14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm., sem talaði hér áðan, minntist á það, að ég hefði verið eitthvað hvassyrtur hér, þegar rætt var um þær brtt., sem hann flutti ásamt öðrum hv. þingmönnum á þskj. 415. Það getur vel verið, að það hafi eitthvað hitnað í mér, þegar þær till. komu fram eða þegar þeim var lýst, án þess að þær væru prentaðar; vegna þess að ég gerði jafnvel ráð fyrir, að þær gætu orðið til þess, að frv. dagaði uppi, og það hefði mér þótt mikill skaði.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um iðnskóla, er að áliti allra — eða var, þegar það var flutt í haust — til mikilla bóta. Óg það var einnig álit þessa hv. þm. Tillögurnar á þskj. 415 eru að mörgu leyti ágætar till., ef þær væru tímabærar og ef þær væru framkvæmanlegar. En eins og komið hefur í ljós við nánari athugun málsins; þá er ekki hægt, eins og nú standa sakir, áð framkvæma till., vegna þess að til þess skortir fé og til þess skortir húsnæði og aðra aðstöðu. Það gleður mig þess vegna, að hv. frsm. og hv. þm. V-Húnv. hafa fallizt á að draga till. á þskj. 415 til baka og samþykkja í þess stað till., flutta af iðnn., sem er samin eftir að upplýsingar hafa fengizt frá samtökum iðnaðarmanna, frá skólastjóra iðnskólans og frá skólanefnd iðnskólans í Reykjavík um þetta mál.

Það kom í ljós, þegar farið var að athuga málið, að þótt till. á þskj. 415 væru ágætar till. út af fyrir sig og verði e.t.v. lögfestar í svipuðu formi, áður en langur tími liður, þá eru þær ekki tímabærar í dag í því formi, sem þær eru. Þetta þarf að þróast smátt og smátt til þess að verða raunhæft. Það þarf meira fé til iðnskólahaldsins, ef þær verða lögfestar, mun meira, og það þarf meira húsnæði, óg slíkt tekur alltaf mikinn tíma. Eins og till. á þskj. 445 er, sem kemur í stað till. á þskj. 415, þá er gert ráð fyrir, að iðnskólar verði dagskólar, þar sem því verður við komið. Þar, sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera nauðsynlegt annað fyrirkomulag, verður það fyrirkomulag, sem áður hefur gilt. Hins vegar, eftir að þessi till. á þskj: 445 er komin inn í lögin, er vitanlega hægt að færa þetta út með reglugerð, eftír því sem efni standa til hverju sinni, og það er rétt, sem hv. 7. landsk. sagði hér áðan: það er hægara að breyta reglugerð en lögum. Ég tel því, að till. á þskj. 445 eigi fullan rétt á sér og að hún sé til bóta, að svo miklu leyti sem hægt verður að framkvæma hana. Þar er komin heimild, sem hægt verður að nota, að svo miklu leyti sem möguleikar leyfa. Það er með þetta mál eins og annað, að það verður allt að taka sinn tíma og vera sniðið eftir því, sem efni og kringumstæður leyfa hverju sinni.

Ég endurtek það, að ekki er ólíklegt, að framtíðin verði sú, að kennslan fari fram að meira leyti að degi til en verið hefur og kannske að mestu leyti að degi til, og það er auðvitað rétt að mörgu leyti, sem sagt hefur verið hér, að iðnsveinar, þegar þeir hafa unnið allan daginn erfiðisvinnu, eru ekki vel til þess fallnir að fara að stunda bóklegt nám og sitja í skóla að kvöldinu. Það er vitanlega erfitt nám, á meðan því er þannig hagað. Það er nauðsynlegt, að iðnskólarnir verði þannig reknir og að kennslan geti farið þannig fram, að við eignumst sem lærðasta og hæfasta iðnaðarmenn, og ég tel, að þróunin hér á Íslandi hafi verið sú, að þetta standi allt til bóta. Okkar iðnaður er enn ungur, okkar iðnmenntun er enn á frumstigi, og ég held, áð við getum verið sammála um, að það frv., sem hér liggur fyrir um iðnskóla, sé stórt spor í þá átt að gera iðnaðarkennsluna í landinu fullkomnari og betri en hún hefur áður verið. Við getum viðurkennt þetta, um leið og við gerum okkur ljóst, að það ber að stefna hærra í framtíðinni og gera þetta betur úr garði í framtíðinni, eftir því sem efni standa til og hin heilbrigða þróun leyfir.