14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

94. mál, iðnskólar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. virðist hafa glatað ýmsu fleiru í sambandi við flutning þessara till. heldur en okkur tveimur meðflm. sínum, þó að kannske hafi það nú ekki allt samán farið til íhaldsins, eins og hann vildi þó gefa í skyn hér áðan. Mér er einnig óljóst, við hvað hann á með að tala um að mismuna öðrum í skoðunum, að menn séu að gera upp á milli manna um skoðanir. Slíkar samlíkingar hef ég ekki heyrt fyrr, en þessar röksemdir voru nú hans höfuðuppistaða, hann margendurtók þetta í sinni ræðu áðan og allur hans málflutningur var eftir því. Ég skil þess vegna ekki, hvers vegna hann í upphafi hefur orðið meðflm. að þessum till. okkar, eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hans hér, því að ef slíkur málflutningur er iðnnemum eða iðnaðarmálunum og iðnfræðslumálunum til stuðnings, þá hef ég alveg misskilið hlutverk mitt hér sem iðnaðarmaður og misskilið mína reynslu á undanförnum árum. Ég verð að segja það, að eftir þau tólf ár, sem ég hef átt samleið með iðnaðarmönnum, verið sjálfur iðnnemi og umgengizt slíka menn, þá held ég, að ég geti talað dálítið djarfara úr mínu sæti, rétt eins og ég veit, að hv. 8. landsk. þm. mundi geta gert í viðskiptamálum t.d., sem hafa verið hans aðalstarf undanfarin ár, en í iðnaðarmálum hefur hann lítið að kenna mér.

Ég lýsti því í minni framsöguræðu fyrir brtt. upphaflega, hve miklum erfiðleikum væri bundið að stunda bóklega námið að lokinni 8–9 stunda erfiðisvinnu. Þetta skýrði ég eins og ég hafði vit og getu til og endurtók aftur í minni ræðu núna, þannig að sú skýring hefur ekkert breytzt frá því að ég flutti mína framsöguræðu til ræðunnar nú. Og svo óheppinn var nú hv. 8. landsk. að vitna einmitt til þessa atriðis, að ég hef lagt frá upphafi þess, að þessar brtt. komu fram, meginþungann á það, að bóklega kennslan færi fram að deginum til, og stend nákvæmlega við það enn. Það, sem hefur skeð, er, að ég og hv. þm. V-Húnv. höfum fallizt á rök fyrir því, að það sé ótímabært að setja strangari ákvæði í lögin, meðan ekki eru möguleikar á að framkvæma það, sér í lagi utan Reykjavíkur.

Iðnnemunum í Reykjavík og annars staðar á Íslandi er gagnslaust að fá pappírsplagg í hendurnar, ef það eru engir möguleikar til framkvæmda. Þeir njóta bóklega námsins sízt betur eftir að hafa fengið skrifuð einhver lög héðan frá Alþingi, ef það eru engir möguleikar til að framkvæma þau. Möguleikarnir til að framkvæma lögin um iðnskóla eru fyrst og fremst fjármunirnir, sem ekki eru fyrir hendi, og í öðru lagi, að víðast hvar úti um land mun erfitt að koma upp vinnustofum við skólana, en ég skal nú til skýringar upplýsa, að það er mjög mikið deiluefni meðal iðnaðarmanna, hvort á að koma þeim upp. Það er mjög mikið deiluefni meðal allra þeirra manna, sem fjalla um iðnaðarmál eða koma nálægt samtökum iðnaðarmanna í dag, hvort það beri bókstaflega að stefna inn á þær brautir að láta skólana annast iðnfræðsluna, vegna þess að nemandinn mundi að meira eða minna leyti glata hinu raunverulega sambandi við lífrænu vinnuna, sem hann yrði að hafa fullkomna þekkingu á, eftir að hann hefði lokið sínu sveinsprófi og eftir að hann ætti að geta krafizt fullra launa sem iðnaðarmaður. Um þetta er mjög mikið deilt, og meðan þessi mál eru að þróast, þá viðurkennum við tveir fyrri flm. þessara brtt., að það sé ótímabært að koma með lagaplagg í hendurnar, sem svo ef til vill reynist einskis eða lítils virði.

Þetta eru röksemdirnar, og það er þess vegna alveg óþarfi fyrir hv. 8. landsk. að vera með neinn þinglegan sóðaskap í málflutningi sínum í sambandi við þetta mál.

Ég ítreka það, sem ég sagði áður, að rökin fyrir því, að við höfum fallið frá okkar brtt., eru þau, að fjármunirnir til þess að koma þessum hlutum í lagalegt form eru ekki fyrir hendi og ekki er vitað, að hve miklu leyti iðnnemarnir og iðnaðarmannasamtökin í landinu óska eftir því, að iðnfræðslan flytjist í skólastofurnar úr höndum vinnustaðanna og lærimeistaranna eins og er í dag.

Þetta tel ég vera nægjanlegar röksemdir og hirði ekki frekar um að endurtaka þær fyrrí röksemdir, sem ég hef flutt fyrir till. Við teljum, eins og ég held nú að hv. 8. landsk. geti einnig fallizt á, að frv. sé í heild nokkurt spor í rétta átt og enn eitt sporið því til viðbótar hafi verið stigið með tillögu iðnn. á þskj. 445, þ.e. til móts við fyrri brtt. okkar eða þann hluta þeirra, sem ég hef frá upphafi lagt mesta áherzlu á. Þess vegna höfum við hv. þm. V-Húnv. fallizt á að draga okkar brtt. eða meðflutning okkar að fyrri brtt. á þskj. 415 til baka.