08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls komu fram nokkrar óskir frá hv. dm. um smábreytingar á þessu frv. og nánari skilgreiningu á sumum atriðum. Nefndin hefur athugað þetta og vildi verða sem mest við þeim óskum, sem fram komu um þetta efni, því að hún taldi þær réttmætar, a.m.k. allar skaðlausar. N. ber því fram brtt. á þskj. 437, en þar í eru innifaldar tvær af þeim brtt., sem n. bar fram við 2. umr. og tók þá aftur. 3. brtt., sem n. bar þá fram, er hér aftur í nokkuð breyttri mynd.

Um 1. brtt. á þskj. 437 þarf ég ekkert fram að taka. Hún er aðeins leiðrétting á því, hvaða hreppar í Borgarfjarðarsýslu eigi að vera þátttakendur í héraðsbókasafni á Akranesi.

Hv. þm. Barð. vék að því við 2. umr., að í 3. gr. frv. væru Reykhólar taldir sem einn af þeim stöðum, þar sem héraðsbókasafn ætti að vera, en í frv. er að öðru leyti gert ráð fyrir því, að héraðsbókasöfnin séu í kaupstöðum eða kauptúnum, og orðalag frv. miðað við það. Nefndin taldi því rétt að breyta þessu, því að það er óþarft að tiltaka það, að hreppurinn sé í kauptúni, því að ef kauptún er ekki kaupstaður, þá er það hreppur eða hluti af hrepp. N. leggur því til í 2. brtt. sinni og 3. brtt., að þar sem stendur „kauptún“ í frv. í þessu sambandi komi: hreppur, þannig að hreppur sá, sem héraðsbókasafn er staðsett í, á að greiða til þess alveg eins og áður var tiltekið um kauptún. Telur n. þetta sanngjarnt, því að vitanlegt er, að næsta nágrenni héraðsbókasafns hefur miklu meira gagn af því en þær sveitir, sem fjær liggja.

Hv. þm. V-Sk. óskaði eftir því, að stjórn héraðsbókasafna væri ekki skipuð fimm mönnum, taldi nægilegt, að það væru 3 menn. N. hefur í 4. till. sinni farið hér millileið og lagt til, að stjórn bókasafns sé skipuð 3–5 mönnum, en það fer að öðru leyti þá eftir reglugerð eða ákvörðun ráðh., hvar n. er skipuð 5 mönnum og hvar 3 mönnum. Ég geri ráð fyrir, að það muni þykja eðlilegt, að þar sem kaupstaður og sýsla eru saman um héraðsbókasafn, þá sé stjórnin skipuð 5 mönnum, en þar sem ekki er um kaupstað að ræða, þá sé hún skipuð 3 mönnum. Þetta fyndist mér eðlilegt, en annars er það á valdi ráðh. að fyrirskipa um það, ef þetta verður samþykkt.

5. brtt. n. var flutt við 2. umr. málsins og þá tekin aftur. Þarf ekki að gera grein fyrir henni. Það er aðeins leiðrétting.

Þá kem ég að 6. brtt., sem er við 27. gr. frv. Nefndin hafði flutt brtt. við þessa gr. við 2. umr. málsins, en tók hana þá aftur. Nú ber hún hana fram í dálítið breyttri mynd. Það er út af skyldu til að binda þær bækur, sem hið opinbera sendir bókasöfnunum. Eins og menn muna, stóð í frv. í þessari grein ákvæði um það, að öll þessi rit, sem hið opinbera sendir, skuli binda. Vék ég að því við 2. umr., að þetta ákvæði væri nokkuð hart að því er sum þessi rit snertir. Lét þá hæstv. menntmrh. í ljós, að rétt væri að flokka þessi rit og leggja skilyrðislausa skyldu um að binda sum þeirra, en ekki önnur. Hér leggur n. til að setja skilyrðislausa skyldu til að láta binda Alþingistíðindi og Stjórnartíðindi, en vitanlega er eftir sem áður skylda til þess að binda hin önnur rit, samkv. 25. gr. frv., eftir hentugleikum eða eftir því, sem við verður komið.

Þá er 7. brtt. Þar gerir n. till. um að bæta nýrri grein við frv. á eftir 28. gr. Er það í samræmi við ábendingu hæstv. menntmrh. við 2. umr. hér. Hún er um það, að skylt sé að vátryggja öll bókasöfn, sem lög þessi taka til. Hygg ég, að ekki þurfi að fara um það frekari orðum. 114ér sýnist það svo augljóst og sjálfsagt mál, að verðmæti eins og bókasöfn verður að vátryggja.

Þá vék ég að því við 2. umr. málsins, að mér þætti vafasamt um gildistöku laganna, að láta þau öðlast gildi á miðju ári í ár, þar sem þau gera þó ráð fyrir útgjöldum, bæði úr ríkissjóði og bæjar-, sýslu- og sveitarsjóðum, en allir þessir aðilar eða flestir hafa gengið frá fjárhagsáætlunum sínum fyrir yfirstandandi ár, ríkið t.d. frá fjárlögunum og bæjarfélög flest frá fjárhagsáætlunum. Sveitir munn ekki eins vera búnar að því. Hins vegar var bent á það við umr., að það kynni að vera hentugt, að sum ákvæði frv. kæmu þó til framkvæmda fyrr en á áramótum, t.d. ákvæðið um bókafulltrúa, og ég vil þar bæta við jafnvei ákvæðunum um kosningu bókasafnsstjórnar. Þess vegna leggur n. til, að á eftir 29. gr., sem verður 30. gr., ef tillagan næst áður verður samþ., komi ný gr., svo hljóðandi:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæðin um framlög til bókasafna ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1956.“

Með öðrum orðum: ríki, bæir, sýslur og sveitir eru ekki skyldugar fyrr en frá áramótum að veita fé til þeirra framkvæmda, sem um ræðir í frv. Ég skal taka það fram, að þó að ríkisstjórnin eða fræðslumálastjórnin réði bókafulltrúa fyrr á árinu, þá er það ekki meira en ríkisstj. gerir ákaflega oft, að ráða sér aðstoðarmann til að undirbúa ýmsar framkvæmdir. Teldi ég það algerlega heimilt, þó að þessi brtt. verði samþ., að ríkisstj. réði bókafulltrúa, því að laun hans eru ekki framlag til bókasafns. Hér er aðeins sagt, að ákvæði um framlög til bókasafna taki ekki gildi fyrr en 1. janúar.