25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

70. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er sama að segja viðvíkjandi 1. gr. þessa frv. eins og um frv. um byggingarlánasjóðinn, er við vorum að ræða. Þó að n. væri ljóst, að sú ca. hálfa milljón, sem ríkissjóður á eftir lögunum að leggja til ræktunarsjóðsins til að standa undir vaxtamismun af lánum, væri alveg ónóg og þess vegna ekki nægjanlegt að framlengja þau ákvæði í næstu 10 ár, eða gera það að 20 ára ákvæði í staðinn fyrir 10 ára ákvæði, þá vildi n. ekkert hugsa um það, þar sem ráðh. sagði, að málið væri til meðferðar í stjórninni og mundi verða athugað þar að gera einhverjar ráðstafanir til úrbóta í framtíðinni.

Hins vegar bættist 2. gr. frv. við upprunalega stjfrv. í Nd. og er þar komin eftir ósk frá mþn., sem Búnaðarfélag Íslands setti til að endurskoða jarðræktarlögin o.fl. Þeirri endurskoðun á jarðræktarlögunum er nú lokið, og frumvarp til breytinga á þeim er hjá ríkisstj., eins og mþn. búnaðarþings vill hafa það, — en hvað úr því verður, veit ég ekki, enda kemur það ekki beint þessu máli við. Og þó eru viss tengsl á milli þess. En þessi n. sá það tiltölulega fljótt, þegar hún fór að hugsa um þessi mál, að lánin, sem ræktunarsjóður lánar út á jarðabætur og útihús, eru nú orðin ákaflega misjöfn eftir því, hver framkvæmdin er. Það var hugsað þannig á sínum tíma, þegar jarðræktarlögin voru sett, að jarðræktarstyrkurinn næmi sem næst 1/3 af kostnaði. Og þá var ákveðið, að ræktunarsjóður mætti lána 30% út á þær jarðræktarframkvæmdir, sem framlag tóku frá ríkinu, en 60% út á hinar. Þess vegna var lánað t.d. 60% út á fjárhús, en ekki nema 30% út á hlöður. Síðan hefur þetta allt breytzt. Sumar framkvæmdir hafa orðið tiltölulega ódýrari en þær voru fyrir nýja tækni, ný verkfæri og nýja kunnáttu, eins og t.d. skurðagerð, sem er beinlínis ódýrari en hún var, síðan skurðgröfurnar komu til sögunnar. Og eins er um ræktun. Hún er kannske ekki beint ódýrari en hún var, af því að vinnukaup hefur hækkað mikið, en allt að því, meðan aðrar framkvæmdir, eins og t.d. bygging geymsluhúsa og bygging fjárhúsa, hafa aftur hækkað geysilega, svo að framlagið, sem veitt er þar, er ekkert orðið, samanborið við það, sem áður var, miðað við hlutfallslegan tilkostnað. Þess vegna fór mþn. búnaðarþingsins fram á það við n. í Nd., sem hafði þetta frv. til meðferðar, að það væru tekin upp í það ákvæði um, að lána skyldi 60% úr ræktunarsjóði af því, sem væri áætlað eða ákveðið væri að framkvæmdin hefði kostað hverju sinni. Þó væri dregið þar frá jarðræktarframlagið frá ríkinu og 60% lánað út á það, sem eftir væri. Ef eitthvert fyrirtæki kostaði 1000 kr. og svo kæmi framlag frá ríkinu og það væri 150, þá væru eftir 850 kr., 60% af því yrði lánað í staðinn fyrir 30% af öllu verðinu. Nefndin tók þetta upp í frv. í Nd., og svoleiðis kom það til okkar.

Við höfum lagt til að gera á þessu svolitla breytingu, sem aðallega er byggð á því að gera málið framkvæmanlegt í því praktíska lífi.

Nú gengur þetta þannig fyrir sig, að ef um húsabætur er að ræða, þá eru þær teknar út, virtar af úttektarmönnum heima í sveitinni, og sú virðing fer suður í Búnaðarbankann, og síðan er hún endurskoðuð þar á teiknistofu landbúnaðarins og ákveðið, hvað hún muni hafa kostað, virðingin lækkuð eða hækkuð stundum, látin standa í stað stundum o.s.frv., og það verð, sem bankinn þá setur á hana, er það, sem lánað er út á ýmist 30 eða 60% núna. Hins vegar hefur aldrei farið fram virðing á jarðabótum á sama hátt, úttekt á jarðabótunum. Þar er farið til Búnaðarfélags Íslands, sem árlega fær skýrslu um allar jarðabætur, og sagt: Hvað hefur Jón Jónsson á Hóli eða einhvers staðar gert miklar jarðabætur síðustu þrjú árin, og viljið þið nú gefa mér skýrslu um það? — Svo er fundið meðalverðið á jarðabótum, meðalkostnaðurinn, sem er álitinn af kunnáttumönnum að sé á jarðabótum þau ár, og hann fær samkvæmt því 30%. En eins og þetta var orðað, þá mátti líta svo á, að það væri ætlazt til, að það væri kostnaðarverð hverrar einstakrar jarðabótar, sem ætti að lána út á allt að 60% að frádregnu framlaginu. En það að framkvæma jarðabót, jafnvel þó að það sé nú bara eins einföld jarðabót og að rækta einn hektara, getur kostað upp undir heimingi meira á einum stað en öðrum, eftir því hvernig aðstaðan er. Þess vegna höfum við tekið meðalverð. Og það var ekki hægt að hafa það eins og það er fram sett í frv.: „Upphæð lánanna má vera allt að 60% kostnaðarverðs“ — því að þá gat maður heimtað 60% kostnaðarverðs á þessa jarðabót, sem var kannske miklu dýrara að framkvæma en sams konar jarðabót annars staðar. Og gersamlega ómögulegt var að finna rétt kostnaðarverð fyrir hverja einstaka jarðabót, sem menn vildu fá lán til að framkvæma. Það varð að taka meðaltalskostnaðarverð, og út á það gengur okkar brtt. Hún er um það, að lánsupphæðin hverju sinni sé miðuð við meðalkostnaðarverð, eins og það er áætlað árlega. Það er alltaf áætlað á hverju ári eins og talið er að það kosti raunverulega að meðaltali. Það veit maður úr ýmsum stöðum, bæði þar sem ræktunarsamböndin vinna sjálf að framkvæmdunum og eins frá nýbýlanefnd, og þó ekki sízt þaðan. Það er aðalbreytingin. Og eins til þess að útiloka, að það þyrfti alltaf að vera að virða, þá settum við þarna: „eftir því sem þörf er á.“ Og það er alveg sama, það verða áfram virtar húsa-b turnar, en hins vegar ekki jarðræktarframkvæmdirnar.

Hvernig þessi breyting verkar, getur maður svo séð á skýrslunni, sem er aftan á þskj. 197. Menn sjá, ef þeir líta á aftasta dálkinn og svo fimmta dálk þar fyrir framan, hvað það er miklu misjafnara, sem lánað var, meðan það var lánað 30% og ekki tekið tillit til jarðræktarframlagsins, heldur en nú er lagt til. Það er miklu nær því að vera réttlæti gagnvart hinum einstöku jarðabótum, hverri miðaðri við aðra, með frv. eins og það er núna heldur en eins og það var. Við, nefndin hérna í Ed., höfum haft samband við n. í Nd. um þetta, við vitum, að hún er með þessari breytingu, og við leggjum til, að með henni verði frv. samþykkt.