28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

94. mál, iðnskólar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú talað hér tvisvar í þessu máli og skal því mjög stytta mál mitt, en það er einkum vegna þeirrar brtt., sem meiri hl. ber hér fram á þskj. 664, að ég vil aðeins segja hér nokkur orð.

Þegar umr. um þetta mál var frestað síðast, þá var það m.a. gert til þess að athuga, hvort ekki væri hægt að komast að einhverju samkomulagi milli meiri hl. iðnn. og annarra, sem hafa ekki getað fellt sig við að samþykkja þær till., sem koma fram frá n. á þskj. 609. Út af þessu hef ég rætt um þetta mál nokkuð við hæstv. iðnmrh. Það hefur ekki tekizt að sameina að fullu hans skoðun á málinu og skoðun meiri hl. nefndarinnar, en þó vill n. gera till., sem miða nokkuð í áttina til samkomulags, eins og ég mun nú skýra frá.

Það er einkum tvennt, sem hefur verið. deilt um hér í sambandi víð þetta mál. Annað er, að það sé ekki rétt að íþyngja svo skólunum um nemendur, að hætta sé á því, að þeir menn, sem hafa námssamninga, geti ekki fengið aðgang að skólunum; það séu engin takmörk sett í till. meiri hl. n. í sambandi við þetta atriði. Það gæti farið svo, ef skólinn væri opinn öllum, sem þar vilja nema, eins og sagt er í 1. gr. í till., að þá gætu þeir menn, sem hafa námssamninga, orðið að þoka í burtu frá kennslu. Til þess að fyrirbyggja þetta leggur meiri hlutinn til, að teknar séu upp nokkrar breytingar á frv., sem eru fólgnar í því að leyfa 4. gr. frv., eins og hún er í frv. á þskj. 460, að standa með örlítilli breytingu, og er þá 1. till. hér, að aftan við 4. gr. í frv. bætist, með leyfi hæstv. forseta: „og skulu þeir hafa forgangsrétt um inntöku í skólann, ef hann getur ekki veitt öllum þeim nemendum viðtöku, sem sækja þar um fræðslu.“

Mundi þá gr. koma til þess að hljóða þannig: „Skylt er að taka við öllum iðnnemum úr umdæmi skólans, ef þeir hafa löglega námssamninga og fullnægja að öðru leyti settum skilyrðum, og skulu þeir hafa forgangsrétt um inngöngu í skólann, ef hann getur ekki veitt öllum þeim nemendum viðtöku, sem sækja þar um fræðslu.“

Þá er þessum mönnum tryggður forgangsréttur að skólanum, og það telur meiri hl. mjög eðlilegt, m.a. með tilvísun til þess þáttar, sem þessi stétt hefur átt í því að byggja upp iðnaðinn í landinu.

Þá er og eðlilegt, að aðrir málsliðir í gr., eins og hún er núna, standi, vegna þess að þeir eru um það, að iðnmeistarar og iðnfyrirtæki skuli tilkynna hlutaðeigandi skólum, þegar samningar hafa verið gerðir, og einnig, þegar þeir falla úr gildi. Ætti þá greinin að standa öll, ef frv. yrði samþ., og þá mundi að sjálfsögðu meiri hluti n. taka aftur 4. till. í sínum brtt. um það, að 4. gr. falli niður. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða það atriði nánar.

Þá hefur hæstv. ráðh. einnig lagt mjög mikla áherzlu á, að það væri ekki hægt að fullnægja því, sem hugsað er að gera í sambandi við 1. gr., ef brtt. meiri hl. yrðu samþ., vegna þess, hvað það mundi kosta mikið fé. Út af því vill meiri hl. n. leggja til, að á eftir 17. gr. laganna komi bráðabirgðaákvæði, svo hljóðandi:

„Bókleg og verkleg fræðsla samkv. fyrirmælum þessara l. er háð þeim fjárframlögum, sem lögð eru til iðnfræðslunnar á hverjum tíma.“

Þá er sýnilegt, að Alþ. annars vegar og sveitarsjóðirnir eða bæjarsjóðirnir hins vegar ásamt þeim aðilum, sem greiða gjöld til skólanna, ráða hraða framkvæmdanna í framtíðinni. Það kann vel að vera, að einhver aðili, t.d. einhver af hinum nýju aðilum í sambandi við iðnrekendur, vildi leggja eitthvað af mörkum til þess að geta tekið upp sérstaka deild, ef húsrúm leyfir, og þá ætti ekki undir neinum kringumstæðum að útiloka, að það yrði gert. Með því að samþ. þessa brtt., sem ég hef lýst, tel ég, að gengið sé ákaflega mikið á móti óskum þeirra manna, sem vilja ekki samþ. till. óbreyttar, og að þá sé málið komið í fullkomlega öruggt form um það, að skólinn geti starfað fyrst og fremst fyrir iðnaðarmennina og jafnframt fyrir aðra aðila eins og til er ætlazt. Þetta vildi ég láta koma fram hér í sambandi við brtt.

Hæstv. ráðh. hefur látið orð um það falla hér, að ef þessar brtt. yrðu samþ., fyrst hér í þessari d. og þá ef til vill síðar í hv. Nd., þá mundi hann draga frv. til baka, — mér skildist, að það væri hans hugsun, — vegna þess að iðnaðarmannastéttirnar væru svo óánægðar með frv., að hann treysti sér ekki til að láta gera það að lögum. Í sambandi við það vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh.: Hvað hugsar hann sér þá í sambandi við rekstur skólans? Eins og nú standa sakir, eru engin lög um skólann. Hann var áður í höndum iðnaðarmanna, sem báru kostnaðinn af rekstri hans, nema hvað þeir fengu styrk til þess frá ríki og bæ. Nú er hugsað. að skólanum sé algerlega komið yfir á ríkið og sveitarsjóðina, — og hvernig hugsar hann sér þá, að skólinn verði rekinn, á hvers ábyrgð og fyrir hvaða fé, ef ekki verður nein löggjöf sett um skólann? Ég teldi það vera mjög illa farið, ef svo skyldi fara, og hef þess vegna lýst því yfir, að ég mundi fylgja frv., jafnvel þótt engar breytingar yrðu gerðar á því. Vildi ég gjarnan, að hæstv. ráðh. vildi athuga það, hvort ekki væri mjög misráðið að draga málið til baka úr því formi, sem meiri hluti Alþ., hvernig sem það verður, óskar að hafa það, bara fyrir það, að einhver ákveðin stétt, sem þó lætur ekkert fé til skólans, vill hafa það einhvern veginn öðruvísi.

Að síðustu vildi ég leyfa mér, einnig út af ummælum, sem féllu hjá hæstv. ráðh., að það væri allt annað atriði iðnaðurinn í landinu eða verksmiðjuiðnaðurinn, þetta væru tvö óskyld atriði, sem ég hef hins vegar haldið fram að væru mjög fléttuð saman, að benda hæstv. ráðh. á hans eigin ummæli í sambandi við þetta atriði á öðrum stað. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta, í kveðju til iðnrekenda á árshátíð þeirra:

„Iðnaðurinn skipar veglegt sæti í íslenzku þjóðlífi. Þótt þannig hafi skipazt, eru verkefni óleyst og miklir möguleikar ónotaðir. Forustumenn íslenzks iðnaðar hafa sýnt stórhug, karlmennsku og víðsýni í athöfnum. Um leið og rétt er að gleðjast yfir og þakka unna sigra, vil ég óska þess, að stórhugur og hugsjónaeldur frumherjans Skúla Magnússonar megi verma og lýsa, auka þrek og vísa veginn þeim, sem vinna að eflingu iðnaðarins og fjölbreytni í atvinnulífi.“

Ég tek mjög undir þessi ágætu orð og þessa ágætu kveðju hæstv. ráðh., og ég vil benda honum á, að þetta er sent til þeirrar stéttar í landinu, sem hann vill ekki leyfa aðgang að þessum skóla. Ég tel einmitt, að hann hafi mælt hér mjög viturlega, eins og var að vænta af hans hálfu.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á að síðustu, að mér skilst, að nú séu hér á vegum Iðnaðarmálastofnunarinnar fulltrúar frá alþjóðaiðnaðarmálastofnuninni til þess að gera till. um stórkostlegar endurbætur í húsagerð, og einnig það er fléttað inn í verksmiðjuiðnaðinn engu síður en í verksvið iðnaðarmannastéttarinnar sjálfrar. Og það er sannarlega mikilsvert atriði, ef orðið gætu einhverjar endurbætur á þeim málum.

Ég mun svo ekki taka hér til máls undir þessum umr. meira, nema alveg sérstaklega gefist tilefni til, en vildi óska gjarnan, að hægt væri að ljúka þessu hér í dag, svo að sjá mætti, hvernig frv. kemur til að líta út eftir 2. umr. Mætti þá taka til athugunar þær breytingar, sem nauðsynlegar kynnu að verða, ef nokkrar breytingar verða gerðar við þessa umræðu.