14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

94. mál, iðnskólar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Þið hafið nú heyrt fulltrúa háskólamannanna fella sinn dóm yfir okkur, sem höfum ekki haft aðstöðu til þess í lífinu að fara á háskóla, um lærdóm okkar og menntun. En ég vona, að hann standi einn uppi af hálfu þeirra manna, sem þó hafa átt þess kost í lífinu að fara á háskóla, með þetta álit sitt, því að það er óþarft að vitna hér til umræðna, sem hann hefur átt fullt í fangi með að eiga við menn, sem tæplega hafa haft aðstöðu til að ganga í barnaskóla, hvað þá háskólana, að ekki sé nú minnzt á kvöldskólakennslu iðnskólanna.

Svo mikil er fákunnátta þessa manns í þessum málum, að hann heldur því hiklaust hér fram, að það sem ég segi í þessum hlutum sé álit Múrarafélagsins. Hann hefur m.ö.o. alls ekki fylgzt með þessum umræðum frá fyrstu tíð, veit ekkert um, hvað ég hef sagt, þrátt fyrir það að hann hafi verið að lesa upp úr fyrri ræðum mínum um þessi mál. Honum er ókunnugt um það, að ég hef verið í stjórn iðnnemasamtakanna, honum er ókunnugt um það, að ég er í stjórn iðnsveinaráðs og hef ekki komið nálægt meistarasamtökum á nokkurn hátt, enda er ekki um slíkra aðila álit hér að ræða. Það er um það að ræða, hvort koma á þessu máli áleiðis með sporum í rétta átt. Ég flyt venjulega till. mínar og frv. á hv. Alþingi með það fyrir augum, að þau komist fram, en ekki til þess að vera endilega á móti einhverjum aðilum, sem ég kynni að vera í pólitískum stórdeilumálum andvigur. Þetta er mismunurinn á mér og hv. 8. landsk. Og þegar ég sé, að það eru ekki líkur á að koma máli fram til fulls, þá er ég til með að fallast á, að það fari áleiðis fram á við.

Svo kórónar þessi hv. þm. allan sinn fyrri málflutning með þeirri reginfirru að halda því fram, að í lögum um iðnskóla felist eitthvað um kaup og kjör iðnnema. Honum er ókunnugt um það, að sú samninganefnd, sem nú situr á rökstólum fyrir verkalýðsfélögin í Reykjavík, er með samningsumboð frá Iðnnemasambandi Íslands og fjallar um kaup þeirra og kjör, enda er hvergi í þessu frv. minnzt á nokkurn hlut, sem heitir kaup eða kjör iðnnema í þessum fjögurra ára námssamningum.

Ég tel að öðru leyti óþarft að svara ræðunni, en ég vil endurtaka það, að ég vona, að hv. 8.

landsk. sé ekki fulltrúi þeirra hv. alþm., sem öðlazt hafa háskólaborgarabréf, því að það er slæmt vottorð.