29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Í tilefni af síðustu ummælum hv. þm. A-Húnv. (JPálm) þykir mér sýnilegt, að stuðningur hans við þetta frv., sem hér er til umr., byggist á algerlega fölskum forsendum, þar sem hann sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann væri þessu frv. fylgjandi í trausti þess, að fé ræktunarsjóðs yrði aukið nú á þessu ári og að hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir því. En það er alveg sýnilegt, a.m.k. nú í dag, að svo mun ekki verða, því að engar till. hafa enn þá heyrzt um það atriði hér.

Ég hef áður bent á leið til að koma í veg fyrir þá vaxtahækkun, sem hér er farið fram á og þessum sjóði og tveim öðrum er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir vaxtatöp. Ég ræddi þá nokkuð nauðsyn þess að halda þessum vöxtum lágum og reyna að grípa til einhverra annarra úrræða til að bæta vaxtatöp sjóðanna.

Síðar fluttum við hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) till. hér við annað mál, þó nokkuð skylt, sem hefði haft í för með sér, ef hún hefði verið samþykkt, að vaxtatöp þessara sjóða var hægt að bæta án þess að gripa til vaxtahækkunar. Þó að það sé alveg rétt hjá hv. þm., sem um þessi mál hafa talað hér, að sú till. eða aðrar slíkar mundu ekki hafa í för með sér í sjálfu sér, að þessir sjóðir ykjust að neinu leyti, þá er nákvæmlega það sama að segja um till. um vaxtahækkunina. Till. um að hækka útlánsvexti sjóðanna er ekki till. um það frekar en okkar till. að auka fjármagn sjóðanna. Munurinn á þessum tveimur leiðum er aðeins sá, að önnur leiðin gerir ráð fyrir að leggja nýjar og allverulega þungar byrðar á bændur og verkamenn; hin leiðin var að losa bændur og verkamenn við þessar auknu byrðar, en láta þær koma niður á herðum, sem betur gátu borið þær uppi.

Hv. 1. landsk. þm. (GÞG) talaði um það hér áðan og taldi vafasamt, að það væri heppilegt að veita bændum lán með vöxtum, sem væru langt undir markaðsvöxtum. Þessi ummæli eru frá ákveðnu sjónarmiði í sjálfu sér réttlætanleg. En ef tekið er tillit til allra aðstæðna, sem nú eru fyrir hendi, þá er þetta sjónarmið ekki rétt. Við skulum fyrst líta á það, að hér er um að ræða lán til framleiðslu. Lán þau, sem bændur fá úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði og verkamenn úr byggingarsjóði verkamanna, eru annað tveggja til að auka framleiðslutækin og bæta framleiðsluskilyrðin eða hins vegar til að byggja upp yfir bæði þá, sem nú lifa, og eins yfir komandi kynslóðir í landinu.

Í fyrsta lagi er mjög eðlilegt, að þeim, sem að þessum störfum vinna, sé gert það eins auðvelt og nokkur kostur er á.

Í öðru lagi væri eðlilegt og sjálfsagt, að því er snertir þann hluta lána, sem fer til framleiðslu, að vextir af þeim lánum, sem bændur taka til að auka sína framleiðslu, fengjust reiknaðir inn í framleiðsluverð vörunnar. Ef það væri, þá mætti segja, að það væri óeðlilegt, að vextir af lánum bænda væru langt undir markaðsvöxtum. Við vitum það, að t.d. verzlanir hér á landi fá að reikna vexti af lánum, sem þær taka til sinna þarfa, inn í vöruverðið. Þess vegna mætti e.t.v. segja, að það væri óeðlilegt, að þessir vextir væru lægri en aðrir vextir. En með bændur gildir nokkuð öðru máli í þessu efni. Þeir fá ekki að reikna alla vexti af lánum, sem þeir taka til þess að byggja upp í sveitunum og rækta þær og bæta og auka skilyrði til sinnar framleiðslu, inn í framleiðsluverðið, heldur verða þeir að borga verulegan hluta af þessum vöxtum af sínum persónulegu tekjum. En þeirra persónulegu tekjur eru, eins og hv. þm. vita, í framkvæmd reiknaðar kaup Dagsbrúnarverkamanns í Reykjavík. Ég býst við því, að verkalýðsstéttirnar yrðu ekki hrifnar af því, ef þeim væri gert að skyldu að leggja sér til tæki, vélar og áhöld til sinnar vinnu, eiga þau sjálf, en fá ekki neina borgun fyrir fjármagn það, sem hefði farið til að kaupa þessi tæki, og alls ekki, ef þær hefðu tekið lán til þess að kaupa áhöldin. Að þessu leyti og af þessum sökum er þess vegna vaxtahækkun sú, sem hér er farið fram á, mjög ranglát og kemur mjög illa og óeðlilega niður. Í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða er reiknað með fastri upphæð sem vöxtum. Ég man ekki nákvæmlega, hver hún er, en minnir, að hún sé um 900 kr. á ári. Hitt veit ég, að upphæðin, sem reiknað er með, er langt fyrir neðan það, sem bændur raunverulega borga í vexti, og það hefur verið eitt af aðaláhugamálum bænda í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða á undanförnum árum að fá þessa upphæð hækkaða mjög verulega eða til einhvers samræmis við það, sem bændur raunverulega borguðu í vexti. Það hafa þeir ekki fengið, vegna þess að þeir eru ekki einráðir um að verðleggja sína vinnu, sem er verðlögð með þeirra framleiðsluvörum, heldur verða að hlíta gerðardómi í þeim efnum. Þeir hafa aldrei fengið að reikna eyri inn í verðiag landbúnaðarafurða vegna vaxta af því fé, sem þeir hafa lagt frá sjálfum sér til framleiðslunnar, og ekki nema lítinn hluta af vöxtum, sem þeir hafa orðið að greiða af lánsfé. Nú kemur hæstv. ríkisstj. og eykur stórlega þessi útgjöld bænda, án þess að enn sé sýnilegt, að þeir fái það uppborið eða bætt í verðiagi á framleiðslu sinni. Svo kemur hv. þm. V-Húnv. og kórónar þetta með því að halda hér fram, að það sé verið að bæta hag og kjör bænda stórlega með þessari vaxtahækkun. Þetta er sem sagt, eins og upplýst hefur veríð hér í umræðunum, hálfrar aldar afmælishátíð ræktunarsjóðsins. Og þannig halda hv. stjórnarflokkar upp á þetta hálfrar aldar afmæli. Maður skyldi halda, þar sem stjórnarflokkarnir eiga báðir verulega gengi sitt og velferð undir sveitunum komið og vald sitt, að þeim hefði dottið í hug að halda með einhverjum öðrum hætti upp á þetta sögulega og merka afmæli. En reynslan er ólygnust. Hún sýnir afstöðu þessara flokka og vilja þeirra í garð bændastéttarinnar í dag. Ég hef áður sagt, að þessi frv. um vaxtahækkun úr þessum sjóðum sýndu betur en nokkurt annað mál, sem borið hefur verið fram hér á Alþ., hvaða öfl það væru í þessu þjóðfélagi, sem stæðu á bak við núverandi hæstv. ríkisstj. og hvaða fólki í þessu landi hún teldi sér skylt að þjóna. Ég hygg, að þessar umræður hafi leitt í ljós, svo að ekki verði um villzt, að þessi ummæli voru réttmæt.

Hæstv. landbrh. og hv. þm. A-Húnv. hafa reynt að drepa þessu máli nokkuð á dreif og rugla eða villa um fyrir mönnum í því, hvað hér er raunverulega til umræðu. Þeir hafa báðir blandað inn í þessa umræðu um hækkun vaxta á lánum úr byggingarsjóði og ræktunarsjóði og byggingarsjóði verkamanna því atriði, að það væri meginnauðsyn fyrir þessa sjóði að fá aukið fjármagn. Það er annað mál og alls óskylt því að hækka vexti. Hækkun á vöxtum hefur ekki í för með sér nokkra aukningu á lánsfé sjóðanna umfram það, sem tilsvarandi greiðsla á vaxtatöpum sjóðanna hefði haft í för með sér. Það var líka auðheyrt á ræðu hv. þm. A-Húnv., að hann skildi þetta, þó að hann vildi reyna að véla nokkuð um í málinu. Hann sagði sem sagt, að hann treysti því, að fjármagn ræktunarsjóðs yrði aukið á þessu ári, og ætlaðist til, að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því, og í trausti þess greiddi hann þessu frv., sem hér er til umræðu um að hækka vextina, atkvæði. Með þessu lét hann auðvitað í ljós, að hér væri um tvö og allóskyld mál að ræða, enda er það svo.

Jafnvel þótt þeir vilji nú, t.d. hv. þm. V-Húnv. eða aðrir, halda því fram, að ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitanna og byggingarsjóði verkamanna yrði auðvelduð lántaka núna með því að hækka vextina úr 21/2% upp í 4% eða úr 2% upp í 31/2%, þá er það líka algerlega rangt. Þegar vaxtamarkaðurinn er yfirleitt þannig, að lánin fást ekki fyrir minna en 61/2—7–71/2%, þá er það engin aðstoð og engin auðveldun, þó að útlánsvextir þessara sjóða séu hækkaðir um 11/2%. Þeim er ekkert auðveldara um að útvega sér lán til endurlána, alls ekkert auðveldara en með því móti að samþykkja t.d. till. þá, sem við þm. Þjóðvfl. bárum hér fram um að greiða vaxtatöp þessara sjóða á sérstakan hátt.

Þetta verða menn að hafa í huga, þegar þeir greiða atkvæði um þetta mál. Í fyrsta lagi það, að til eru ýmsar leiðir til að greiða vaxtatöp þessara sjóða, aðrar en þær að hækka útlánsvexti þeirra. Í öðru lagi, að aukning útlánsvaxta kemur beint niður á bændum sjálfum. Þeir verða að borga þessa vaxtaaukningu, þennan vaxtamismun af sínum persónulegu tekjum, sem, eins og ég sagði áðan, eru miðaðar við tekjur Dagsbrúnarverkamanns, sem hefur fulla vinnu 300 daga ársins. Og í þriðja lagi eru þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, ekki fyrst og fremst að búa í haginn fyrir sjálfa sig, heldur fyrir eftirkomendur sína, fyrir komandi kynslóðir, sem munu njóta góðs af verkum þeirra áratugi og jafnvel aldir. Menn verða að hafa einhver veigamikil rök, ef þeir vilja lýsa því yfir, að það sé sanngjarnt, réttlátt og nauðsynlegt að torvelda þessu fólki þau störf, sem það er að vinna.