fullkomið sanngirnismál.

Önnur brtt. meiri hl. er við 8. gr., og hún er til þess flutt, að samræmi verði um þessi ákvæði og önnur skólalög. Aðalatriðið er það í brtt. n., að niður falli síðasti málsliður: „Stofnkostnaður iðnskóla greiðist eftir því, sem fé er veitt til í fjárlögum, enda sé tryggt framlag á móti.“ Í öllum öðrum skólalögum er beinlínis ákveðið um hluta ríkissjóðs í stofnkostnaði, en hvergi settur þessi fyrirvari, að greiðslurnar fari eftír því, sem fé er veitt í fjárlögum, og taldi n. rétt að hafa sama hátt á um þetta frv. og um önnur skólalög, bæði barnaskólanna, gagnfræðaskólanna og húsmæðraskólanna.

Það er, eins og ég gat um, tími til kominn og fullkomin nauðsyn að setja löggjöf um iðnskólana í landinu og m.a. að kveða þar skýrt á um þann stuðning, sem ríki og bæjar- og sveitarfélög skuli veita þessum menningarstofnunum. Iðnaðurinn er og hefur verið um margra ára skeið í örum vexti hér, og bættur aðbúnaður og aukin þróun iðnaðarins er eitt af meginskilyrðunum til þess, að Íslendingar geti eflt efnahag sinn, bætt lífskjör sín og staðið undir hinni stórfelldu óg margvíslegu menningar- og mannúðarbyggingu þessarar þjóðar.

Ég vænti þess, að hv. þdm. fallist á brtt. n. og afgreiði frv. þannig breytt áfram.