29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. þm. (GÞG), sem hefur skilað sérstöku áliti um þetta frv., sagði hér áðan í ræðu sinni, að hann teldi ekki rétt að samþykkja þessa vaxtahækkun, meðan engar ráðstafanir væru gerðar til eflingar ræktun landsins og til að bæta landbúnaðinum upp það tjón, sem vaxtahækkunin veldur honum. Ég segi ekki, að þetta sé alveg orðrétt eftir haft, en þetta mun hafa verið efnið í því, sem hann sagði. Út af því vil ég aðeins benda á það, að á síðasta fundi þessarar hv. d. var verið að afgreiða sem lög breytingar á jarðræktarlögunum. Samkvæmt þeim lögum er jarðræktarframlag ríkisins hækkað verulega. Ég held það sé rétt með farið, að framlag ríkisins til landþurrkunar hafi verið hækkað með þessari lagabreytingu um 30% og framlag ríkisins til annarra jarðabóta yfirleitt um 15%. Það er því ekki rétt, sem virtist koma fram hjá hv. þm., að þingið hafi ekkert gert til þess að styðja að aukinni ræktun landsins.

Annar meðnm. minn í fjhn., hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), flutti einnig sérálit um málið og gerði grein fyrir skoðunum sínum á málinu í ræðu hér áðan. Hann talaði í því sambandi m.a. um skattamál félaga, og virtist koma fram sú skoðun hjá honum, að réttara hefði verið að feila niður þá 20% lækkun á félagasköttum, sem samþykkt var á síðasta þingi, láta þá lækkun ekki gilda fyrir þetta ár, m.a., skildist mér, til þess að ríkið væri færara um að auka framlög sín til sjóða Búnaðarbankans. Og hann nefndi Eimskipafélagið í þessu sambandi, sem mætti heimta skatt af og verja því, sem þannig kæmi inn til ríkisins, einnig til stuðnings sjóðum Búnaðarbankans.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða hér um þessi skattamál félaga, þau mál voru hér nýlega til umræðu, og menn gerðu þá grein fyrir áliti sínu á þeim málum. Það er vissulega sanngirnismál, að félög njóti þessa afsláttar af sköttum, sem þeim var veittur í fyrra, þegar litið er á þá skattalækkun, sem aðrir gjaldendur fengu þá. Um Eimskipafélagið vil ég segja, eins og hér hefur verið tekið fram, þegar rætt var um það mál, að þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun, að framlengja óbreytt ástand fyrir þetta ár að því er það félag snertir eins og önnur félög, meðan verið er að vinna áfram að endurskoðun skattalaganna að því er félögin varðar.

Mér kemur nú einnig í hug, að þó að þetta félag færi innan skamms að borga skatta, þá mundi takast að ráðstafa því fé, sem þannig kæmi inn, til einhverra gagnlegra hluta, þó að því sé ekki blandað saman við þetta mál. Blöðin skýra okkur t.d. frá því nú í morgun, að í sambandi við lausn vinnudeilunnar hafi verið ákveðið, að hér skuli á næsta þingi setja lög um atvinnuleysistryggingar, og mér skilst, að ríkissjóður elgi að leggja fram verulegt fé til þeirra mála. Þannig er það, að það eru alltaf fyrirliggjandi verkefni, sem ríkið þarf að styrkja. En mér virðist oft vera svo með hv. stjórnarandstæðinga, að það komi fram hjá þeim, að ef þeir koma einhvers staðar auga á möguleika til að afla viðbótartekna, þá vilja þeir nota þær þennan daginn í þessa framkvæmd og hinn daginn til annarra hluta, en það er nú ekki svo auðvelt að nota sömu krónuna mörgum sinnum, eða menn hafa ekki komizt upp á lag með það enn þá.

Hv. 9. landsk. sagði einnig, að löggjöfin um ræktunarsjóð hefði verið samin fyrir atbeina nýsköpunarstjórnarinnar. Ég gat þess hér áður, hvað ræktunarsjóðurinn væri gamall, hann er jafngamall öldinni, og lögum um ræktunarsjóð hefur verið breytt mörgum sinnum. Það mun rétt vera, að breytingin, sem gerð var á ræktunarsjóðslögunum 1947, í eitt skipti af 6 eða 7, ef ég man rétt, mun hafa verið undirbúin á þeim tíma, sem nýsköpunarstjórnin var hér við völd, en lög um þessa breytingu voru ekki samþykkt á Alþ. fyrr en eftir að sú stjórn var farin frá. En af því að hv. 9. landsk. þm. var að minnast á þá ríkisstjórn, sem hann og margir fleiri telja verið hafa mjög góða stjórn, þá vil ég, án þess að fara í nokkurn meting um þessi efni, þó benda á það, að allan þann tíma, sem sú stjórn sat að völdum hér á voru landi, voru vextir af lánum til bænda úr sjóðum Búnaðarbankans, bæði byggingarsjóði og ræktunarsjóði, nokkru hærri en þeir verða, þó að þau frv., sem hér liggja fyrir þinginu um hækkun vaxta, verði samþykkt. Þegar á þetta er litið, geri ég ráð fyrir því, að meðnm. minn, hv. 9. landsk., geti verið mér sammála um það, að ekki sé nú sérlega illa búið að bændastéttinni, þó að þessi frv. verði afgreidd eins og þau eru, úr því að vextirnir verða þó eftirleiðis hagstæðari en þeir voru á því tímabili, sem sú stjórn, sem við höfum minnzt á, sat hér að völdum.

Hv. 8. landsk. þm. (BergS) kom hér fram í umræðum áðan. Nokkur stóryrði féllu af munni hans, en fátt annað fannst mér athygli vert í ræðu hans. Það er rétt hjá honum, eftir því sem ég bezt veit, að við útreikninga á verðlagi landbúnaðarafurða munu vextir, sem bændur þurfa að greiða, ekki hafa verið teknir til greina að öllu leyti, a.m.k. hefur mér skilizt, að þeir hafi ekki fengið viðurkennda vexti af eigin eign í búinu. En ég vil nú vænta þess, að þetta fáist lagfært innan skamms. Mér þykir ólíklegt annað en að þeir aðilar, sem um þau mál fjalla, hljóti að fallast bráðlega á þá sanngirniskröfu bænda, að vaxtagreiðslur þeirra séu þarna teknar til greina.

Hv. þm. sagði, að ég og fleiri vildum halda upp á hálfrar aldar afmæli ræktunarsjóðs með þessari vaxtahækkun. Sjóðurinn er að vísu nokkru meira en hálfrar aldar, hann er nú 55 ára; það skiptir ekki miklu máli. Eins og ég hef áður tekið fram í þessum umræðum og fleiri hafa tekið undir, þá skiptir það vitanlega þó nokkru máli fyrir bændur, hvað háa vexti þeir þurfa að greiða, en hitt er þó tvímælalaust miklu mikilsverðara fyrir þá, að þeir geti fengið lán til hæfilega langs tíma til sinna framkvæmda, og það verður vítanlega miklu auðveldara að útvega þeim þetta lánsfé, ef breyting verður gerð á vöxtunum. Vitanlega fer það svo, ef engin breyting verður gerð, en sífellt þarf aukið lánsfé til sjóðanna og auknar lánveitingar, að þá verður vaxtahallinn óviðráðanlegur fyrir sjóðina og eignir þeirra étast upp með þeim hætti og starfsemin bíður hnekki og stöðvast.

Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa fleiri orð hér út af því, sem komið hefur fram í ræðum manna, taldi aðeins rétt að gera þessar athugasemdir við það, sem frá þeim hefur komið.