28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

94. mál, iðnskólar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir, hvað það er, sem gerir það að verkum, að ég vil fá frv. samþ. í líku formi og okkar brtt. segja til um. Þetta þarf ég reyndar ekki að gera fyrir þá menn, sem hér hafa verið áður í d., t.d. þegar iðnlögin voru rædd, þá kom þetta mjög greinilega fram.

Ég lít þannig á iðnaðarnámið eins og allt annað nám, að mennirnir, sem það stunda, séu misjafnir, og eins og maður fær í öðrum skólum að vera færður upp og stunda sitt skólanám á skemmri tíma en tilskilinn er fyrir meðalmanninn, eins eigi það að vera í iðnaðinum; eins og Leifur Ásgeirsson gat orðið prófessor án þess nokkurn tíma að sitja vetrarpart í menntaskólanum og ekki nema litinn part í háskólanum, en stundað sitt nám þar fyrir utan, eins eigi þeir menn, sem hafa þann dugnað og eru af guði þannig gerðir, að þeir geta tekið sitt iðnaðarnám á skömmum tíma, ekki að þurfa að vera fjögur ár að læra að raka mann eða svipaða iðn, heldur geti þeir fengið að ganga undir próf í sinni námsgrein, þegar þeir eru búnir að afla sér þeirrar menntunar, hvort sem það er hjá meisturum í iðninni, sem oft nota þá til ýmislegs annars þau fjögur ár en alltaf að vera að halda ræður yfir þeim um það, hvernig þeir eigi að rækja sitt starf, til þess að bezt sé, þó að þeir sjálfsagt geri það eitthvað, og þess vegna vil ég fá það fram, að þeir menn, sem afla sér þeirrar þekkingar, sem þarf til að stunda sina iðn, á hvern hátt sem þeir gera það, megi ganga undir próf og fá sín réttindi eins og aðrir menn, standist þeir það.

Þessari skoðun hélt ég fram, þegar iðnlögin voru hér seinast til umr., ásamt fleirum, og þá þótti alveg sjálfsagt og það m.a. af bæði kommúnistum og jafnaðarmönnum, að lofa meisturunum að arðræna nemendurna sem lengst; þeir hafa fylgt því og gera það kannske enn. Ég er ekki með því, hvorki á þessu sviði né öðru, og þess vegna vil ég hafa þetta svo frjálslegt, að þeir menn, sem telja sig vera orðna færa um það að taka sitt próf og fá sín réttindi, megi gera það, hvernig svo sem þeir hafi aflað sér sinnar menntunar. Þetta er aðalatriðið fyrir mér, og breytingarnar, sem lagt er til af meiri hl. n. að gerðar séu, ganga allar í þessa átt, og þær ganga það lengra, að þær ætlast til þess, að í skólunum, þegar frá liði, sé komið upp verklegri kennslu, svo að þeir geti þar fengið það, sem þá kann að vanta og vilja fá og geta ekki fengið annars staðar. Mér er ljóst, að til þessa þarf verkstæði og fé, og þess vegna höfum við komið með þá brtt. til samkomulags, þar sem okkur skildist, að ráðh. hefði talið það einn höfuðannmarkann, að ekki væri hægt að framfylgja þessu nú þegar, af því að fé væri ekki veitt til þess á fjárl., að ákvæðið komi ekki til framkvæmda fyrr en fé væri veitt til þess í fjárlögum. Þá er búið að slá stefnunni fastri og að hverju beri að stefna, eins og oft er gert hér í mörgum málum á Alþ., framkvæmdin bíður svo þess, að fjárhagurinn leyfi, að það sé gert. Það er þá Alþingis seinna meir að dæma um, hvenær það er þannig komið, að þeir telja rétt að framkvæma þetta atriði. Þetta gerir það að verkum, að ég tel, að þessar breytingar séu sjálfsagðar, og ég held nú, að þeir menn, sem alltaf stöðugt hafa í munni sér arðrán á verkamönnunum frá höndum þeirra, sem atvinnu veita, geti ekki verið þekktir fyrir annað en afnema það arðrán, sem a.m.k. góðir iðnnemar, sem á tiltölulega skömmum tíma eru orðnir fullfærir í sinni grein, eru beittir með því að hafa þá í fjögur ár á broti úr kaupi sæmilegra manna.