03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þarf nú fátt fram að taka, því að ekki hafa komið fram aðfinningar við störf n., a.m.k. ekki svo að neinu nemi. Þarf ég því ekki beinlínis að svara, þó að ég vilji aðeins minnast á aths., sem hér hafa fram komið.

Hv. þm. Barð. (GíslJ) minntist fyrst á það, að honum þótti ekki Reykhólar eiga að vera staður fyrir héraðsbókasafn Vestur-Barðastrandarsýslu, að mér skildist. Þetta kann að vera, ég er ekki svo nákunnugur í Barðastrandarsýslu, að ég geti sagt um það. Hitt er þó kunnugt, að það eru fleiri opinberar stofnanir á Reykhólum og mikil byggð, og vel er það í sveit sett þar að því er þetta sýslufélag snertir. En ég hygg, að ég geti lofað því f.h. nefndarinnar að ræða þetta nánar við hv. þm., og það mun áreiðanlega verða mikið tillit tekið til þess, ef hann hefur annan heppilegan stað í huga sem aðsetur héraðsbókasafns í þessari sýslu.

Hv. þm. sagði, að hér væri um nýjan skatt að ræða á sveitarfélögin. Er það sjálfsagt rétt að því er sum þeirra snertir, en alls ekki önnur, því að það eru mörg sveitarfélög, sem nú þegar leggja fram fé til bókasafna og sum eins mikið og mundi verða samkvæmt þessu frv., þótt að lögum yrði. Þegar svo stendur á, er vitanlega ekki um neinn nýjan skatt að ræða. Það bæjarfélag, sem ég tilheyri, mundi ekki þurfa að leggja á neinn nýjan skatt, og í því sýslufélagi, sem ég er fulltrúi fyrir, mundu að vísu aukast nokkuð gjöld til héraðsbókasafnsins, en svo lítið, að ég tel það ekki muna neinu verulegu.

Um sveitirnar — sveitarfélögin er aftur það að segja, að jafnvel þó að sveitarsjóður sjálfur leggi ekki fram fé til bókasafns í sveitinni, þá eru viðast lestrarfélög og árstillög í lestrarfélögunum það há, að það mun yfirleitt svara til þess, sem sveitin þarf að borga til sveitarbókasafns. Ég tek dæmi af því, þar sem ég er kunnugastur. Ég býst við, að þetta sé svo víðs vegar um land, þó að það kunni að vera til einhverjar undantekningar frá því.

Þá minntist hv. þm. á bókasafnið í Flatey og tók það réttilega fram, að þar er þegar til merkilegt bókasafn, sem stofnað var fyrir mjög löngu. Eins og þm. tók fram, ætti ekki að skaða það neitt, þó að þessi l. yrðu samþykkt, aðeins leggur þessi litlu gjöld á íbúa Flateyjarhrepps, en hann tók fram, að styrkurinn samkvæmt núverandi fólkstölu þar mundi vera ákaflega svipaður samkvæmt frv. og þetta bókasafn hefur nú á fjárl. Hann tók það fram í þessu sambandi, að það mundi vera heimilt að halda áfram að styrkja bókasöfn á fjárl., þó að þessi l. yrðu samþykkt. Ég tel vist, að það sé heimilt. Það er vitanlega ekkert, sem bannar Alþingi að samþykkja það, sem því kann að þykja hæfilegt og heppilegt, bæði um fjárveitingar og annað. En hitt verð ég að segja, að ég tel óeðlilegt, eftir að þetta frv. er orðið að l., að einstök bókasöfn haldi áfram að fá styrk.

Í þessu sambandi vil ég þá víkja að því, sem hv. þm. Barð. minntist á kostnaðinn af allri þessari framkvæmd, að það væri ekki vel ljóst, hvað hann yrði mikill. Hæstv. menntmrh. gaf nokkrar skýringar á því og vísaði bæði til sinnar ræðu og þeirrar grg. um kostnaðinn, sem er í athugasemdum við frv. Þar er gert ráð fyrir því, að heildarkostnaðurinn af þessari framkvæmd verði um 800 þús. kr., en þessi kostnaðaráætlun mun nú vera samin áður en farið var yfir frv. á nýjan leik og nokkuð dregið úr öllum kostnaði, og auk þess má gera ráð fyrir því, að mér finnst, að styrkir þeir, sem hingað til hafa verið veittir einstökum bókasöfnum, falli niður, og þegar þetta tvennt er dregið frá, þá hygg ég og hef dálítið athugað það, að það muni næstum mega fullyrða, að kostnaður ríkissjóðs af breytingunni fari ekki fram úr 1/2 millj. kr.

Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær skýringar, sem hann hefur hér gefið að minni beiðni.

Út af bókbandsskyldunni í 27. gr. frv. sagði hann, að honum fyndist rétt að greina á milli, — gera að skyldu að binda sumar af þeim bókum, sem hið opinbera sendir, en gefa tilslökun um aðrar. Þetta kom að nokkru leyti til orða í n., þ.e.a.s. ekki beinlínis á þann veg, heldur að fækka þeim ritum, sem skylt væri að senda bókasöfnunum. En það, sem hæstv. ráðh. sagði, er mjög athugandi, og er sjálfsagt að taka það til athugunar.

Ég er því alveg sammála, að þær bækur, sem á annað borð má gera ráð fyrir að séu lesnar, er ekkert vit að hafa í slíkum bókasöfnum öðruvísi en að þær séu bundnar, og ég vil gera ráð fyrir því, að Alþingistíðindin verði lesin af mörgum, og það þyrfti svo að vera. Eiginlega ætti það að vera skylda allra alþingiskjósenda í landinu að kynna sér frumheimildirnar, en hlaupa ekki eftir því, sem misjafnlega sannorð blöð segja um það, hvað gerzt hafi á Alþingi og hvernig afstaða einstakra þm. hefur verið. Og í gamla daga man ég eftir því, að Alþingistíðindin voru töluvert lesin, a.m.k. í minni sveit. Þau voru alltaf keypt í lestrarfélaginu, auk þess sem hreppstjórinn og oddvitinn fengu þau, og þau voru mikið lesin — ég held af flestum bændum í minni sveit, þegar ég var á mínum yngri árum þar, og þetta þyrfti að komast á aftur. Stjórnartíðindin lesa auðvitað miklu færri og ekki aðrir en þeir, sem einhverra hluta vegna af sérstökum ástæðum þurfa að kynna sér lög. Samt tel ég alveg sjálfsagt að binda Stjórnartíðindin. En ég er hræddur um, að skýrslur hagstofunnar lesi fáir, ákaflega fáir, og í annan stað, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, þá eru þær sendar í töluvert sterkum kápum, og ég teldi alveg skaðlaust að geyma þær þannig og gætu orðið þeim fáu mönnum, sem vildu glugga í þær, að notum fyrir því. En ég skal lofa því að bera upp í n. einmitt þetta, sem hæstv. ráðh. benti á, að skipta þessu nokkuð eða greina þarna á milli bókanna, hvort ekki sé ástæða til að breyta þar um.

Hæstv. ráðh. sagðist vera mér sammála um skilning á 18. gr. frv., að í henni væri aðeins lögð skylda á sveitarstjórnina til þess að taka við bókasafni, en ekki lögð skylda á lestrarfélag eða annan aðila, sem bókasafn á, til þess að afhenda það. En svo lét hann þá skoðun í ljós, sem ég get alveg fallizt á, að annað ætti að sjálfsögðu að gilda frá þessum tíma, ef lestrarfélag rekur sveitarbókasafn samkvæmt þessum l. og hættir svo einhvern tíma síðar. Eins get ég fallizt á það, að ef lestrarfélag hefur haft opinberan styrk til starfrækslu sinnar, þá mætti leggja á það skyldu í hlutfalli við þann styrk, samanborið við það, sem félagsmennirnir sjálfir hafa lagt fram. En sum lestrarfélög eru gömul. Í minni sveit var lestrarfélag stofnað 1884, það starfar enn, og það er stytzt af þeim tíma, sem það hefur notið nokkurs opinbers styrks. Þar af leiðandi er það auðvitað, að félagið á með öllum rétti flestar þær bækur, sem eru í þess bókasafni. Það er ekki nema lítill hluti bókanna, sem hefur verið keyptur að nokkru með opinberum styrk. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé ekki „praktískt“ atriði, ef svo má að orði kveða, því að sennilega kemur aldrei til nein deila um þetta. En ef það kæmi fyrir, að t.d. í lögum lestrarfélags væri ákvæði um það, hvað skyldi gera við bækurnar, þá finnst mér það þó alveg tvímælalaust, að það eigi ekki að leggja skyldu á gamalt lestrarfélag til að afhenda allar sínar bækur, t.d. frá þeim tíma, þegar það naut einskis styrks af opinberu fé. Ef til vill væri rétt að athuga nánar 18. gr., og það getur n. að sjálfsögðu gert.

Hæstv. ráðh. gaf skýringu á því, hvers eðlis þetta bókafulltrúastarf ætti að vera, það ætti að vera hliðstætt íþróttafulltrúanum og undir yfirstjórn fræðslumálastjóra. Þar með er skorið úr því, að þó að þessi embættismaður eigi að hafa sjálfstæði í ýmsum greinum og standa beint undir ráðh. að sumu leyti, þá verð ég að líta svo á, að hann sé undirmaður fræðslumálastjóra. Það er ekki ósvipað því eins og ráðuneytin skiptast í deildir, og mér skilst, að hann verði þá svipað settur og deildarstjórar í ráðuneytunum, sem a.m.k. að forminu til heyra undir skrifstofustjórana. En þó að ég treysti mér ekki til að segja um það, hvort þetta starf, bókafulltrúastarfið, verður fullt starf, sem ástæða er til að launa með fullum starfslaunum, þá finnst mér svona í fljótu bragði, að það mundi ekki verða fullt starf, og þá held ég, að hentugt væri, úr því að þessi embættismaður á að vera undirmaður fræðslumálastjóra, að hann ynni á fræðslumálaskrifstofunni að almennum fræðslumálum, að svo miklu leyti sem hann þyrfti ekki að verja tímanum í þetta sérstaka starf.

Ég minntist á gildistöku l. og það, að ekki er ákveðið í frv., hvenær þau öðlist gildi, og mundi það þá fara eftir almennum ákvæðum um það, hvenær l. öðlast gildi. En eins og hæstv. ráðh. sjálfur vék að, þá hafði ég í huga, að það kynni að vera óhentugt að láta þetta frv. öðlast gildi á miðju ári, einmitt vegna þess, að sveitarfélög og sýslu- og bæjarfélög hafa þegar gert sínar fjárhagsáætlanir og þá vitanlega ekki tekið tillit til þessara greiðslna, þar sem þær breytast, — og ekki einasta sveitarfélögin, heldur má segja það sama um ríkissjóð. Af þessu verða aukin útgjöld, sem ég er búinn að segja mína skoðun um, hvað há verði, og þá kynni að vera líka hentugt að taka tillit til þess, að það er ekki gert ráð fyrir þessum útgjöldum í núgildandi fjárlögum. Finnst mér þetta vera til athugunar. En viðvíkjandi því, að þetta mál þurfi að undirbúa og jafnvel þó að lögin að öðru leyti öðluðust ekki gildi, þá kynni að vera nauðsynlegt, að ákvæðið um bókafulltrúann öðlaðist með einhverjum hætti gildi, þá kann það að vera rétt út af fyrir sig, og sé ég ekki annað en að því mætti koma fyrir í frumvarpinu. Um þetta efni get ég nú ekkert sagt fyrir hönd n. Þetta hefur ekki komið svo til tals í n. Þetta eru aðeins mínar eigin hugleiðingar. En það er sjálfsagt, að þetta atriði verði tekið nánar til athugunar í n., að því er mér finnst.

Við hv. þm. S-Þ. (KK) get ég sagt svipað og hv. þm. Barð. um það, að sjálfsagt er að ræða við hann og taka mikið tillit til hans till. um það, ef hann vill fá einhverjar breytingar á skipun svæða, bókasafnshverfa, eins og það heitir í frv. Það er alveg rétt athugasemd hans, að þrír hreppar Suður-Þingeyjarsýslu sækja miklu meira til Akureyrar en Húsavíkur, og er í raun og veru óeðlilegt, a.m.k. með tvo af þessum hreppum, að þeir skuli vera í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessir tveir hreppar, sem liggja við Eyjafjörð, ættu auðvitað að vera í Eyjafjarðarsýslu, því að það eru alls konar óþægindi, sem þessir menn hafa af því að þurfa að leita til sýslumannsins í Þingeyjarsýslu í staðinn fyrir að bregða sér yfir pollinn, t.d. á Svalbarðsströnd, og finna sýslumanninn í Eyjafjarðarsýslu. Veit ég ekki, hvort þetta með bókasafnið er nokkuð verra en ýmisleg önnur óþægindi, sem af þessu stafa. En þetta mun nú vera í frv. svona vegna þess, að yfirleitt er hér miðað við sýslur í frv. með mjög fáum undantekningum.

Ég veit ekki, hvort það hentaði, skal þó ekkert fullyrða um það, að fara að ákveða sérstakt héraðsbókasafn á Grenivík eða á Svalbarðseyri. Ég hygg, að slíkt bókasafn hefði fremur lágar tekjur og yrði ekki umfangsmikið. En mér fyndist það vel athugandi, að þessir hreppar, a.m.k. tveir þeirra, væru látnir tilheyra Akureyri að þessu leyti, og væri hliðstætt því, að Borgarfjarðarsýslu er skipt samkvæmt frv. á milli Borgarness og Akraness.