29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég gat ekki stutt framgang þessa máls, þegar það var til umr. í hv. fjhn., og hef gefið út sérstakt nál., þar sem ég legg til, að frv. verði fellt.

Ég tók það fram við meðferð málsins í n., að í sjálfu sér væri hækkun á hinum mjög svo lágu vöxtum, sem ræktunarsjóður hefði lánað við undanfarið, engin frágangssök, ef þessi vaxtahækkun væri liður í almennri viðleitni hæstv. ríkisstj. til þess að bæta hag ræktunarsjóðsins og gera honum kleifara en ella að gegna því hlutverki sínu að stuðla að aukinni ræktun í sveitum landsins.

Það má auðvitað um það deila, hversu æskilegt sé að haga stuðningi við landbúnaðinn að mjög verulegu leyti á þann hátt að veita honum lán við vöxtum, sem eru miklu lægri en almennir markaðsvextir. Það má með nokkrum rökum halda því fram, að aðrar leiðir væru fullt eins vel til þess fallnar að efla landbúnaðinn og stuðla að ræktun í sveitum og sú að veita honum lán með vöxtum, sem séu langt undir markaðsvöxtum. En meðan engar slíkar ráðstafanir eru gerðar, meðan ekki bólar af hálfu hæstv. ríkisstj. á neinni viðleitni í þá átt, hvorki að gera aðrar almennar ráðstafanir til þess að efla ræktunina í sveitum landsins né heldur að auka lánsfé sjóðsins, þá sé ég, að þessi ráðstöfun ein út af fyrir sig að hækka vextina getur ekki verið til góðs. Legg ég því gegn henni.

Þess má og geta, að liggi sú hugsun að baki þessu frv., að það sé varhugavert að fylgja þeirri stefnu að ívilna landbúnaðinum með vöxtum, sem séu langt undir markaðsvöxtum, þá er auðvitað ekki horfið frá þessari stefnu með þessu frv., því að 4% vextir eru enn langt undir almennum markaðsvöxtum. Hér er því haldið áfram þeirri grundvallarstefnu að styrkja landbúnaðinn með lánveitingum, sem af séu greiddir vextir, sem eru lægri en þeir annars ganga og gerast í landinu, en landbúnaðinum í raun og veru aðeins gert erfiðara fyrir en áður var með því, að þessir vextir eru hækkaðir nokkuð, án þess þó að vera færðir upp í almenna markaðsvexti. Hér er því í raun og veru ekki um framkvæmd á neinu stefnumáll að ræða. Hér er ekki um að ræða neina allsherjar stefnubreytingu í málefnum landbúnaðarins, að því er snertir stuðning hins opinbera við ræktun, heldur einvörðungu um ráðstöfun að ræða, sem auðvitað mun í framtíðinni gera ræktun torveldari en ella, að öllu öðru óbreyttu, án þess þó að tekin sé upp sú regla, sem mér skilst þó vera grundvallarregla hæstv. ríkisstj. á ýmsum öðrum sviðum, að lögmál markaðsins skuli fá að ráða, og skilyrði til þess að standa undir markaðsvöxtum ættu þá væntanlega að segja til um það, í hvaða framkvæmdir í landbúnaðinum skyldi ráðizt.

Það, sem hér er um að ræða, er því í raun og veru hvorki fugl né fiskur. Það er ekki brotið blað í þessum efnum, ekki tekin upp sú stefna að láta framkvæmdirnar standa undir markaðsvöxtum, en styðja þær með öðrum hætti. Það er horfið frá þeirri stefnu að styðja framkvæmdirnar mjög ríflega með því að hafa markaðsvexti sérlega lága, og niðurstaðan er eins konar millibilsástand. Það eru greiddir einhvers konar meðalvextir, sem eru nokkur stuðningur, en þó ekki eins mikill og sá, sem þessi starfsgrein hefur áður notið.

Ég sé því ekki annað en að þessi ráðstöfun, sem er í samræmi við aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í vaxtamálum samkv. öðrum frv., sé spor aftur á bak, meðan ekki er samhliða gripið til annarra ráðstafana, sem bæta þessum atvinnuvegi upp það tjón, sem hann hlýtur að hafa af því að þurfa í framtíðinni að standa undir 11/2% hærri vöxtum en hann hefur þurft mörg undanfarin ár.

Með tilliti til þessara raka mun ég greiða atkv. gegn frv.