10.02.1955
Efri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

143. mál, almenningsbókasöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Fátt er nytsamlegra þeim, er mennta vill sjálfan sig, en góður bókakostur. Til skamms tíma varð allur almenningur hér á landi að mestu að afla sér menntunar með sjálfsnámi og þá að sækja hana í þær bækur, sem til náðist og oft voru eigi um of fjölbreyttar. Íslendingar hafa því löngum verið bókelskir.

Á síðustu árum hafa skólarnir að verulegu leyti komið í stað sjálfsnámsins, og er því nú meira á lofti haldið, að við höfum of marga skóla en of fáa. Hvað sem þeirri deilu liður, er oft kvartað undan því, að skólunum takist ekki að auka lestrarfýsn nemenda sinna, heldur deyfi þeir hana. Auðvitað er nú margt, sem dregur hugann frá bókalestri frekar en áður var. Einn aðaltilgangur skólanáms hlýtur þó að vera sá að kenna mönnum að læra sjálfir. Svo lengi lærir sem lifir, segir máltækið, og vissulega má læra með mörgum öðrum hætti en af bókunum einum. Flestum verða þær þó handhægasta leiðin til þess að afla sér margs konar fróðleiks og skemmtunar. Sá, sem les góða bók og kann að meta hana, lætur sér ekki leiðast og hefur litla löngun í fánýtan og óhollan félagsskap.

Flestum einstaklingum er það hins vegar ofvaxið að koma sér upp fullkomnu bókasafni. Þess vegna tíðkast almenningsbókasöfn, og eru þau hvarvetna talin þýðingarmikill þáttur menntamála og almenningsfræðslu. Af bókasöfnum hér er landsbókasafníð elzt og mest. Segja má, að um langt skeið hafi það verið eins konar almenningsbókasafn, jafnframt því sem það sinnti öðrum verkefnum. En frá upphafi var því fyrst og fremst ætlað að vera vísindabókasafn, og er starfræksla þess einkum miðuð við þann tilgang.

Á seinni árum hafa verið sett upp önnur vísindabókasöfn eða sérfræðibókasöfn, og ber þar fyrst að nefna háskólabókasafnið, auk ýmissa stofnana, er kaupa sérfræðibækur fyrir sig.

Það er íhugunarefni út af fyrir sig, hvort hyggilegt sé að dreifa þeim takmarkaða sérfræðibókakosti, sem við höfum efni á að kaupa til landsins, með þeim hætti, sem nú er gert, milli sérfræðisafna. Væri a.m.k. mikið hagræði að því, ef komið yrði upp í landsbókasafninu skrá yfir allar bækur, sem hingað eru keyptar fyrir ríkisfé, og þess getið, hvar þær er að finna. Þessi og önnur fleiri atriði varðandi rekstur landsbókasafnsins þarf að athuga frekar og þá ekki sízt, hvort nægilegu fé sé nú varið til viðunandi viðhalds þess og nýrra bókakaupa.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar ekki um þau efni, heldur einungis um almenningsbókasöfn. Nokkur slík söfn voru stofnuð á síðustu öld, og er þar einkum að geta amtsbókasafnanna svokölluðu. Síðar voru mynduð hin svonefndu lestrarfélög og bæjarbókasöfn auk einstakra sýslu- og sveitarbókasafna. Öll þessi starfræksla er þó mjög í molum, enda styrkir til annarra safna en lestrarfélaganna harla litlir og mjög af handahófi.

Á síðasta ári lét ég kanna nokkuð starfrækslu og bókakaup ýmissa þessara safna, og reyndist hvort tveggja mjög á ringulreið. Í framhaldi af þeirri athugun skipaði ég þá Guðmund G. Hagalín rithöfund, sem er gamall bókavörður bæjarbókasafns á Ísafirði og þessum málum nákunnugur, séra Helga Konráðsson prófast, sem hefur unnið merkilegt brautryðjandastarf í þessum efnum á Sauðárkróki í Skagafjarðarsýslu, og dr. Þorkel Jóhannesson prófessor, sem er fyrrverandi landsbókavörður og áhugamaður mikill í þessum efnum, í nefnd til þess að athuga þessi efni og gera tillögur um þau. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ávöxtur þess starfs, og er það flutt eins og n. lagði til, með þeim breytingum, að samkomulag varð um að draga nokkuð úr styrkjum samkv. frv. og þar með kostnaðinum.

Meginatriði frv. er, að nú á að koma fastri, samfelldri skipan á bókasöfn um land allt, enda styðji þau hvert annað með samvinnu í starfi sín á milli. Landinu skal skipta í 29 bókasafnshverfi, og í hverju þessara hverfa á að vera eitt bæjar- eða héraðsbókasafn, er starfi hvort tveggja með innbyrðis samvinnu og í samvinnu við sveitarbókasöfnin, sem ætlazt er til að séu í hverjum hreppi og ýmist starfrækt af hreppsfélaginu sjálfu eða lestrarfélagi. Þó er fleiri hreppsfélögum heimilt að sameinast um eitt sveitarbókasafn, og einnig getur hreppsfélag ákveðið að fela héraðsbókasafni verkefni sitt. Af hálfu ríkisvaldsins er ætlazt til að skipaður verði sérstakur bókafulltrúi, er starfi í fræðslumálaskrifstofunni til leiðbeiningar og yfirumsjónar með öllum þessum söfnum. Öll fái þau eftir ákveðnum allflóknum reglum nokkurn styrk úr ríkissjóði til starfrækslu sinnar, og er þar reynt að styrkja þá mest, sem verst eru settir. Auk þessara safna á ríkið einnig að styrkja heimavistarskóla, sjúkrahús og fangelsi til að koma upp og starfrækja bókasafn.

Fjárframlög þau, sem almenningsbókasöfn mundu fá samkv. frv. þessu, yrðu allmiklu hærri en þau hafa nú. Úr ríkissjóði yrði aukningin hér um bil 640 þús. kr. á ári, og er þá framlag það, sem lestrarfélögin njóta nú af skemmtanaskatti, en fellur niður samkv. frv., talið með framlögum ríkisins. Bæjar-, sýslu- og sveitarsjóðir þyrftu að greiða hér um bil 260 þús. kr. meira en þeir gera nú, og munar þar mestu aukið framlag þeirra kauptúna, þar sem héraðsbókasöfn verða staðsett, og tillag sýslusjóða. Hækkun heiman að til annarra sveitarbókasafna er sáralítil og einnig hlutfallslega lítil hækkun frá bæjunum. Þess er að geta, að af hækkun ríkisframlagsins er greiddur styrkurinn til skólabókasafna og annarra slíkra safna samkv. III. kafla frv. og laun bókafulltrúa, en starf hans á að verða almenningsbókasöfnunum að margvíslegum notum. Söfnin eiga ekki einungis að hafa gagn af hinum auknu fjárframlögum, heldur á betri skipun á starfi þeirra og samvinna þeirra í milli að geta orðið þeim til mikils góðs.

Svo sem menn sjá, er frv. þetta allmikill lagabálkur, fimm kaflar og samtals 30 greinar. Vera kann, að mönnum sýnist sitt hverjum um einstök ákvæði. Slíkt er ekki tiltökumál. T.d. veit ég ekki, hversu auðvelt verður að setja sanngjarnar reglur um stjórnarkosningu bæjar- og héraðsbókasafna samkv. 8. gr., einkum þar sem mikill er stærðarmunur bæjarfélags og aðliggjandi héraðs, er samvinnu eiga að hafa í þessum efnum. Þetta og önnur einstök atriði frv. verða að sjálfsögðu athuguð við meðferð frv. á Alþingi. En hvað sem einstökum atriðum líður, er það von mín, að hv. Alþingi sé samþykkt meginstefnu frv. Það fjallar um mikilsverðan þátt í fræðslukerfi þjóðarinnar og mun stuðla að því að gera almenningi auðveldara um að afla sér þekkingar og hollrar skemmtunar.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. að lokinni þessari 1. umr. fari til 2. umr. og verði vísað til hv. menntmn.