02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi voru samþ. lög um breyt. á l. um Ræktunarsjóð Íslands, og í þeim lögum voru, eins og hv. þm. muna, tvö ákvæði, annað það að lengja úr 10 upp í 20 ár ákvæðið um framlag úr ríkissjóði til ræktunarsjóðs, hitt var að ákveða, að þar sem styrkur eða framlag ríkisins væri lægra en sem svaraði 30%, þá væri heimilt að lána úr ræktunarsjóði þannig, að lán og styrkur væru samtals 60%. Hv. landbn. rak sig á það, að með því að samþ. jarðræktarlögin eins og þau eru, þá er þar breytt ákvæðinu um framlag til vélgrafinna skurða úr 50% upp í 65%, og það þýðir, ef lögin eru óbreytt, að þá er ekki heimild til að lána neitt út á vélgrafna skurði úr ræktunarsjóði. Landbn. leggur því til, að inn í þetta frv., sem hér liggur fyrir, séu tekin lögin, sem samþ. voru í vetur, með þeirri breyt., að það sé heimilt að lán og styrkur út á vélgrafna skurði séu upp í 85%. Ég vil þess vegna hér með f. h. landbn. leggja fram skriflega þessar brtt., sem þýða það, að lög þessi eru færð saman í eina heild, og séu þá um leið lög nr. 101 10. des. 1954, um breyt. á l. um Ræktunarsjóð Íslands, úr gildi felld.

Ég vil mega vona, að hv. þingmenn geti fallizt á þetta með landbn., og óska, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessum brtt., sem ég hér með afhendi honum skriflega, en landbn. stendur öll að þessum brtt.