03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

94. mál, iðnskólar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér á dagskrá á síðasta fundi, þá var því veitt eftirtekt, eftir að þskj. 686 hafði verið útbýtt, að niður hefði fallið ein málsgr. úr 6. gr. frv. eins og það kom upphaflega frá Nd. á þskj. 460. Ástæðan fyrir því var sú, að þessi málsgr. var tekin af meiri hluta iðnn. upp í fyrstu till., en sú brtt. var felld, og þar með var þessi grein einnig felld niður úr frv. í því formi sameiginlega með hinum öðrum till.

Nú má segja, að það sé vafasamt, hvort það sé hægt að bera upp þessa brtt. aftur hér í d., vegna þess að hún hefur raunverulega verið felld, og kemur þá þessi till. til úrskurðar hæstv. forseta, en hún hafði að sjálfsögðu verið felld í sambandi við önnur ákvæði. Ég læt þetta á vald hæstv. forseta, hvort hann vill vísa till. frá, en iðnn. þykir rétt að bera fram þessa brtt., til þess að það ákvæði standi enn í frv., sem var í því upphaflega og ætlazt var til að stæði í frv. áfram, að iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skuli vera dagskólar, þó megi nokkuð af kennslunni fara fram á kvöldin, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar geri það nauðsynlegt.

N. hefur því orðið sammála um að bera fram þessa brtt. við 6. gr., en eins og kunnugt er, þá var 6. gr. orðuð um samkv. till. meiri hl. nefndarinnar og samþ. þannig, án þess að þetta ákvæði stæði í henni, sem hafði að till. n. verið flutt yfir í aðra grein.

Ég legg það því í úrskurð hæstv. forseta, hvort hann treysti sér að bera upp þessa brtt., eftir að ég hef skýrt málið. Vísi hann till. frá, verður sjálfsagt að gera tilraun til þess í Nd. að fá ákvæðið sett inn þar og því þá síðar vísað til þessarar hv. deildar.