03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

143. mál, almenningsbókasöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að bókafulltrúinn er tengdur við starf fræðslumálastjóra eða skrifstofu, er sú, að í núgildandi lögum eru lestrarfélögin lögð undir eftirlit og stjórn fræðslumálastjóra, að svo miklu leyti sem ríkisvaldið hefur afskipti af þeim, og er það því í beztu samræmi við það, sem verið hefur, að halda þeim hætti, enda er þess að gæta, að landsbókasafnið er í eðli sínu töluvert öðruvísi en þessi almenningsbókasöfn. Það er annars eðlis, það er vísindabókasafn og geymslubókasafn miklu meira en þau söfn, sem hér er um að ræða.

Það er ástæðulaust að vera að deila frekar um þetta með bandið á bókunum. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. segir, að eftir brtt. n. er ákvæði í 27. gr. gert hliðstætt ákvæði í 25. gr. En ef n. vildi breyta því, sem var í frv., þá þurfti að flytja um það brtt. Það má segja, að það hefði mátt alveg eins fella niður sérákvæðið um bandið, eins og það er, en það er nú samkomulag um að endurskoða það atriði nánar, og þarf þá ekki frekar um það að ræða.

Vera má, að það sé erfitt að koma því fram, að söfnin verði geymd í góðum, rakalausum húsakynnum, en vitanlega verður að gera þá kröfu til safnanna. Það er krafa, sem verður að framfylgja, eftir því sem færi er á. Hitt er annað mál, að þetta fer allt eftir því, hvað mögulegt er og hvers konar húsakynni eru til á hverjum stað, og verður að beita því með skynsemi.

Ég tel hins vegar mjög koma til athugunar, hvort eigi að bæta því inn, að söfnin skuli vátryggja, og treysti því, að hv. n. athugi það.

Varðandi fsp. hv. þm. Barð. út af 22. gr., þá sýnist mér hann eiginlega hafa misskilið þá grein nokkuð. Ætlunin er sú, að það á ekki að styrkja heimavistarskóla til að koma upp bókasafni, ef á sama stað er til eitt af þeim söfnum, sem talin eru á eftir. Við skulum segja, ef héraðs- eða sveitarbókasafn væri á Staðarfelli eða í Reykjaskóla, þá er ekki ætlunin, að þar verði einnig veittur styrkur til þess að koma upp sérstöku safni í heimavistarskólanum. En þó að væri til héraðsbókasafn í Dalasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu og sveitarbókasafn í hlutaðeigandi hreppum, þá er auðvitað heimilt að styrkja safn í þessum heimavistarskólum, ef ekkert af söfnunum er staðsett í skólunum, því að það er auðvitað ástæðulaust að vera að koma upp tveimur söfnum á sama staðnum. Vonast ég til, að það liggi ljóst fyrir.

Ég tel það rétta ábendingu hjá hv. þm. Barð., að þarna er gert ráð fyrir kauptúni í hreppum, þar sem ekki er víst, að kauptún sé fyrir hendi. Ég vildi beina því til hv. n. að athuga það. Það sýnist vera eins konar yfirsjón hjá n. að hafa gert ráð fyrir þessu.

Loksins beindi hv. þm. því til mín, hvort ég teldi, að viðurlög eða hvaða viðurlög væru við því, ef ekki væru stofnuð þau söfn, sem lögin ákveða, hvort nokkuð væri þá við því að gera. Eftir lögunum er tvímælalaust, að það er skylt fyrir sýslufélögin að eiga hlut að stofnun slíks safns, og það er embættisvanræksla hjá sýslunefndarmönnum, ef þeir fullnægja ekki þessum lögum. Það fer þá sama veg og ef þeir með öðru móti vanrækja sína skyldu, að þá baka þeir sér ábyrgð að lögum fyrir það, og það er þá skylda rn. að hlutast til um, að viðeigandi refsiákvörðunum verði beitt, svo að ég tel, að sýslufélögin eða hlutaðeigandi hreppsfélög eftir atvikum megi ekki telja sér trú um, að þau geti bara sloppið með það að fá ekki opinbera styrkinn. Þar sem sagt er, að þetta sé skylt, þá er það skylda. Og ég legg áherzlu á, að það er mikilsvert að hafa um þetta skyldu, en ekki heimild, því að ef það væri einungis heimild, þá er í sjálfu sér mjög lítið breytt frá því, sem verið hefur, því að eins og hv. frsm., hv. 1. þm, Eyf., réttilega tók fram, þá eru ýmsir staðir á landinu, sem nú þegar gera jafnmikið, ef ekki meira en lögin segja, að gera skuli. Lögin beinast ekki fyrst og fremst að þessum aðilum, sem hafa sýnt sinn góða vilja og skilning, heldur að því að knýja hina til að feta í þeirra fótspor.

Varðandi kostnaðinn hygg ég, að það hafi verið misskilningur hjá hv. frsm., að í grg. hér í frv. sé ekki tekið tillit til þeirrar lækkunar, sem samkomulag varð við n. um. Ég gerði einmitt ráðstafanir til, að þetta væri reiknað út, eftir að menn voru búnir að koma sér saman um lækkunina, og ég veit ekki betur en að það hafi verið gert. Ég hef ekki reiknað þetta sjálfur og get þess vegna ekki sagt það af eigin raun, en ég ætlaðist til þess, að það væri gert, og sá raunar, að búið var að skrifa nýjar tölur ofan í gamlar, og vona, að það hafi verið gert eftir þeim reglum, sem settar eru í frv.