03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

143. mál, almenningsbókasöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. fyrir vinsamlegar undirtektir undir frv. og góðan skilning á mikilvægi þess. Það er eðlilegt, að einstakar athugasemdir komi fram, og eru þær þó fæstar, a.m.k. af nefndarinnar hálfu, varðandi úrslitaákvæði frumvarpsins.

Ég er alveg sammála þeim brtt. n., sem nánast má telja leiðréttingu.

Varðandi aftur á móti brtt. um að breyta bókbandsskyldunni á þeim bókum, sem eru taldar í 27. gr., vil ég geta þess, að ég er sammála því, að í frv. nú sé sú skylda of fortakslaus. Hins vegar vildi ég skjóta því til hv. n., að hún athugaði það fyrir 3. umr., hvort ekki væri rétt að greina hér nokkuð á milli. Ég er því sammála, að það er reyndar þýðingarlitið að vera að binda skólaskýrslur, Lögbirtingablað, sum prentuð álit mþn., sem bundin eru við efni, er ekki hafa kannske mikla þýðingu, jafnvel skýrslur hagstofunnar, og er þar þó strax öðru máli að gegna. En ég vil leggja áherzlu á, að mér sýnist mjög eðlilegt, að úr því að send eru í þessi söfn eintök af Alþingistíðindum og Stjórnartíðindum, þá sé lögð skylda á bókasöfnin að hafa þessar bækur til bundnar, þannig að sæmilega öruggt sé, að þær varðveitist, og mundi ég telja rétt, að skýrslur hagstofunnar ættu að koma í þann sama flokk. Það má naumast minna vera en að í hverju héraðsbókasafni sé örugglega hægt að ganga að þessum heimildum, og ef menn telja t. d, Alþingistíðindi ekki þess virði, að þau séu til bundin a.m.k. á einum stað í hverju héraði, þá fer nú að verða hæpin ástæða til að gefa þau yfirleitt út. Ég mundi þess vegna telja eðlilegra, að í 27. gr. væri greint á milli, þar væri beint lögð skylda á héraðsbókasöfnin að láta binda Alþingistíðindin og Stjórnartíðindin og skýrslur hagstofunnar, lagasafn er nú sent bundið, en önnur rit ætti einungis að binda eftir því, sem efni standa til, eins og brtt. n. gefur til kynna. Til þess að greiða fyrir þessu og svo að ekki yrði óbærilegur kostnaður þessu samfara, þá væri hugsanlegt að koma svipaðri aðferð við band á þessum ritum eins og er t.d. viða á safnritum erlendis, að kápur eða spjöld eru límd upp og send eða undirbúin undir band frá bókaútgefandanum, og þarf ekki annað en að festa hin einstöku hefti inn í af manni, sem kann með það að fara. Það væri eðlilegt, að Alþingistíðindi og Stjórnartíðindi væru bundin í þvílíkt „standard“-band, og þá þyrfti það ekki að kosta mikið fé. Það er kannske of mikið sagt, en ég hygg það þó vera rétt, að það sé nánast menningaratriði, að þessar höfuðheimildir um stjórnarfarið séu til bundnar og heillegar í a.m.k. einu eintaki í hverju héraði.

Ég vil þess vegna beina því til hv. n. að athuga þetta nokkru nánar, og ég veit, að svo glöggskyggn og margreyndur maður eins og hv. frsm. n., 1. þm. Eyf., veit, að. það er auðvitað tiltölulega þýðingarlítið að vera að senda Alþingistíðindi og Stjórnartíðindi í mörgum einstökum heftum út í héruð, ef þetta er látið liggja þar í heftum, því að þá verður þetta engum manni að gagni. Það er því aðeins að ráðstöfun sé gerð til þess, að þetta sé bundið, að hugsanlegt er, að einhver maður líti í það og hafi raunverulegt gagn af því. Við verðum að meta þessi rit svo mikils að ætlast til, að þau geti a.m.k. verið þannig til í handhægu formi fyrir þá, sem óska eftir að nota þau. — Skal ég svo ekki meira segja um það að þessu sinni, en vildi beina því til hv. n. að athuga til 3. umr., hvort ekki væri rétt að greina hér á milli, eins og ég skaut fram.

Varðandi athugasemd hv. frsm. út af 18. gr., þá er það rétt, að þar er eftir orðalaginu skyldan einungis lögð á sveitarstjórnina að taka að sér reksturinn. Ef aðili neitar að afhenda safnið og verður talinn hafa eignarrétt á því, þá sýnist mér eftir orðanna hljóðan ekki hægt að knýja þann félagsskap til að afhenda það. Ég vil þó benda á, að það er auðvitað ekki alveg ljóst, að þetta hljóti ætíð að vera rétt, vegna þess að það mætti einnig líta þannig á, að et lestrarfélag hefur komið upp bókasafni með verulegum styrk af hálfu almannavaldsins, hvort heldur ríkis eða sveitarfélags, þá sé safnið ekki óskoruð eign félagsins, þá sé því ekki heimilt að fella reksturinn niður og t.d. selja bækurnar og skipta eignunum upp eða láta bækurnar týnast í vanhirðu, heldur eigi það að afhenda sveitarfélaginu bækurnar samkv. 18. gr.

Ég fellst á það með hv. þm., að eins og 18. gr. er nú, þá finnst mér skylda ekki hvíla á lestrarfélögum í þessum efnum, en vildi biðja hv. n. að athuga það fyrir 3. umr., hvort ekki væri rétt að herða hér á um skyldu lestrarfélagsins. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, a.m.k. varðandi þann tíma, sem héðan í frá liður, að ef menn vilja taka við styrk samkv. þessum lögum, þá sé það gert gegn slíku skilorði. Annars geri ég ráð fyrir, að naumast komi til mikils ágreinings um þessi efni, svo að þess vegna þurfum við ekki að bera mikinn kviðboga út af því, en segja má, að allur varinn sé góður.

Varðandi bókafulltrúann hafði hv. frsm. réttilega séð, að í frv. er nokkur tvískinnungur varðandi stöðu þessa manns. Upphaflega var það sem sé ætlan n. að stofna hér alveg sjálfstætt embætti, sem væri ekki í neinum tengslum við fræðslumálaskrifstofuna. Þegar málið kom til athugunar í ríkisstj., þá þótti okkur hins vegar hæpið að setja hér upp alveg sjálfstætt embætti, sem þá mundi krefjast sérstaks skrifstofuhalds, húsrúms og skrifstofustúlku, a.m.k. einnar, og annars kostnaðar, sem slíku er samfara. Þess vegna varð það samkomulag hjá okkur að láta þennan embættismann taka stöðu á fræðslumálaskrifstofunni. N., sem undirbjó frv., hafði ekkert við það að athuga og féllst á þá breytingu og hafði raunar frá upphafi öðrum þræði hugsað sér, að til slíks gæti vel komið. Það má auðvitað segja, eins og hv. frsm. sagði, að nú sé spurning um það, hvort þessi embættismaður eigi að vera alveg sjálfstæður eða vera venjulegur starfsmaður fræðslumálastjóra. Ég hef ekki borið það saman sjálfur, en að því er ég hygg, þá eru nú þegar í lögum fyrirmæli, sem eru hliðstæð þessu, sem sé varðandi íþróttafulltrúa ríkisins. Hann er um margt sjálfstæður embættismaður og nýtur frelsis í störfum að ýmsu leyti sem óháður embættismaður, en á þó að starfa á fræðslumálaskrifstofunni og er að því leyti bundinn yfirstjórn fræðslumálastjóra. Ég hygg, að þessi nýja staða yrði mjög svipuð að fyrirkomulagi, að þessi embættismaður yrði um sín störf að langsamlega mestu leyti sjálfstæður, en hefði á þessari skrifstofu bækistöð sína og fræðslumálastjóra væri skyldugt að fylgjast með því, að hann gegndi sínum störfum eins og lög ákveða. Hins vegar væri bókafulltrúanum heimilt, svipað og íþróttafulltrúa ríkisins, að hafa beint samband við þær stofnanir úti um land eða í héruðunum, sem honum er ætlað að starfa með, og eins við menntmrn., eftir því sem atvik standa til. Þannig hefur þetta verið með íþróttafulltrúann og ekki orðið til neins áreksturs, og ég tel, að það ætti ekki frekar að þurfa að verða með bókafulltrúann. Ástæðan til þess, að hann var tengdur fræðslumálaskrifstofunni, er sem sagt þessi, að menn vildu losna við sérstakt skrifstofuhald fyrst og fremst, ef svo má segja. Að öðru leyti er auðvitað ekki alveg ljóst á þessu stigi málsins, hversu mikið starf er hér um að ræða, enda er ekki í frv. kveðið á um laun mannsins, og ég tel, að það verði nokkuð að fara eftir því, sem reynslan sýnir, hvað verði kveðið á um launakjörin og aðra starfshætti. Maður gæti hugsað sér, að sá maður, sem til þessa starfs yrði valinn, gæti einnig gegnt öðrum störfum, en yrði ekki að öllu leyti bundinn sem skrifstofumaður, og ég lít þannig á, að hann eigi ekki að sinna venjulegum fulltrúastörfum á fræðslumálaskrifstofunni, þannig að ef ekki eru not fyrir hans fullu starfskrafta við það sérstaka verkefni, sem honum er fengið, þá eigi það að koma fram í ákvörðun launakjaranna, annaðhvort um það, í hvaða flokk honum yrði skipað, eða þá að hann yrði talinn gegna starfinu einungis að nokkru leyti og þá dregið frá laununum sem því svarar, sem vitanlega eru fordæmi fyrir, að menn gegna starfi að hálfu eða eitthvað þess háttar.

Ég vonast til þess, að ekki þurfi að verða ágreiningur út af þessu eða vandræði, en vitanlega verður þetta að ýmsu leyti að lagast í hendi eins og margt annað og ekki hægt að sjá alveg fyrir, hvernig eigi að kveða á um hvert og eitt.

Um það verður hins vegar ekki deilt, að þörf er á slíkri sameiginlegri yfirstjórn eða eftirliti. Sú athugun, sem hefur átt sér stað um störf bókasafnanna nú, sýnir, að mörg þeirra eru í ótrúlegri vanhirðu og mikið sundurleysi í þeirra starfl. Bókafulltrúi gæti áreiðanlega miklu góðu til vegar komið, ef hann gæfi skynsamlegar leiðbeiningar og fylgdist í raun og veru og af alvöru með hinum einstöku söfnum. Það yrði auðvitað ekki gert nema með því, að maðurinn ferðaðist um öðru hverju, skoðaði söfnin, talaði við forstöðumenn þeirra og gæfi þeim leiðbeiningar.

Hv. þm. Barð. (GíslJ) gerði hér nokkrar athugasemdir. Varðandi kostnaðinn af frv., þá er í grg. þess á síðu 13 og 14 gerð grein fyrir kostnaðinum að verulegu leyti, og eins gerði ég í minni framsöguræðu á dögunum einnig grein fyrir kostnaðinum, sumpart frá dálítið öðru sjónarmiði en gert er í sjálfri grg. frv., og hygg ég, að með því að bera þetta hvort tveggja saman og svo einnig þær upplýsingar, sem hv. frsm. gaf hér áðan, þá ætti að vera hægt að gera sér sæmilega grein fyrir þessu, ettir því sem unnt er að sjá það fyrir fram. Hitt er svo annað, að Alþingi hefur það auðvitað í hendi sér, hver sérbókasöfn það vill styrkja, eftir að búið er að setja þessi l., og spádómar um það fyrir fram, hvað Alþingi samþykki í þeim efnum, eru auðvitað jafnlítið á færi mínu og hv. frsm. sem á færi hv. þm. Barð. En yfirgengilegur á nú kostnaðurinn ekki að verða, og miðað við það mikla gagn, sem áreiðanlega verður að þessu frv., ef það nær tilgangi sínum, þá held ég, að ekki sé horfandi í kostnaðinn. Ég vil sérstaklega taka fram út af kvíðboga þeim, sem hv. þm. Barð. ber vegna mikilla álagna, sem þetta geri á einstök sveitarfélög eða sveitarsjóði, að þá fá þau auðvitað mjög mikið í aðra hönd fyrir það fé, sem þau reiða þarna fram. Þau fá raunveruleg verðmæti og styrk frá ríkinu, þannig að ómögulegt er að segja, að það sé verið að taka út úr héraðinu eða til annarlegra þarfa fé, heldur er einungis verið að hlutast til um að koma hvarvetna á í landinu jafngóðri skipan og nú er komin á einstaka stað.

Það er ljóst, að sum héruð, sbr. t.d. Norður-Þingeyjarsýslu, Skagafjarðarsýslu og fleiri héruð, hafa nú þegar lagt svo mikið fram í þessu skyni, að segja má, að þau séu til fyrirmyndar. Og ég tel það alls ekki eftir stærri héruðum og að sumu leyti mjög vel stæðum, eins og Patreksfirði, með mikla atvinnu, þó að þau þurfi að leggja fram af útsvörum þá fjárhæð, sem hér er um að ræða, gegn þeim miklu hlunnindum, sem koma eiga í staðinn, enda er það í raun og veru alls ekki vansalaust, að ekki séu til skapleg bókasöfn í öllum helztu byggðarlögum landsins, og getur orðið til meiri menningarauka og blessunar en menn jafnvel í fljótu bragði gera sér grein fyrir.

Ég tel þess vegna með öllu ástæðulaust, þar sem ekki er um hærri fjárhæðir að ræða en þó er í þessu frv. og búið er að lækka þær nokkuð frá því n. í upphafi gerði sínar till., að fara nú að fresta samþykkt málsins, ef menn á annað borð eru meginstefnu þess samþykkir, til þess að spyrja sveitarstjórnirnar um þeirra álit í þessum efnum. Ég segi það alveg hiklaust, að ef einhver sveitarstjórn væri svo þröngsýn að vilja neita um það litla fé, sem hér er farið fram á, þá mundi ég eindregið leggja til, að hennar mótmæli yrðu að engu höfð, og telja það vera til vanvirðu fyrir það sveitarfélag, sem slíka stefnu tæki.

Ég legg ekki mikið upp úr því, hvenær ákveðið verður að frv. taki lagagildi. Það fer, eins og hv. 1. þm. Eyf. sagði, eftir ákveðnum lagareglum, hvenær l. taka gildi, ef ekki verða um það sett sérstök ákvæði í frv. E.t.v. mætti segja, að varðandi fjárveitingar frá ríki og sveitarfélögum væri eðlilegast, að frv. tæki ekki gildi fyrr en á næstu áramótum; ég játa það. Hins vegar varðandi undirbúning og t.d. starf bókafulltrúa, sem yrði að vera til leiðbeiningar mönnum, áður en l. fara að verka, þá væri æskilegast, að hann gæti tekið sem fyrst til starfa. Hvort n. vill hafa á þessu slíka skipan, að þetta yrði mögulegt, skal ég ekki segja. Hún gæti þá athugað það einnig og við í sameiningu til 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, en ég þakka mönnum fyrir vínsamlegar undirtektir og vonast til þess, að frv. án verulegra breytinga nái góðu samþykki Alþingis.